Fimmtudagur 29. febrúar 2024
Grímur Gíslason

Pælt í frænkunum Ef og Hefði

Það er dulítið skemmtilegt að spá stundum í frænkurnar Ef og Hefði. Þær geta sýnt svo margar myndir og niðurstaðan af pælingum um þær er alltaf örlítið óræð. Ef til vill er sú niðurstaða sem kemur út úr pælingunum rétt og ef til vill er hún röng. Enginn veit hina réttu niðurstöðu varðandi Ef og Hefði. Það gerir enn meira spennandi að spá í þær frænkur.

Einkavinavæðing Elliða!

Umræðuhefð varðandi bæjarpólitíkina í Vestmanneyjum hefur breyst ótrúlega mikið á skömmum tíma. Fyrir fjórum árum og þaðan inn í fyrri tíð þótti eðlilegt og sjálfsat að gagnrýna það sem gert var. Fyrrverandi bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðismanna í Eyjum, Elliði Vignisson, fór ekki varhluta af þessu. Hann þótti safna að sér Já-fólki, og stunda Einkavinavæðingu í störfum sínum.

Eðlilegt þótti að ræða og gagnrýna á þann hátt á þessum tíma, en síðan varð einhver umbylting í þessum efnum með brotthvarfi Elliða. Skyndilega var gagnrýni orðin niðurrifsstarfsemi, neikvæðni og persónulegar árásir. Já nánast bara fúlmennska. Ekki ætla ég að reyna að meta hvað var satt og rétt í þessum ákúrum sem áberandi voru í umræðunni, en þær áttu örugglega rétt á sér að mati þeirra sem settu þær fram.

Hvað Ef og Hefði?

Ég hef því stundum velt fyrir mér, með ýmis mál sem upp hafa komið á sl. fjórum árum, og eru örugglega gagnrýniverð, hvernig umræðan Hefði orðið Ef og Hefði Elliði verið við völd. Nokkur dæmi væri hægt að taka en það væri nú að æra óstöðugan að fara ofan í þau öll.

Hvað hefði þá verið sagt?

Síðustu vikurnar hef ég t.d. velt því fyrir mér hvernig umræðan Hefði þróast Ef bæjarstjóranum Elliða, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, Hefði verið boðið að kaupa húsnæði sem falt var og var í eign einhverra félagasamtaka og bærinn hafði verið með rekstur í því og hugðist jafnvel vera með starfsemi í húsnæðinu áfram.

Ef Elliði Hefði afþakkað það að bærinn keypti húsnæðið, án þess að fara með það í formlegt ferli innað bæjarkerfisins, hver Hefðu viðbrögðin þá orðið. Ef að síðan Hefði farið svo að vinir eða vandamenn Elliða Hefðu jafnvel einhverja vitneskju, kannski frá honum, um að bærinn hyggðist gera nokkurra ára leigusamning um húsnæðið við eiganda þess sem gæti orðið sæmilega arðbær og þeir hefðu í framhaldinu boðið þokkalega vel í eignina og fengið hana. Ef að í framhaldinu Hefði svo bæjarsjóður, sem Elliði stýrði, gert samning við nýju eigendurna, vandamenn Elliða, um leigu á húsnæðinu hvað Hefði verið sagt þá?

Hefði Ef til vill verið talað um einkavinavæðingu, spillingu eða eitthvað slíkt?

Ég veit það ekki en það gæti alveg verið, Ef að umræðuhefðin Hefði verið eins og hún var áður en allir urðu sanntrúaðir.

Óútreiknanlegar frænkur

En eins og áður sagði er alveg ómögulegt að spá í þetta með Ef og Hefði. Þær frænkur eru svo óútreiknanlegar að „gamall og fúll Íhaldsmaður“ eins og ég get ómögulega áttað mig á þeim frænkum í nútímanum?
Grímur Gíslason

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search