Miðvikudagur 7. júní 2023

Öflug heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Heilbrigðisstofnanir í Suðurkjördæmi hafa glímt við verulegan vanda í áratugi. Þessi vandi er margþættur: mönnunarvandi, húsnæðisvandi, fjármögnunarvandi en einnig samskiptavandi sem oft hefur blossað upp og þá sett stofnanir í mjög erfiða stöðu. 

Því miður hefur ekki verið bætt úr þessu þrátt fyrir hróp úr samfélaginu, og framlagningu skýrslna sem staðfesta að verulega hefur hallað á svæðið þegar kemur að útdeilingu fjármagns til kjördæmisins þ.m.t. til heilbrigðisstofnanna.

Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu glímdu við svipaðan vanda á sínum tíma en rekstrarfyrirkomulagi þeirra var breytt á árinu 2017. Helstu breytingar fólust í fjármögnun kerfisins  og að þremur einkareknum heilsugæslustöðvum var veitt heimild til rekstrar. Þessar breytingar hafa gert það að verkum að mönnunarvandi er lítill ef nokkur og staða heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins önnur og betri en staða heilsugæslu á landsbyggð.

Um síðustu áramót tóku síðan í gildi samskonar fjármögnunarreglur heilsugæslu á landsbyggð og hafa gilt fyrir höfðuborgarsvæðið síðan 2017.

Ólíkt því sem gert var í höfuðborgarsvæðinu hefur heilbrigðisráðherra ekki viljað heimila rekstur sjálfstætt 

starfandi heilsugæslu á landsbyggð. Þrátt fyrir að það fyrirkomulag hafi gefist vel höfuðborgarsvæðinu og að sömu fjármögnunarreglur séu nú í gildi um allt land. Þvert á móti hefur hún staðið í vegi fyrir uppbyggingu slíkrar heilsugæslu í kjördæminu, þar sem mikil þörf er fyrir fleiri heilsugæslulækna. Þarna gætir tvískinnungs. Ég hef vitneskju um að sjálfstætt starfandi  heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu sinnir nú heilsugæslu út á landi vegna erfiðleika við að manna stöður og enginn segir neitt við því. Til hvers er verið að setja nýjar reglur ef ekki má síðan fara eftir þeim?

Hvers vegna þarf að fara hægt í sakirnar á landsbyggðinni þegar fyrirkomulagið hefur verið fullreynt á höfðuðborgarsvæðinu og gefist vel þar?

Einkarekstur heilsugæslu er ekki einkavæðing

Við, Íslendingar höfum verið sammála um að hafna einkavæðingu grunnþjónustu en með því að heimila einkarekstur tiltekinnar þjónustu þýðir alls ekki að verið sé að einkavæða hana. Um sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar gilda nákvæmlega sömu reglur og ríkisreknar. Verðskrá er ákveðin af ríki og óheimilt er að greiða út arð til eigenda sem þurfa að vera hópur lækna en geta ekki verið bara einhverjir fjárfestar að reyna að græða.

Þær þúsundir íbúa kjördæmisins sem leitað hafa til höfuðborgarsvæðisins og skráð sig á heilsugæslu þar, eru flestar skráðar á sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar.

Því fæ ég ekki skilið hvers vegna ekki má heimila sjálfstætt starfandi heilsugæslu á landsbyggðinni, sem gæti tekið til starfa með skömmum fyrirvara og leyst þann vanda sem verið hefur til staðar um árabil.

Á Íslandi hafa sjálfstætt starfandi þjónustustofnanir þrifist ágætlega við hlið opinberra stofnana. Við höfum ekki einu sinni verið að velta fyrir okkur rekstrarfyrirkomulagi þeirra heldur notið þjónustunnar sem hefur verið til fyrirmyndar.

Við leitum t.d. eftir þjónustu hjá NFLÍ í Hveragerði eða á Reykjalundi. SÁÁ veitir gríðarlega mikilvæga heilbrigðisþjónustu og svo mætti lengi telja. Rekstrarfyrirkomulag þessara stofnana hefur ekkert truflað okkur og við lítum á þær sem hluta af okkar sterka heilbrigðiskerfi.

Samkvæmt ánægjukönnun sem gerð var af Sjúkratryggingum Íslands kom í ljós að sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar stóðu hinum síst að sporði.

