Óskar Pétur fyrstur í röð ljósmyndara í Einarssstofu:

Óskar Pétur fyrstur í röð ljósmyndara í Einarssstofu:

Tók sínar fyrstu myndir á Kodac Instamatic á fermingardaginn
Þeir eru ekki margir viðburðirnir í Vestmannaeyjum á síðustu árum og áratugum þar sem Óskar Pétur er ekki mættur með myndavélina. Þjóðhátíð, goslok, þrettándinn, hann lætur sig ekki vanta. Svo allar hinar uppákomurnar sem settar eru upp til að gleðja okkur hin eða eitthvað gerist sem telst fréttnæmt er, þá er Óskar Pétur aldrei langt undan. Hann tekur líka myndir af því sem er að gerast í daglega lífinu og því síbreytilega myndefni sem Eyjar bjóða upp á. Hann verður fyrstur í röð ljósmyndara til að sýna í Einarsstofu næstu 13 laugardaga.
Óskar Pétur hefur unnið fyrir stærstu blöð landsins og myndir hans hafa ratað í fjölmiðla um allan heim. Nú fá bæjarbúar tækifæri til að sjá hluta af myndum hans í Einarsstofu nk. laugardag kl. 13.00. Er hann fyrstur í röð ljósmyndara sem næstu 13 laugardaga sýna myndir sínar í Einarsstofu á þessum tíma. Óskar Pétur verður einn en oftast verða þrír ljósmyndarar sem sýna rúllandi ljósmyndir á sýningartjaldi.
Viðfangsefnið er 100 ára afmælisbarnið, Vestmannaeyjar og efnistökin verða eins ólík og hið margbrotna viðfangsefni. Þegar hafa um 40 einstaklingar skráð sig til þátttöku. Möguleiki er á því að bæta við örfáum ljósmyndurum. Boðið verður upp á tónlistaratriði á völdum dagskrám. Stefán Jónasson á hugmyndina að sýningunum sem eru í nafni Afmælisnefnd Vestmannaeyjabæjar. Hafa Stefán, Kári Bjarnason og Ómar Garðarsson unnið að undirbúningi.

„Ég byrjaði að taka myndir á fermingardaginn, 14. maí 1972. Fékk tvær myndavélar í fermingargjöf, hinar frægu Kodak Instamatic sem margir á mínum aldri muna eftir. Frægasta myndavél sögunnar með kassetum og kubb og myndavélar sem Stuðmenn gerðu ódauðlegar í myndinni Með allt á hreinu. Þetta voru minnir mig tólf mynda kassettur og gat tekið nokkra daga að taka myndir á eina kassettu,“ segir Óskar Pétur um þessa frumraun sína í ljósmyndun.
„Það var dálítið dýrt að vera ljósmyndari á þessum árum því það þurfti að framkalla filmurnar. Fór með þær í Fótó sem var á Þingvöllum sem eyðilegðist í gosinu. Það var svo haustið 1976 sem ég fæ fyrstu alvöru myndavélina, Olympus OM 1. Þá fór þetta að fara af stað. Ég var að vinna í Netagerðinni hjá Ingólfi Te og hafði því efni á að fara með filmur í framköllun. Svo var maður sjálfur að framkalla svart-hvítar filmur og stækka myndir sem er alltaf gaman.“
Óskar Pétur var alltaf með myndavélina með sér sama hvert farið var. „Maður fór út að labba eða út á sjó, alltaf var myndavélin með. Ég var að taka þetta saman um daginn og þá kom í ljós að ég tók 8000 myndir á filmu. Maður var byrjaður að búa og myndaði börnin sín en maður tók líka þátt í lífsins baráttu og þetta var dýrt,“ segir Óskar Pétur sem hélt samt áfram að mynda.
„Ég fæ fyrstu alvöru stafrænu myndavélina 2006. Hafði átt litlar vélar en þetta var Nikkon D 50 sem var keypt fyrir mig í Kanada. Fæ hana á sunnudagskvöldi. Fer heim í kaffitíma á mánudegi og tek myndavélina með mér til að sýna vinnufélögunum, þennan flotta grip. Þá er verið að hífa kirkjuklukkuna í Landakirkju. Júlíus Ingason var að mynda fyrir Eyjafréttir og Gísli Óskarsson fyrir Stöð 2. Ég stoppaði og myndaði og sendi á Jóhann Inga sem var með Vaktina. Þar með var ég kominn inn í þessa hringiðu og er enn. Hefur bara myndað og myndað.“
Óskar Pétur hefur myndað fyrir Eyjafréttir, Vaktina, Morgublaðið og Fréttablaðið. „Líka Fiskifréttir, Ægi og svo má segja að myndir frá mér hafi farið um allt. Í blöð erlendis og meira að segja í Ástralíu. Þar fékk maður mynd frá mér sem hann setti í bók sem hann var að gefa út. Ég á þá mynd að hvolfi þar niður frá,“ segir Óskar Pétur og hlær.
Leggurðu áherslu á eitt fremur öðru þegar þú ert að mynda? „Kannski er ég alltaf á vitlausum stað en ég hef aldrei dottið ofan í skítuga drullupollinn. Auðvitað hafa komið upp neikvæðir hlutir, brunar og slys en það er alltaf miklu skemmtilegra að mynda það jákvæða en maður fær ekki öllu ráðið. “
Þegar minnst er á að hann og Sigurgeir Jónasson séu þeir einu sem sýna einir og sér segist Óskar Pétur bera hlýjan hug til Sigurgeirs. „Hann var sá sem kenndi mér að mynda eftir að ég fékk fyrstu alvöru myndavélina. Höfnin, skipin og sjómennirnir okkar er viðfangsefnið á sýningunni á laugardaginn. Myndir frá ýmsum tímum og þar má sjá margan manninn, skip og það sem er að gerast við höfnina. Þar er lífæð Eyjanna og án hennar væri ér ekkert um að vera,ׅ“ segir Óskar Pétur sem þekkir vel til hafnarinnar og þess sem þar er að gerast sem sjómaður og netagerðarmaður.
„Ég vann svo við smíðar í meira ein 20 ár og kom sjaldnast upp fyrir Strandveg. Það liggur því beinast við að sýna myndir frá höfninni,“ segir Óskar Pétur sem hlakkar til laugardagsins. „Ég hlakka til og vonast til að sjá sem flesta í Einarsstofu.

Mynd eftir Óskar Pétur.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search