Það eru þær Sandra Erlingsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir sem eru á bakvið Ps. Árangur en þær hófu samstarf í sumar. Tígull fékk að vita meira um starfsemi þeirra
Sandra er 23 ára og útskrifaðist með Bs. í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík sumarið 2021. Hún stendur nú í ströngu að ljúka námi frá Precision Nutrition og verður þá heilsu- og næringarþjálfari. Sandra er uppalin í Vestmannaeyjum en hefur komið víða við með fjölskyldunni sinni seinustu ár. Hún hefur verið í handbolta síðan hún var 6 ára og hefur alla tíð verið mikil íþróttastelpa og haft mikinn áhuga á öllu sem tengist heilsu og íþróttum. Hún er núna á sínu öðru tímabili með EH Aalborg í Danmörku. Sandra glímdi við átröskun í nokkur ár og síðan þá hefur brunnið fyrir því að hjálpa fólki með sína næringu og heilsu.
Perla er 25 ára og útskrifaðist með Bs. í íþróttafræði frá Háskóla Íslands á Laugarvatni árið 2018. Perla útskrifaðist með diplómu í íþróttasálfræði frá háskóla í Barcelona árið 2020 og er núna að klára næringarþjálfaranám frá Working Against Gravity. Perla er úr sveit í Hrútafirði á Norðurlandi Vestra, spilar handbolta með Fram og er núna búsett á Selfossi með eiginmanni og 5 mánaða syni. Hún hefur mikinn áhuga á öllu tengdu heilbrigðum lífsstíl og næringu, og leggur mikinn metnað í að aðstoða aðra í þeim málum.
Hvernig kynntust þið?
‘’Við vitum ekki alveg hvernig við kynntumst almennilega, en við hittumst fyrst á landsliðsæfingum í handboltanum fyrir 5 árum og vorum svo bara allt í einu orðnar góðar vinkonur. Höfum við verið mjög nánar síðan og erum við ótrúlega spenntar yfir því að vera búnar að stofna saman fyrirtæki í okkar sameiginlega áhugasviði. Við höfum heyrt að við séum týndu systurnar sem sameinuðumst þarna á landsliðsæfingunum fyrir 5 árum.
Hvað er Ps. Árangur?
Ps. Árangur er fyrirtæki sem sérhæfir sig í næringarþjálfun, en hugmyndin um að stofna Ps. Árangur varð nánast bara til á einu kvöldi. Sandra var í símanum við pabba sinn þegar hann spurði hvort það væri ekki komin tími á að gera það að alvöru núna að fara að vinna með næringu, þar sem hún hafði mikið verið að hjálpa ungum stelpum með sitt samband við mat. Fyrsta manneskjan sem Sandra hugsaði að væri svo sannarlega góð og tilvalin með sér í þetta verkefni var Perla, en hún var líka sjálf reglulega að gefa fólki næringarráð. Síðan Sandra tók upp símann á seinasta ári hefur ekki verið aftur snúið.
‘’Það hefur verið ansi skrautlegt að vinna í að stofna fyrirtæki saman í sitthvoru landinu og Perla nýbökuð móðir en við gáfum okkur góðan tíma í að skipuleggja og setja upp fyrirtækið nákvæmlega eins og við vildum hafa það. Við eyddum miklum tíma saman í sumar og hafa svo fjarfundir verið daglegt brauð síðustu mánuðina.’’
Fyrir hverja er Ps. Árangur?
Ps. Árangur er fyrir alla! Sama hvort þú viljir þyngja þig, létta þig, verða sterkari, ná framförum í íþróttum eða bara lifa heilbrigðum lífstíl.
Markmiðið okkar með næringarþjálfun Ps. Árangurs er að hjálpa fólki að læra hvernig hægt er að fá það allra besta út úr næringunni. Við notumst við hugmyndafræðina Macros (macros = macronutrients) en Macros snýst um það að finna út nákvæmlega hversu mikið einstaklingur þarf að innbyrða af næringu til þess að líða sem best og ná sínum markmiðum.
Það eru engin boð og bönn, ekkert sem er “bannað” að borða, heldur borðar einstaklingurinn það sem hann langar í en skráir allt niður. Fljótlega lærir fólk svo inn á það hvað það er sem hentar þeirra líkama best og verður því mun meira meðvitað um hvað, hvenær og hversu mikið þau vilja “leyfa sér’’. Að skrá sig í næringarþjálfun á ekki að vera álitið sem “átak/megrun’’ sem er fylgt 110% í X margar vikur, síðan sé öllu hætt og fólk þá fljótlega komið aftur á sama stað og það var.Heldur leggjum við mikla áherslu á að þessi vegferð með okkur verði lífstílsbreyting sama hvort hún sé smá eða mikil. Næringaþjálfunin okkar á að vera fróðleikur, kennsla á nýjar venjur í mataræði, lífstíl og hugarfari, sem mun svo nýtast áfram í framtíðinni.
Hvernig virkar þetta?
Eins og staðan er núna erum við að bjóða upp á amk. 8 vikna næringarþjálfun.
Það sem er innifalið í pakkanum er:
- – Rafræn næringarþjálfun, með mikilli eftirfylgni frá þjálfara.
- – Rafrænt skjal, Árangurs skjalið þitt, sem verður þín dagbók í 8 vikur, en þar skráir þú inn ýmsar upplýsingar daglega.
- – Vikuleg verkefni, sem snúast að venjum í mataræði, hugarfari, almennri heilsu og fleiru.
- – Handbók Ps. Árangurs, sem er full af fræðsluefni um allt sem tengist góðri næringu og þar finnast svör við flestum spurningum sem gætu kviknað.
- – Youtube myndskeið með fræðslu- efni um hvernig við notum forritið My Fitness Pal.
- – Aukalega fylgir með 8 vikna æfingaáætlun fyrir þá sem vilja nýta sér það, en hún er hönnuð til að henta byrjendum sem og lengra komnum.
Fyrir þá sem vilja skrá sig – hvernig er best að hafa samband?
Senda okkur email á info@psarangur.is eða senda okkur skilaboð á instagram eða facebook ef fólk hefur spurningar
* Við erum með forsöluverð fram að miðnætti á miðvikudag (27. október) fyrir 8 vikna námskeiðið okkar sem hefst 1.nóvember.
Forsöluverðið er 19.990 kr.
(almennt verð er svo 24.990 kr.)