Það hefur nóg verið um að vera í vikunni og bauð Bókasafn Vestmannaeyja nemendum á Víkinni og í 1. – 5. bekk GRV í heimsókn að hitta rithöfundinn og listakonuna Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur síðastliðinn fimmtudag. Bergrún Íris sýndi myndir og sagði frá bókunum sem hún hefur skrifað og myndskreytt, hvernig verkferlið hjá henni er auk þess sem hún las upp úr bókum sínum. Allir virtust fara glaðir og ánægðir út af safninu, hvort sem það voru krakkar eða kennarar.
Ljósmyndasýningin var á sínum stað og voru þeir bræðurnir Egill og Heiðar Egilssynir með sýningu á laugardaginn sl. Frábær sýning hjá þeim og eins og sjá má á myndunum var vel mætt.
Í dag voru glæsilegir tónleikar með þeim Gissuri Páli og söngkonunni Heru Björk og gítarleikarnum Birni Thor. Að loknum tónleikum flutti Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri ávarp fyrir hönd bæjarins. Þar sem hún meðal annars sagði:
“Þessi viðburður hér í dag markaði ákveðinn endapunkt á formlegum hátíðarhöldum. En í öðrum skilningi er enginn slíkur endapunktur til. Við eigum stöðugt að halda minningu þeirra sem hér fóru á undan okkur hátt á lofti; menningunni og sögunni sem þeir sköpuðu; þrekraunum þeirra og afrekum. Sorgum og sigrum. Þeirra saga er okkar saga; þeirra menning er okkar menning.”
Tók svo við sameiginleg messa í Landakirkju en um einstakan viðburð að ræða, þegar kristnir söfnuðir í Vestmannaeyjum sameinast í messu. Prestar Landakirkju, Guðmundur Örn Jónsson og Viðar Stefánsson, Guðni Hjálmarsson í Hvítasunnukirkjunni og sr. Denis O´Leary, prestur Kaþólsku kirkjunnar boðuðu fagnaðarerindi með bænum og þakkargjörð. Einnig fóru Þær Sólrún Bergþórsdóttir, Sigrun Inga Sigurgeirsdottir og Ingibjörg Jónsdóttir með bæn í messunni.
Mikill söngur var í messunni þar sem Gissur Páll, Hera Björk og Björn koma fram ásamt Kór Landakirkju og Lofgjörðarsveit Hvítasunnukirkjunnar.
Að lokinni messu var gestum boðið í hátíðarkaffi í Safnaðarheimilinu.
Gissur Páll, Hera Björk og Björn héldu svo upp á Hraunbúðir þar sem haldnir voru tónleikar fyrir fólkið okkar þar.
Eru tónleikarnir og kaffisamsætið í boði bæjarins og 100 ára afmælisnefndarinnar.