Níu manns úr Björgunarfélag Vestmannaeyja ákváðu að leggja af stað upp á land með Herjólfi seinnipartinn í dag til að vera til taks fyrir aðgerðir fyrir norðan ef þess er óskað en Guðni Grímsson er hópstjóri í ferðinni.
Herflugvélin Hercules lenti á Akureyrarflugvelli um fimmleytið. Búið er að afferma vélina og heldur björgunarfólk nú með búnaðinn áfram á slysstað í Sölvadal. Um borð eru fimm starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þar af fjórir kafarar, um þrjátíu björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg auk starfsmanna frá Rarik og Landsneti. Þá er jafnframt búnaður björgunarsveitanna, bíll séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og rafstrengur til að tengja varðskipið Þór við land á Dalvík.
„Í morgun höfum við verið að vinna að því að fá fleira fólk til að starfa að þessu verkefni með okkur og það hafa verið að tínast inn, á síðasta klukkutímanum, bjargir með flugi og landleiðina; koma þá aðallega frá höfuðborgarsvæðinu sem eru lögregla, björgunarsveit, kafarar og þessi hópur er svona að detta inn á vettvang hjá okkur núna í Sölvadal og þar erum við að hefjast handa með viðamikla leit á því svæði sem við teljum líklegast en áin er mjög þung vegna krapa og erfið yfirferðar.“ sagði Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra í samtali við Bylgjuna í dag.
Viðbragðsaðilar eru í kappi við tímann því mikið frost er í kortunum. Hátt í áttatíu manns koma með einum eða öðrum hætti að björgunaraðgerðum en aðstæður á slysstað eru með versta móti. – Tekið af visir.is