Á fundi bæjarráðs í dag var lögð fyrir bæjarráð eftirfarandi yfirlýsing starfsfólks stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarskrifstofa Vestmannaeyja:
„Berist til bæjarráðs
Af gefnu tilefni og í ljósi umræðna langar okkur starfsfólki stjórnsýslu- og fjármálasviðs á bæjarskrifstofum Vestmannaeyja að koma eftirfarandi á framfæri. Við hörmum mjög þá umræðu sem átt hefur sér stað um vinnustað okkar. Hjá okkur ríkir góður starfsandi, fagleg vinnubrögð og gagnkvæm virðing meðal starfsfólks og stjórnenda á sviðinu.
Starfsfólk stjórnsýslu- og fjármálasviðs.“
Jafnframt voru lögð fyrir bæjarráð drög að stefnu og verkferlum um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi meðal starfsfólks Vestmannaeyjabæjar, sem stjórnsýslu- og fjármálasvið hefur unnið að síðan í vor. Stefnan og verklagsreglurnar taka mið af reglugerð sama efnis nr. 1009/2015.
Loks var rædd skipan öryggistrúnaðarnefndar Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt 6. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ber að skipa öryggistrúnaðarnefnd. Mannauðsstjóri fór yfir verklag við skipan slíkra nefnda.
Bæjarráð þakkar starfsfólki stjórnsýslu- og fjármálasviðs yfirlýsinguna.
Jafnframt samþykkir bæjarráð fyrirliggjandi drög að stefnu og verkferlum um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og mannauðsstjóra Vestmannaeyjabæjar að fylgja þeim eftir við forstöðumenn stofnana bæjarins.
Loks felur bæjarráð framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og mannauðsstjóra Vestmannaeyjabæjar að sjá til þess að ný öryggistrúnaðarnefnd verði skipuð.