Núna í hádeginu var skrifað undir samning um að hefja kennslu í íþróttafræði á háskólastigi hér í Vestmannaeyjum. Aðilar að þessu samkomulagi eru Háskólinn í Reykjavík, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Vestmannaeyjabær.
Boðið verður upp á þetta nám frá og með haustinu 2020. Ráðinn verður sérstakur umsjónarmaður námsins sem búsettur verður í Vestmannaeyjum.
Það er gott og jákvætt skref fyrir okkur Eyjamenn að fá nýtt háskólanám hingað til okkar og auðvitað má segja að það að sé sérstaklega góður grunnur fyrir einmitt íþróttafræði hér í Eyjum. Um nokkurra ára skeið hafa verið starfræktar íþróttaakademíur í grunn- og framhaldsskólum og almennt er hér mikil og sterk íþróttahefð.
Hugmyndin og frumkvæðið að þessu námi varð til hér í Eyjum en ég vil sérstaklega þakka Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Hafrúnu Kristjánsdóttur, sviðsstjóra íþróttasviðs HR, og Páli Magnússyni, alþingismanni, fyrir að hafa unnið dyggilega að framgangi verkefnisins.
Þetta er gleðidagur fyrir okkur öll hér í Eyjum!
Íris Róbertsdóttir Bæjarstjóri