Ræða Kára Bjarnasonar frá sjómannadeginum

Kári Bjarnason forstöðumaður Safnahúss Vestmannaeyja var með ræðu á sjómanndaginn sem við birtum hér. 

Sjómannadagsráð, heiðursgestir og aðrir háttvirtir þátttakendur og gestir. Ég leyfi mér að hefja mál mitt á kvæði Þorsteins Gíslasonar skálds og ritstjóra sem framar öðrum rithöfundum lét sig varða kjör og aðstæður sjómanna: 

 

Sjómanns líf þótt sýnist vera

sífellt stríð við afl

dulið, bæði djúps og skýja,

dauða og lífsins tafl,

alltaf vagga völt und iljum,

veldi stormsins yfir þiljum,

– töfraheimar hranna laga

hugann til sín draga.

 

Þorsteinn lýsir hér vel hinum hrikalegu og mótsagnakenndu aðstæðum á vinnustað ykkar, ágætu sjómenn, sem þessi dagur er helgaður. Annars vegar er töfrum slungin undraveröld ofin úr bárum og brimróti. Hins vegar er líf sjómannsins sífelld barátta, jafnvel upp á líf og dauða. 

Hörð örlög hafa of oft orðið hlutskipti sjómanna í gegnum aldirnar. Einar Benediktsson, annar hollvinur sjómanna, lýsir vel þeim óstöðvandi ofsa sem staðið er frammi fyrir er hann ávarpar útsæinn þessum skáldlegu orðum:

 

En stoltastur ertu og stærstur í roki á haustin.

Strandmölin grýtir landið. Þú seilist í naustin.

Skýin þau hanga á himninum slitin í tötra. –

Það hriktir í bænum eins og kippt sé í fjötra.

 

Þeir gengnu Vestmannaeyingar sem ég hef mest verið að rannsaka undanfarin ár bjuggu í slíkum bæjum sem oft hrikti í, biðu þar marga stundina eigin örlaga og sinna nánustu eða brutust út á Skansinn til að reyna að festa sjónar á bátskel á öldutoppum. Hvílík andstæða sem sá veruleiki er við heim nútímans! Við gætum ekki þótt við vildum sett okkur að gagni inn í þau spor, a.m.k. ekki við landkrabbarnir. 

Þó skal þess nú freistað að nokkru. Ástæðan er ekki einungis sú að við viljum muna og læra af sögunni, ástæðan er einnig þau gleðilegu tímamót sem hver nýr dagur sem nú líður færir okkur. Tímamótin eru: Ekkert banaslys á sjó! Nýliðið ár, árið 2021, var fimmta árið í röð án banaslyss á sjó við Ísland. Þegar litið er til Vestmannaeyja sérstaklega eru tímamótin í ár ekki 5 heldur 20 ár, en síðasta banaslys á sjó hér var 23. febrúar árið 2002 er sá hörmulegi atburður varð að tveir menn fóru í hafið en aðrir tveir björguðust. Hver dagur sem líður svo að allir komast heilir heim er þakklætisdagur. Óskandi er að líðandi ár beri okkur sömu gæfu í fang og sem allra flest ár eftir það. Þessi ánægjulegi árangur er niðurstaða af þrotlausu starfi við að efla öryggi sjómanna, og hafa Vestmanneyingar ekki látið sitt eftir liggja hér, og nægir að minna á þróun sjálfvirks sleppibúnaðar fyrir björgunarbáta í því sambandi.

En nýtum nú tímamótin til að hverfa andartak á vit sögunnar og skyggnumst inn í veröld þar sem sjósókn var með allt öðrum brag. Hverfum handan hinna stóru vélknúnu skipa nútímans sem geta beðið af sér verstu veðrin og náð í sitt fyrirframgefna magn þegar leyfir, hverfum til veruleika þar sem enginn Slysavarnarskóli hefur gerbreytt þekkingu og færni sjómanna, horfin er einnig nútímatæknin til að meta aðstæður og láta vita enda engin tilkynningaskylda komin eða Landhelgisgæsla nærri. Í stuttu máli er allt það sem eykur og bætir öryggi og öryggisvitund sjómanna á hafi úti horfið að fullu. 