Niðurstaðan í topp 5 var þessi:

1. Einkarekin

2. Einkarekin

3. Opinber

4. Opinber

5. Einkarekin

Það er því ljóst að þeir sem þiggja þjónustu hjá sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu eru mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeim er veitt. Opinber heilsugæsla og sjálfstætt starfandi geta þrifist ágætlega hlið við hlið á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju ætti það ekki að eiga við um aðra landshluta?

Guðbrandur Einarsson oddviti 

Viðreisnar í Suðurkjördæmi

Heilbrigðismál

Styttum biðlista, lækkum kostnað og bætum heilbrigðisþjónustu um allt land með því að þjónustuvæða heilbrigðiskerfið. Það er líka brýnt að fjármagna lög um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu sem Viðreisn fékk samþykkt á þingi. Þannig bætum við bæði líkamlega og andlega velferð fólks.

Viðreisn leggur áherslu á valfrelsi og þjónustumiðaða nálgun. Þar þjónar öflugt opinbert heilbrigðiskerfi með fjölbreyttu rekstrarformi mikilvægum tilgangi. Nýta þarf alla krafta heilbrigðiskerfisins í stað þess að festast í kreddum núverandi ríkisstjórnar sem hefur gert sitt besta til að ríkisvæða allt kerfið og aukið þannig á bráðavanda og biðlista. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu og því ert það brýnt mál að stytta biðlistana.  

Það er mjög mikilvægt að nýta tækni til að tengja betur sérfræðinga og fólkið í byggðum landsins og er fjarheilbrigðisþjónusta lykilatriði. Þannig stuðlum við að jöfnu og bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem er sértaklega mikilvægt á stöðum, líkt og Vestmanneyjum, þar sem samgöngur við Landspítala geta rofnað og erfitt getur verið að komast til sérgreinalækna. 

Á undanförnum árum hefur starfsemi heilbrigðisstofnana utan höfuðborgarsvæðisins verið skert, sem hefur takmarkað mjög aðgengi heimafólks að heilbrigðisþjónustu. Hugsa þarf skipulag sjúkrahúsa upp á nýtt með það fyrir augum að tryggja aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu og auðvelda sérhæfingu þeirra á ólíkum sviðum. Það þarf líka að gera starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna um allt land eftirsóknarverðara til að auðveldara verði að ráða þetta eftirsótta starfsfólk til starfa. 

Menntamál

Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.

Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni. 

Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Leggja skal áherslu á starfsþróun, markvissa faglega endurgjöf, tæknivætt starfsumhverfi og samþætta stoðþjónustu. Sérstaklega skal veita kennurum tækifæri til að þróa getu sína til að miðla þekkingu á stafrænni tækni. 

Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum í fjölmenningarlegu skólaumhverfi.

Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánkerfi námslána. Stefna ætti að blönduðu styrkja- og lánakerfi, þar sem námsmenn hafi þó kost á að nýta aðeins styrkinn, án þess að taka lán. 

Atvinnumál

Viðreisn vill fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land. Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi. Nýsköpun í þágu sjálfbærni, fæðuöryggis og umhverfisverndar mun stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum og á nýsköpunin ásamt samkeppni, og jafnrétti að vera leiðarstef í öllum atvinnurekstri.

Viðreisn treystir markaðnum á flestum sviðum en stjórnvöld eiga að skapa fyrirtækjum hagstæð skilyrði og draga úr sveiflum. Trúverðugur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs.

Bæta þarf samgöngur til að stækka atvinnusvæði og draga þannig úr áhrifum breyttra atvinnuhátta. Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til vaxtamöguleika til atvinnusköpunar. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri. Stuðla ætti að auknum sveigjanleika á vinnumarkaði með því að byggja frekar undir möguleika á fjarvinnu. 

Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn af hinu opinbera. Við getum ekki verið með öll eggin áfram í sömu körfu. Þær kjölfestugreinar sem við höfum treyst hvað mest á eiga það allar sammerkt að vera háðar ytri áhrifum og því áhætta fólgin í því að leggja allt okkar traust á þær. Uppbygging þekkingar- og hugvitsgreina þarf að vera stöðugt viðfangsefni með það fyrir augum að búa til umhverfi þar sem þær geta blómstrað til frambúðar.

Viðreisn vill þjónustu fyrir alla óháð rekstrarformi. Nauðsynlegt er að draga úr bráðavanda og biðlistum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Börn eiga ekki að bíða eftir nauðsynlegri greiningu eða þjónustu. Samþætting og einstaklingsmiðuð nálgun á milli kerfa er lykilatriði. Kerfin eru fyrir fólkið, ekki öfugt.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is