Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar. Hér á eftir fara upplýsingar um kröfugerð íslenska ríkisins og málsmeðferð.

Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Kröfum skal lýst skriflega í síðasta lagi 15. maí 2024. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur.

Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins um þjóðlendur á svæði 12

Í kröfugerð fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins er svæði 12 skipt í átta hluta. Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra, sbr. eftirfarandi yfirlit. Þá eru gerðar þjóðlendukröfur til afmarkaðra hluta tveggja eyja. Kröfulýsingarnar í heild eru birtar á vefsíðu óbyggðanefndar: https://obyggdanefnd.is/til_medferdar/

Eyjar sem eru undanskildar þjóðlendukröfum:

 1. A) Suðurland:Hluti Heimaeyjar — en gerð er krafa til hluta eyjarinnar, sjákafla 5.2 í kröfulýsingu fyrir hluta A af svæði 12 (Suðurland).
 2. B) Austurland:
 3. C) Norðurland eystra:Flatey á Skjálfanda, Hrísey og hluti Grímseyjar— en gerð er krafa til hluta Grímseyjar,sjá kafla 5.2 í kröfulýsingu fyrir hluta C af svæði 12 (Norðurland eystra).
 4. D) Norðurland vestra:Málmey.
 5. E) Vestfirðir utan Barðastrandarsýslna:Æðey og Vigur.
 6. F) Breiðafjörður:Meginland/heimaeyjur eftirfarandi eyja (nákvæmari upplýsingar um eyjarnar eru íkröfulýsingu fyrir hluta F af svæði 12): 1) Flatey. 2) Svefney. 3) Hvallátur. 4) Skáley. 5) Sviðnur. 6) Bjarneyjar. 7) Sauðeyjar. 8) Hergilsey. 9) Skáley. 10) Purkey. 11) Hrappsey. 12) Arney. 13) Rauðseyjar. 14) Rúfseyjar. 15) Akureyjar. 16) Höskuldsey. 17) Saurlátur. 18) Þormóðsey. 19) Elliðaey. 20) Fagurey. 21) Bíldsey. 22) Gvendarey. 23) Ólafsey. 24) Rifgirðingar. 25) Brokey. 26) Öxney.
 7. G) Vesturland utan Breiðafjarðar:Hjörsey.
 8. H) Suðvesturland:Engey og Viðey.

Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra taka til allra annarra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru.

Um málsmeðferð óbyggðanefndar

Meginhlutverk óbyggðanefndar er að rannsaka hvaða svæði eru utan eignarlanda en slík svæði eru að undangenginni rannsókn úrskurðuð þjóðlendur. Einnig úrskurðar nefndin um óbein eignarréttindi innan þjóðlendna.

Óbyggðanefnd hefur skipt landinu í sautján svæði og tekið eitt til meðferðar hverju sinni. Þar af eru sextán svæði á meginlandinu en það sautjánda tekur, sem fyrr segir, til eyja og skerja utan meginlandsins. Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar.

Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.

Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur.

Nánari upplýsingar um málsmeðferð eru á vefsíðu óbyggðanefndar:

Staða þjóðlendumála

Eyjar og sker eru sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar. Einnig stendur yfir málsmeðferð á Austfjörðum.

Úrskurðað hefur verið í málum á fyrri svæðunum fimmtán, sbr. yfirlitskort um stöðu þjóðlendumála, en afmarkaðir hlutar þeirra eru þó til meðferðar nú á grundvelli 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga. Áformað er að úrskurðir í þeim málum og í málum á Austfjörðum verði kveðnir upp vorið eða sumarið 2024. Þá er áætlað að árið 2025 verði úrskurðað í málum sem varða eyjar og sker.

Mynd- Halldór B. Halldórsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

 • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
 • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
 • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
 • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
 • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search