Dagurinn sem við stöldrum við kom og leið hjá fyrir tæpum 153 árum hér í Vestmannaeyjum og sýnir okkur inn í heim ógnar og óvissu. Dagurinn er 25. febrúar 1869, einn alltof margra daga sárra harma og mikils missis. Gervallur Eyjaflotinn eða a.m.k. stærstu skipin, að einu undanskildu, ýtir úr vör eftir aftakanótt. Þennan morgunn hafði lægt þótt brim væri enn allmikið. Enda þótt heimildir séu furðugóðar um þá atburði sem nú fóru í hönd er ekki lengur unnt að segja nákvæmlega hversu margir Eyjasjómenn eða Eyjabátar lögðu af stað, því aðeins heildartalan fyrir alla bátana og sjómennina sem lögðu úr höfn í Eyjum er nefnd, samtals 14 skip og 218 sjómenn. Nokkuð má þó skálda í skörðin. Þannig sjáum við t.d. að formenn 7 skipanna voru þekktir Eyjamenn, formenn hinna 7 skipanna voru landmenn, ofan úr Mýrdal, undan Eyjafjöllum og frá Landeyjum. Ef við gefum okkur, sem auðvitað er óvíst, að Eyjasjómenn hafi fylgt Eyjaformönnum en ekki öðrum, þá hafa a.m.k. 108 komið frá Vestmannaeyjum. 

Húsvitjunarbækur eru allar varðveittar á Skjalasafninu hér og þar kemur fram að í árslok árið áður eða 1868 eru búsettir í Eyjum samtals 556 einstaklingar, þar af líklega um 250-300 á aldrinum 17-65 ára. Engar heimildir eru um sjókonur í Vestmannaeyjum frá þessum tíma, og þar sem konur virðast að jafnaði hafa verið heldur fleiri en karlar þá getum við ályktað að 120-140 karlar hafi búið í Eyjum á þessum tíma á þeim aldri að hafa komið til greina sem sjómenn, allt frá hálfdrættingum að hefja sinn feril til gamalla sjóhunda sem ekki voru enn búnir að ganga að fullu á land. Með öllum fyrirvörum getum við þá sagt að a.m.k. 75% þeirra sem töldust fyrirvinnur fyrir sitt heimili og sitt bú í Vestmannaeyjum hafi ýtt úr vör þennan óhappadag. 

Vetrarvertíðin 1869 hófst að líkindum 3. febrúar, fyrsta virka dag eftir Kyndilmessu, og er því nýhafin þetta árið. Ördeyða er sögð hafa verið árið á undan og hásetahluturinn allt það ár aðeins 50-200 fiskar og þættu ekki merkileg laun í dag. En það versta var eftir. Þau 14 skip og þeir 218 sjómenn sem ýttu úr vör 25. febrúar 1869 komust ekki lengra en austur undir Bjarnarey. Þar neyddist hersingin til að halda sig öll á mjög litlum bletti austan eyjunnar í vari, því eins og segir: „… aftaka brim gjörði nú við eyjuna alla, og ef nokkuð var frá vikið, var allt óviðráðanlegt sökum ofviðris. Þarna urðu menn að láta fyrirberast allan daginn og alla næstu nótt. Var það mjög erfitt, sérstaklega eftir að myrkrið skall á, að verjast ákeyrslum á önnur skip eða bjargið. Köll og fyrirskipanir heyrðust illa, því að veðurgnýrinn og brimöskrið yfirgnæfðu allt. En þó tjáði ekki annað en gera það ítrasta sem unnt var, til að verjast áðurgreindum hættum. Er það samhljóða álit þeirra, er í útilegunni voru, að þetta hefði ekki tekist, og því enginn sloppið lifandi úr háskanum, ef ekki hefði viljað svo til, að tungl var í fyllingu og birta því sæmileg.“ (tilvitnun lýkur)

Eftir að hafa þannig með óskiljanlegum hætti tekist að hírast án þess að krókna eða rekast saman við önnur skip eða bjargið og í skjóli af Bjarnarey í 36 til 48 tíma náðu 200 stjómenn aftur heim til Eyja en 18 drukknuðu. Fjórir önduðust af kulda og vosbúð og er ekki ljóst af hvaða skipum þeir komu en eitt skipanna, Blíður, kallaður sexæringur en með Eyjaformann í 14 manna áhöfn varð fyrir ólagi frá Breka, milli Elliðaeyjar og Bjarnareyjar og fórust þar allir. 

Lítum inn á eitt heimili þeirra sem eiga um sárt að binda þennan dag. Hvernig var umhorfs og hver urðu eftirköstin? 

Við skulum staldra við á Gjábakka en þar bjó sá er smíðaði skipið sem fórst, Eiríkur Hansson ásamt konu sinni, Kristínu Jónsdóttur frá Landeyjum. Var Eiríkur háseti um borð og fórst því eins og aðrir. Eftir sat húsfreyja en þau hjón höfðu þá eignast 15 börn. Hver urðu örlög þeirra sem eftir sátu? Fyrst er að geta þess að með Eiríki fóru tveir synir hans og aðrir tveir tengdasynir í hafið en allir fimm voru á skipinu sem sökk. 

