26.08.2020
Í ár heldur Nói Síríus upp á 100 ára afmæli. Þessi þjóðþekkti sælgætisframleiðandi hefur fagnað tímamótunum með fjölbreyttum uppákomum þar sem hefðbundnu sælgæti er gert hátt undir höfði auk þess sem girnilegar nýjungar hafa litið dagsins ljós.
Af þessu merka tilefni hafa fjórir nýir konfektmolar verið kynntir til sögunnar. Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Síríus, sagði í samtalið við mbl.is frá nýju molunum og afmælisskreytingunum sem munu prýða konfektkassana í ár.
Í tilefni aldar afmælisins bera kassarnir sérstaka 100 ára merkingu. Auk þess fer hinn hefðbundni kílóakassi í gamalkunnan búning og verður hvítur. Hugmyndirnar bakvið nýju molana fjóra hafa verið sóttar í sögu fyrirtækisins og framleiðslustjórar Nóa Síríus, Björgvin Richter og Jón Fannar Magnússon, ásamt starfsfólki framleiðslunnar hafa sameinað sína áratuga reynslu og þekkingu í að þróa og fullkomna uppskriftirnar.
„Þetta er söguleg breyting, enda hefur innihald kassanna haldist meira og minna óbreytt frá upphafi. Í ár fögnum við sögunni og kynnum fjóra nýja konfektmola.“
Fyrsti molinn er innblásinn af hefðbundnum íslenskum laufabrauðsskurði. Laufabrauðsmolinn er einstaklega hátíðlegur með fyllingu sem samanstendur af kókos og karamellu. „Það er skemmtileg saga á bak við þessa fyllingu. Hún varð óvænt til fyrir áratug síðan þegar ungur starfsmaður blandaði tveimur fyllingum saman fyrir algjöra tilviljun. Úr varð þessi gómsæta fylling sem vakti mikla lukku innanhúss og við erum búin að vera að spara fyrir rétta tilefnið“.
Nói Síríus hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir frá neytendum þar sem óskað er eftir lakkrísmola í konfektkassann.
„Hrafnamolinn er svar okkar til neytenda sem hafa ítrekað óskað eftir mola með lakkrísfyllingu. Loksins getum við orðið við því, enda er dálæti íslensku þjóðarinnar á lakkrís orðið heimsfrægt,“ útskýrir Silja Mist.
Tveir konfektmolanna sækja innblástur frá fyrri tíð. „Nóa Síríus molinn er táknmynd fyrir sögusælgætisgerðarinnar. Þegar við vorum að undirbúa 100 ára sýningu Nóa á Árbæjarsafni fundum við gamla uppskrift að rjómatrufflu frá því að verksmiðjan var á Barónsstíg. Við hverfum því aftur til upprunans með þessum fágaða og silkimjúka mola.
Fjórði og síðasti molinn kemur svo úr bókum eins verkstjórans. Hann blandaði iðulega saman kókos og marsípani í konfektmola fyrir starfsmenn til hátíðarbrigða um jólin. Þetta hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá starfsfólki og nú fær þjóðin að njóta með okkur.“
Silja Mist er afar stolt af útkomunni og hlakkar til að deila nýjungunum með landsmönnum.
„Við höfum nálgast þetta verkefni af miklu æðruleysi, enda vitum við hversu varlega þarf að fara í breytingar á Nóa Konfekti sem á sér fastan sess í hátíðarhöldum landsmanna. Aldarafmælið þótti kjörið tilefni til að uppfæra úrvalið og vísa í sögu fyrirtækisins með nýjum og bragðgóðum viðbótum. Við erum virkilega ánægð og spennt að deila þessu með þjóðinni.“
Konfektið verður fáanlegt í verslunum frá og með næstu helgi. Því ættu allir landsmenn að geta nálgast nýju molana og fagnað stórafmælinu með Nóa Síríus
Greint er frá þessu á mbl.is