Föstudagur 1. desember 2023

Öllum til gagns og engum til tjóns

Þegar Landeyjahöfn var tekin í notkun voru stigin afar mikilvæg skref í samgöngumálum okkar Vestmannaeyinga. Við fylltumst bjartsýni og það ekki að ástæðulausu. Við vissum þó alltaf mæta vel að veðurfarið sem við þekkjum flest hlyti óhjákvæmilega að hamla stöðugri siglingu milli Lands og Eyja allan ársins hring.

Nú er komin nokkur reynsla á siglingaleiðina og á Landeyjahöfn. Sú reynsla er bæði góð en einnig slæm. Hún er góð vegna þess að hvað sem hver segir hafa samgöngumál okkar tekið miklum framförum. Hún er slæm vegna þess að Landeyjahöfn er einfaldlega of lítil til þess að gegna því hlutverki sem við viljum að hún gegni. Þetta eru staðreyndir málsins í hnotskurn.

Ég geri þetta hér að umræðuefni vegna þess að mér finnst umræðan að undanförnu ekki taka mið af þessum staðreyndum.

Mér finnst til dæmis ömurlegt að heyra að nýi Herjólfur sé algerlega vonlaust skip, lélegt og mislukkað. Stór orð hér. En væri ekki nær að bíða með þessi stóru orð og láta reyna frekar á hæfni skipsins. Ég man eftir umræðunni um Herjólf III þegar hann kom. Manndrápsfleyta var hann jafnvel kallaður og honum allt fundið til foráttu. Hvað skyldu þeir sem hæst létu þá segja nú?

Þá finnst mér jafn ömurlegt að heyra að nýja skipið sé í raun að eyðileggja ferðamannaiðnaðinn í Eyjum og eflingu og viðgang ýmissa fyrirtækja hér. Og í framhaldi kemur svo gamla „hótunin“ um að ekkert sé fram undan annað en að flýja frá Eyjum.

Ömurlegast af öllu finnst mér þó þegar áhöfn Herjólfs og starfsfólk í landi verður fyrir barðinu á hinum „óánægðu“ bæði í spjalli manna á meðal og á samfélagsmiðlum. Skipstjórnarfólkið er kallað huglaust, að það þori ekki inn í Landeyjahöfn í „smá“ öldu eins og var hér á dögunum. Þessi gífuryrði eru svo alvarleg en um leið fáránleg að þeim er ekki ástæða til að svara. Skipstjórnarfólkið á Herjólfi gerir allt sem það getur til að tryggja öryggi farþega og ég treysti því fullkomlega til þess meta hvenær siglt er í Landeyjahöfn og hvenær ekki. Árásir á það fólk eru algerlega ómaklegar.

Ég legg til að við leyfum öllum þeim, sem leggja sig af fremsta megni fram um að gera samgöngur milli Lands og Eyja sem bestar, að vinna vinnuna sína án sífellds og ömurlegs nöldurs og gífuryrða engum til gagns og flestum til tjóns. Reynum því að beita öllum okkar þrýstingi á að Landeyjahöfn verði stækkuð og bætt. Það er grunnurinn að góuðm samgöngum okkar Vestmannaeyinga. Það yrði vonandi öllum til gagns og engum til tjóns.

Ragnar Óskarsson

Ragnar Óskarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is