Þegar sá hörmungaratburður varð að fimm úr fjölskyldunni fóru á sama degi höfðu 9 af 15 börnum þeirra hjóna þegar andast úr ginklofanum, aðeins    3 daga til 7 mánaða gömul og eftir sat þá ekkjan með það sem eftir lifði, eða 4 börn. Af þeim flytjast 3 til Utah og koma aldrei aftur. Afraksturinn er því sá að af 15 barna hópi vex upp í Vestmannaeyjum aðeins ein stúlka sem deyr ríflega fertug. Þessi eina eftirlifandi í Eyjum eignaðist eitt andvana fætt barn og átti fjögur önnur sem öll með tölu setjast að í Utah. Ættleggur þessa stóra hóps er því enginn í Eyjum þrátt fyrir allan barnaskarann. Til allrar hamingju fóru örlögin sparlega með að leggja svo níðþungar birgðar á heimilin að enginn stæði eftir enda þótt allir sjái þá áskorun sem það er fyrir lífslottóið að vera munstraður á opinn árabát yfir hávetur.

Sú veröld sem ég hef hér brugðið upp í andartaks skuggsjá, og til samanburðar við þau tímamót sem núna er minnst, er til allrar hamingju horfin. Sú kona sem í dag leggur á sig að eignast 15 börn getur átt sér betri vonir um afkomendur en hér var rakið. Á undraskömmum tíma breyttust einnig aðstæður í Eyjum. Ginklofinn varð sigraður, banaslysum á sjó sem höfðu öldum saman  verið umhverfis Eyjar 5-10 að meðaltali á hverju einasta ári fóru niður í eitt banaslys að meðaltali fyrir allt landið á aðeins örfáum áratugum þegar dró fram á 20. öldina. Og nú þegar við siglum hraðbyri gegnum þá tuttugustu og fyrstu göngum við loksins til móts við það öryggi sem við öll þráum og vonum að haldist sem allra, allra lengst – ekkert banaslys á sjó ár eftir ár.

Að lokum vil ég geta þess að í sýningarrými Sagnheima, byggðasafns, er veggur einn þakinn nöfnum og ártölum. Yfirskriftin er Til minningar og þar hefur verið reynt að safna saman nöfnum þeirra sem farist hafa í hafi umhverfis Eyjar svo langt aftur sem heimildir ná. Núverandi Sjómannadagsráð á heiður skilið fyrir að minnast þess að í ár eru 20 ár frá síðasta banaslysi á sjó við Vestmannaeyjar með því að hefjast handa við að koma upp nýju minnismerki um hetjurnar okkar, sjómenn er létust í hafi. Þar verða fest nöfn þeirra sjómanna sem heimildir eru um að hafi drukknað í hafi úti fyrir Vestmannaeyjar og stuðst við minningartöfluna í Sagnheimum, ómetanlegar viðbætur frá Torfa Haraldssyni sem er óþreytandi við að bæta í sjóðinn og aðrar heimildir sem ekki var vitað um fyrr. En þrátt fyrir alla aðstoðina og alla þaulleitina þá munu alltaf vanta nöfn sem enginn þekkir lengur. 

Nýja minnismerkið verður staðsett við Landakirkju, ekki langt frá Minnismerkinu um drukknaða við Vestmannaeyjar, hrapaðra í björgum eyja og þeirra sem líf létu í flugslysum hér.  16 ár mun hafa tekið að safna fyrir minnismerkinu sem þegar er komið. Núverandi Sjómannadagsráð kom saman og á 16 mínútum var búið að safna fyrir nýja minnismerkinu. Þetta eru sannarlega öflugir karlar! En kraftur þeirra og jákvæð viðbrögð samfélagsins, bæjarstjórnar, sjávarútvegsfyrirtækja og einstaklinga, er líka vitnisburður um breytta tíma. Við viljum öll minnast þeirra sem á undan fóru og sóttu þennan sama sjó enda þótt aðbúnaður og örlög væru svo gerólík. Sjómannadagsráð á því miklar þakkir skildar fyrir að minnast þeirra allra sem horfið hafa í hafið úti fyrir Eyjum á öllum tíma. Ég á aðeins þá ósk heitasta að langur, langur, tími líði þar til þarf að rita nýtt nafn á minnismerkið sem afhjúpað verður á næsta ári. Til hamingju með daginn, kæru sjómenn! Þökk fyrir.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search