Rætt við Ástþór Jónsson um Lundaballið

„Lundaballið verður haldið þann 28. september í ár og að sjálfsögðu í Höllinni. Veitir ekki af stóru húsi því að Lundaböllin eru að sjálfsögðu langstærstu böllin sem haldin eru hér í Eyjum,“ segir Ástþór Jónsson, talsmaður Bjarnareyinga í spjalli við Tígul.

Tekst Bjarnareyingum að toppa sjálfa sig?

Það markar ákveðin tímamót í Vestmannaeyjum þegar blásið er til Lundaballsins sem er ein af glæsilegri skemmtunum í Vestmannaeyjum. Það er Félag Bjargveiðimanna sem heldur ballið sem veiðifélögin skiptast á um að halda. Síðustu ár hefur það verið haldið í Höllinni og alltaf fullt hús. Nú er komið að Bjarnarey sem alltaf stendur upp úr þegar kemur að Lundaballi. 

Þeirra vandamál er að toppa sjálfa sig frá 

síðasta Bjarnareyjarballi því aðrir geta það ekki.

Og það verður ekkert til sparað. „Hin magnaða Eyjahljómsveit Brimnes mun halda uppi fjörinu. Áætluð eru nokkur heimatilbúin skemmtiatriði þar sem við gerum eingöngu grín að okkur sjálfum eða þannig,“ segir Ástþór en stundum er nokkuð fast skotið en allt innan marka. „Það er þó ekki fullmótað enda getur margt gerst á einum mánuði.“

Lundinn sóttur í Grímsey

Þegar kemur að lunda á Lundaballi er brugðist við lítilli sem engri veiði í Vestmannaeyjum. „Undirbúningur hófst í október á síðasta ári með því að panta gistingu í Grímsey og fá að veiða lunda fyrir Lundaballið í ár. Fórum við 14 manna hópur út í Grímsey, bæði veiðimenn og gestir þeirra. Var það stórkostleg upplifun að koma þangað og hvet ég fólk að heimsækja Grímsey og Grímseyinga því gestrisnara fólk hef ég ekki hitt.“

Lundinn er ekki það eina sem verður á matseðlinum, ýmsir fiskréttir verða galdraðir fram að hætti Einsa Kalda. „Að sjálfsögðu verður lambalæri fyrir þessa sem borða ekki lunda eða fisk. Svo verður fullt af alskonar grænmeti fyrir Val Smára að beiðni tengdaföðurs hans.“

Það sem helst háir Bjarnareyingum er lítillætið og þar er Ástþór engin undantekning. „Þar sem við Bjarnareyingar erum mjög lítillátir ættlum við ekkert að stæra okkur af því þótt við séum í fallegustu og bestu eyjunni. Erum ekkert að flagga því svo mikið. Við eigum tvo mjög  fátæka nágranna sem treysta sér ekki til þess að halda Lundaball. Viljum við helst ekki særa þá en það segir sig sjálft að Bjarnareyjarböllin eru bestu Lundaböllin enda einstaklega skemmtilegur hópur í þessu félagi,“ segir Ástþór og þá engu logið.

Lét þetta hugljúfa kvæði fylgja með.

Ljúft við lifum 

í Bjarnareyju

lítill Lundi en 

minna um meyju

Það er tárið

sem andan hressir

Við vonum bara

að bráðum hvessir

Hlöðver Guðnason:

Eyja með drottningaryfirbragð

Bjarnarey er Eyja Vestmannaeyja, tignarleg og hefur þetta drottningaryfirbragð sem einkennir allar flottar eyjar. Þeir sem hafa tilfinningu fyrir fegurð kikna í hnjánum og verða agndofa þegar þeir komast í snertingu við Bjarnarey. Hvergi er morgunkyrrðin fegurri og sólsetur í Bjarnarey er gulli líkast. Hafi náttúran samið tónverk þá var það samið í Bjarnarey. Þar var lífsins melodí samin í miðju berginu sennilega um miðjan maí. Gargandi snilld. 

Bjarnarey heldur flottustu lundaböllinn vegna þess að mannauður, þekking og einstakur húmor kemur þar saman í heldur betur skemmtilegum félagsskap. Bara snillingar. Þetta á sér sennilega rætur í heimsfrægum kvöldvökum í Bjarnarey. 

Ljúft við lifum…

– Ómar Garðarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search