- Bæjarfjölmiðillinn í Vestmanneyjum -

Njáll Ragnarsson svarar spurningum Tíguls

Hver er Njáll og fyrir hvað stendur hann?

Njáll er 38 ára gamall fjölskyldumaður í Vestmannaeyjum sem vill fyrst og fremst leggja sitt af mörkum í þágu fjölskyldufólks með því að efla þjónustu við þessa hópa. Allir nemendur eiga að getað notið sín í skólunum okkar, gjaldskrám þarf að halda í lágmarki og hér þarf að vera til staðar öflugt félags-, íþrótta- og tómstundastarf sem er aðgengilegt öllum börnum óháð efnahag foreldra. Þetta er það sem Njáll stendur fyrir. 

Hvert er brýnasta verkefni nýrrar bæjarstjórnar? 

Brýnasta verkefni nýrrar bæjarstjórnar verður vafalaust að halda áfram að fjárfesta í innviðum samfélagsins, halda áfram fyrirhuguðum framkvæmdum við byggingu nýs Hamarsskóla og efla innra starf í leik- og grunnskólum eins og við höfum einsett okkur undanfarin fjögur ár. Þá þarf að bregðast við því að börnum og barnafjölskyldum fer fjölgandi og því er mikilvægt að ráðast í framtíðaruppbyggingu leikskóla í bænum. Ný bæjarstjórn þarf sömuleiðis að huga að okkar elstu íbúum með því að ráðast í uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis sem að stærstum hluta er fjármagnað úr ríkissjóði og við þurfum að gera átak í að fjölga þjónustuíbúðum fyrir eldra fólk. Við höfum sett okkur það markmið að byggja 20 slíkar íbúðir á næstu fjórum árum. Þetta eru aðeins nokkur af þeim stóru verkefnum sem bíða nýrrar bæjarstjórnar. 

Okkar áherslur í:

– skólamálum? 

Framtíðaruppbygging á nýjum leikskóla og að halda áfram að efla innra starf bæði í leik- og grunnskólum, efla sérkennsluúrræði á öllum skólastigum og halda áfram að veita nemendum með námsörðuleika aukinn stuðning. 

-skipulagsmálum? 

Fara í hugmyndasamkeppni um skipulag í Löngulág þar sem við viljum blanda saman íbúabyggð og grænum svæðum auk þess sem við viljum vinna að því með ýmsu móti að fegra miðbæinn og gera hann aðlaðandi íbúum og gestum okkar. Við viljum halda áfram að byggja upp ferðamannastaði þannig að við og gestir okkar njóti þeirrar yndislegu náttúru sem Eyjarnar okkar hafa uppá að bjóða. 

-samgöngumálum? 

Við viljum tryggja áframhaldandi forræði Vestmannaeyinga á siglingaleiðinni milli lands og Eyja og þrýsta á að úttekt á Landeyjahöfn verði kláruð þannig að höfnin þjóni sínu hlutverki sem heilsárshöfn. Við ætlum að standa vörð um flugið sem hluta af almenningssamgöngum og síðast en ekki síst viljum við að rannsóknir á jarðlögum milli lands og Eyja verði kláraðar og að farið verði af krafti í það að undirbúa jarðgöng milli lands og Eyja.  

– atvinnumálum?

Við ætlum að treysta stoðir atvinnulífsins með ráðum og dáð, m.a. með áframhaldandi stuðningi við ferðamálasamtök Vestmannaeyja að því marki að ferðaþjónusta verði atvinnugrein allan ársins hring. Við viljum styrkja atvinnulífið við höfnina með endurbótum á upptökumannvirkjum Skipalyftunnar og við viljum halda áfram upp-byggingu á aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Þá ætlum við að koma á fót styrktarsjóði fyrir uppbyggingu atvinnu og nýsköpunarfyrirtækja í bænum. 

– heilbrigðismálum 

Við viljum að þjónusta á HSU verði stóraukin þannig að hún sé samfélaginu okkar sæmandi. Við ætlum að beita okkur fyrir uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum sem stenst kröfur nútímans um aðbúnað heimilisfólks, starfsfólks og aðstandenda. Við viljum sjúkravélina tafarlaust staðsetta í Eyjum og að farið verði í verkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi sem staðsett verði í Vestmannaeyjum, að minnsta kosti yfir vetrartímann. 

– málefnum aldraðra 

Við ætlum að byggja 20 þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk þar sem veitt verður framúrskarandi þjónusta, vinna markvisst að öflugri öldrunarstefnu með aukinni áherslu á iðjuþjálfun og velferðartækni í öldrunarþjónustu. Við ætlum að halda Janusarverkefninu áfram, veita Félagi eldri borgara áfram öflugan stuðning og vinna með félaginu í málaflokknum. 

Ef þið náið hreinum meirihluta hver sést í sæti bæjarstjóra? 

Oddviti listans, Njáll Ragnarsson, er bæjarstjóraefnið okkar

Getiði hugsað ykkur meirihluta-samstarf með öðru hvoru hinna frambjóðanda ef þið náið ekki hreinum meirihluta? Að sjálfsögðu getum við það enda höfum við verið í samstarfi undanfarin fjögur ár. Það er mikilvægt að raddir sem flestra heyrist í bæjarstjórn og við erum tilbúin að starfa með öllum sem vilja vinna með okkur að þeim málum sem við viljum setja á oddinn næstu fjögur árin. 

Eitthvað að lokum

Kosningarnar á laugardaginn eru gríðarlega mikilvægar. Við hvetjum alla bæjarbúa til þess að mæta á kjörstað og velja til starfa einstaklinga sem vilja vinna í þágu okkar allra. Eyjalistinn vill halda áfram að gera góðan bæ enn betri, huga að málefnum barna og fjölskyldunnar og byggja upp nauðsynlega innviði þannig að bærinn okkar vaxi og dafni. 

X-E

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is