25.06.2020
Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi. Hér má finna helstu atriði varðandi notkun þeirra og öryggi:
Vélknúin hlaupahjól (oft kölluð rafhlaupahjól, rafmagnshlaupahjól, rafskútur) tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst., sjá skilgreiningu í c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3 gr. umferðarlaga.
Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.
Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna.
Athugið sérstaklega að börn og ungmenni undir 16 ára aldri eiga skv. lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar en mælt er með að allir noti hjálm á rafhlaupahjóli öryggisins vegna.
Þarf að nota hjálm á rafhlaupahjóli?
Börnum yngri en 16 ára ber samkvæmt lögum að nota hlífðarhjálm. Mælt er með því að fullorðnir noti einnig hjálm enda mikilvægur öryggisbúnaður.
Er aldurstakmark til að aka rafhlaupahjóli?
Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna.
Við minnum sérstaklega á að börn og ungmenni undir 16 ára aldri eiga skv. lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar.
Má aka um með farþega á rafhlaupahjóli?
Nei.
Má aka á akbraut (götu) á rafhlaupahjóli?
Nei, í umferðarlögum kemur fram að það má ekki aka rafknúnu hlaupahjóli á akbraut.
Má aka á rafhlaupahjóli á hjólastígum?
Já það má. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal notast við hjólastíga frekar en gangstétt eða gangstíg.
Má aka á rafhlaupahjóli á gangstétt eða gangstígum?
Já, það má. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal notast við hjólastíga frekar en gangstétt eða gangstíg.
Ef hjólað er á gangstétt eða göngustíg gilda sömu reglur um hlaupahjól þar eins og reiðhjól.
- Þegar hjólað er á gangstéttum og gangstígum skal það gert með því skilyrði að það valdi ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum.
- Gangandi vegfarendur eiga forgang og hjólandi þarf að taka tillit til þess, ekki síst hvað hraða varðar.
- Almennt ættu allir vegfarendur að miða við að í gildi sé hægri umferð og að taka eigi fram úr vinstra megin.
- Þar sem merki aðgreina umferð gangandi annars vegar og hjólandi hins vegar skal virða þau.
- Hjólreiðamaður þarf að hafa í huga að gangandi vegfarandi býst ekki við hröðum og skyndilegum framúrakstri hjólreiðamanns á stígnum. Því er mikilvægt að hjólandi hægi vel á sér og gefi hljóðmerki tímanlega áður en komið er að viðkomandi eða áður en komið er að blindhorni eða beygju.
Upplýsingar teknar frá vef samgöngustofu.