02.03.2020 kl 21:55
Þrjú tilfelli kórónuveirunnar greindust til viðbótar og eru þau því níu í heildina. Um er að ræða tvær konur og einn karl. Þau eru á sextugs- og fimmtugsaldri. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra í samtali við fréttastofu.
Af þessum tilfellum hafa tvö tengingu við Norður-Ítalíu en þessir einstaklingar komu til landsins frá Veróna á Ítalíu á laugardaginn. Unnið er að smitrakningu á þriðja tilfellinu.
Níu Íslendingar hafa því greinst með kórónuveiru frá því á föstudaginn síðasta. Allir hinir smituðu eru nú í einangrun á heimilum sínum.
Allir sýna hinir smituðu venjuleg einkenni COVID-19 sjúkdómsins en teljast ekki alvarlega veikir.
