Laugardagur 26. nóvember 2022

Óvænt hrekkjavaka

 

,,Nauðsynlegt að viðhalda barninu í sér“

Hrekkjavaka var haldin hátíðleg víða um heim, þar á meðal hér á landi um síðustu helgi. Vinsældir þessarar hátíðar hefur verið að aukast mikið á síðustu árum. Hrekkjavaka er oftast haldin kvöldið fyrir allrahelgarmessu, þann 31. október en sumir nýttu þó alla síðustu helgi í gleðina eins og við Eyjamenn gerðum. Auglýst var að nemendur í GRV mættu mæta í búningum föstudaginn 28. október og gera sér dagamun í skólanum. Kennurum við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum fannst því gott tækifæri á að hoppa á vagninn og taka þátt í gleðinni en þó með aðeins öðruvísi sniði. 

 Þeir ákváðu því að koma nemendum sínum skemmtilega á óvart sl. föstudag. Þeir tóku sig til og gerðu skólann að skelfilegu draugahúsi án þess að nemendur vissu af. Mikil leynd ríkti yfir þessu óvænta ætlunarverki þeirra og mættu allir kennarar samviskusamlega, hrikalega spenntir á fimmtudeginum eftir að skóla lauk til þess að skreyta. Mikið var lagt í skreytingar um allan skóla og margar skreytingarhugmyndir komu til tals og voru sumar þeirra framkvæmdar. Fjórum tímum seinna var búið að skreyta skólann hátt og lágt og reynt að gera hann eins ,,skelfilegan“ og hægt var. Búið var að líma fyrir glugga, færa til hluti, búa til lík, slökkva ljós, setja á drungalega tónlist og margt fleira. Í sal skólans var spiluð hrollvekjumynd á skjánum sem rúllaði yfir daginn. Gamalt dót var sótt úr geymslu skólans og fengu gamlir hlutir ný hlutverk, má þar til dæmis nefna skyndihjálpardúkku skólans sem fór með leiksigur þennan dag sem lík sem hafði hrasað í tröppunum með bor í hönd og útlit hennar eftir því. Kennarar týndu líka til allt sem þeir áttu í sínum eigin geymslum til þess að nota sem leikmuni, slíkur var áhuginn og metnaðurinn. Daginn eftir mættu margir kennara klæddir í hina ýmsu búninga og tóku á móti nemendum sínum í anddyri skólans við góðar undirtektir, enda einstaklega hressir og skemmtilegir krakkar í skólanum okkar. Margir nemendur höfðu líka orð á því að næst þegar þetta yrði gert langaði þeim að vera með og mæta líka í búning og taka þetta alla leið. Þetta var virkilega vel heppnaður dagur sem gladdi nemendur og ekki síður kennara skólans. Það er jú öllum hollt að fara aðeins út fyrir rammann, hafa smá húmor fyrir sjálfum sér og hlæja saman.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá þessum frábæra degi.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is