Lundapysjutímabilið er heldur seint á ferðinni þetta árið en virðist nú hafa náð hámarki. Nánar tiltekið þann 7. september síðastliðinn þegar 228 pysjur voru skráðar inn á Lundi.is. Það er þó langt frá því að vera met, en mesti fjöldi pysja á einum degi var 29. ágúst 2020 þegar 824 pysjur voru skráðar.
Þegar þetta er skrifað hafa verið skráðar 1561 pysja á Lundi.is þetta árið. Af þeim hafa 656 eða rúm 40%, verið vigtaðar að meðalþyngd 254 g. Sú þyngsta 539 g en sú léttasta 143 g.
Enn eru þó að finnast fullt af pysjum daglega og er rétt að hvetja fólk til að vera duglegt að skrá þær inn á síðuna. Það er mjög einfalt og alls ekki nauðsynlegt að vigta pysjurnar fyrir skráningu.
Um þessar mundir eru þó ekki einungis lundapysjur að finnast í bænum heldur finnast einnig ungar skrofunnar og sjósvölunnar. Þessir ungar fljúga að ljósunum í bænum líkt og pysjurnar. Það gera einnig ungar stormsvölunnar, sem eru þó aðeins seinna á ferðinni.
Starfsmenn Náttúrustofu Suðurlands vilja gjarnan fá að merkja þessa fugla og er fólk beðið um að hafa samband við Rodrigo í síma 777 8159 ef þið finnið skrofur eða sjósvölur. Þessum fuglum er best að sleppa þegar farið er að rökkva.
Ef þú finnur meidda, blauta, skítuga, dúnaða eða mjög litla pysju eða annan fugl, eins og t.d. skrofu eða stormsvölu er gott að fara með hann til á Sea Life Trust svo hægt sé að meta hann og gefa honum viðeigandi aðhlynningu. Eftir opnunartíma er hægt að setja alla fugla í grænt kar við bílastæðið austan við Sea Life Trust.
Addi í London kíkti á svæðið þar sem lundapysjunum er sleppt og tók þessar skemmtilegur myndir:
Ljósmyndir/Addi í London