Föstudagur 1. desember 2023

Örn og Peta hjá Sea Life Trust

Við höldum áfram með að kynna ykkur fyrir starfsfólkinu á Beluga Whale Sanctuary. Það er búið að vera mikið um að vera á Sea Life Trust í sumar. Að þessu sinni eru það Örn og Peta sem við kynnum. 

Ferðamenn hafa aldrei verið eins margir eins og í sumar á Beluga Sanctuary og eins og flestir vita þá þurfti að færa Litlu Hvít og Litlu Grá inn eftir mánaðar útiveru í kvínni. Ástæðan er einföld, Litla Grá þróaði með sér magasár á meðan þær voru úti og varð mikið veik. Dýralæknar og starfsfólkið var allt sammála um að það væri nauðsynlegt að taka þær inn svo hægt væri að meðhöndla magasárið og það hefur gengið mjög vel. Litla Grá er búin að ná sér að mestu en þó ekki að fullu. Við munum halda áfram að hlúa að þeim og vonandi gengur betur á næsta ári að aðlaga þær úti kvínni. En velferð þeirra gengur alltaf fyrir öllu. 

Bæjarbúar hafa verið ótrúlega hjálpsamir og við finnum fyrir miklum stuðningi. Það er svo ómetanlegt að hafa heilt bæjarfélag á bakvið sig og geta átt samvinnu við önnur félög. 

Við stefnum á að hafa alls kyns skemmtilega viðburði í vetur og því er um að gera að fylgjast vel með hvað er um að vera á bæði Facebook og Instagram en einnig erum við með Tik Tok. Þið getið fundið okkur undir Beluga Whale Sanctuary. Starfsfólkið okkar er mjög duglegt að pósta videoum af dýrunum og starfinu á bakvið tjöldin.

Örn Hilmisson

Nafn: Örn Hilmisson

Starf: Ég er í afgreiðslunni og tek brosandi á móti fólkinu sem heimsækir okkur og skila því brosandi eða hlæjandi út aftur.

Hvaðan ertu: 

Ég er orginal eyjapeyi og ekkert sem toppar það.

Hvað ertu búin að starfa lengi hjá Beluga Whale Sanctuary: Ég hef starfað í Sea Life Trust frá upphafi og var fluttur með hinum dýrunum af gamla Fiskasafninu.

Hver er eftirminnilegasti starfsfélaginn sem þú hefur haft:

Audrey Padgett er eftirminnilegasti starfsfélaginn sem ég hef haft í Sea Life Trust . Hún er fyndin, skemmtileg og með ótrúlega gott jafnaðargeð, missir aldrei hausinn sama hvað á gengur. Ein yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst um ævina enda hlógum við saman í 3 ár.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér:

Ég mæti hress og kátur á morgnana og geri allt klárt fyrir opnun sem er þrífa gler og allskonar, fylla á búðina og læsa öllum starfsmanna hurðum og passa að það sé ekki bleyta á gólfunum svo enginn fljúgi á hausinn eða endi inn í fiskabúri.

Hvað er skemmtilegasti parturinn af starfinu:

Skemmtilegast er að gleðja fólk með ótrúlegum en sönnum sögum og fá það til að hlæja og brosa og gera góða sölu því allt sem við seljum skiptir okkur gríðarlega miklu máli svo allt gangi sem best.

Eftirlætis dýrið sem þú hefur unnið með:  

Eftirlætisdýrin mín í Sea Life Trust eru tvíbura kambhríslungarnir Örn og Óðinn sem eru að sjálfsögðu í tanki númer 1. og hafa gaman af að rugla fólk í ríminu.

Sturluð staðreynd um mjaldra: 

Mjaldrarnir heyra sjö sinnum betur en mannfólkið svo það þarf að passa hvað maður segir nálægt þeim eða alla vega ekki nein leyndarmál og ef þeir rispa sig á einhverju þá grær sárið fjórum sinnum hraðar en hjá okkur.

 

Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir (Peta)

Nafn: Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir (Peta)

Starf: Ég vinn í afgreiðslunni í Beluga Whale Sanctuary og er fyrsta andlitið sem fólk sér þegar það heimsækir okkur. 

Hvaðan ertu: Ég er upprunalega frá Reykjavík en flutti til Vestmannaeyja fyrir nokkrum mánuðum til kærasta míns og til þess að vinna í Beluga Whale Sanctuary.

Hvað ertu búin að starfa lengi hjá Beluga Whale Sanctuary: Ég byrjaði að vinna á griðarstaðnum fyrir sirka þremur mánuðum. 

Af hverju ákvaðstu að byrja hjá Beluga Sanctuary: Alveg frá því ég var lítil hefur mig dreymt um að vinna með dýrum og þá sérstaklega sjávardýrum en taldi það alltaf ómögulegan draum þar sem flestir svoleiðis staðir eru bara í útlöndum. Þegar ég frétti af Beluga Whale Sanctuary varð ég að sækja um og er svo ótrúlega þakklát að ég fékk starfið. Þá var sannað fyrir mér að draumar rætast. 

Hver er eftirminnilegasti starfsfélaginn sem þú hefur haft: Það er svo ótrúlega erfitt að velja þar sem allir samstarfsfélagar mínir eru svo yndislegir og er ég svo ótrúlega heppin að vinna með svona góðum hóp. 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér: Um morguninn mæti í vinnuna, geri búðina tilbúna, þríf það sem þarf, kveiki á öllum tækjum inni á safninu og passa að allt sé tipptopp svo gestir fá sem bestu reynsluna af safninu. Dagurinn fer í það að afgreiða gestina og sjá til þess að þau njóti sín sem mest að sjá öll sætu dýrin okkar. 

Hvað er skemmtilegasti parturinn af starfinu: Skemmtilegasti parturinn af starfinu mínu er að læra um dýrin og fá að vinna á stað sem gerir svo góða hluti til þess að gefa þessum dýrum betra líf. 

Eftirlætis dýrið sem þú hefur unnið með:  Ég elska öll dýrin sem ég vinn með og get ekki valið hvert þeirra er í uppáhaldi. Það gleður mig samt alltaf mjög mikið að oft þegar ég fer upp og kíki á mjaldrana þá spýtir Litla Hvít vatni á mig. 

Sturluð staðreynd: Lundar eru með sama makanum allt sitt líf og hittast á hverju ári í hreiðrinu þeirra til þess að eignast unga. Karlarnir koma oftast viku fyrr en konan og ef hún er sein finna þeir sér stundum aðra. Síðan þegar konan kemur aftur þá henda þeir nýju í burtu og halda áfram með fyrri. 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is