Myndirnar hennar Ömmu Bíbíar – DÚKKA

Spjall við ljósmyndarann Kristbjörgu Sigurjónsdóttur sem er með tvær sýningar á goslokunum í ár. Sýningin hennar opnar í dag kl. 16:00 í Arnardranga.

 

Sýningarstaður: Arnardrangi – Hilmisgötu 11  (Húsnæði Rauða krossins)

Opnunartími: Föstudaginn kl 16-19 (Opnun) Laugardagur kl 13-17  & Sunnudagur kl 12-16 

Hvernig er tenging þín til Eyja? 

Allt mitt ættfólk og æskuvinir eru vestmannaeyjingar. Ég fæddist í Vestmannaeyjum en flutti til Reykjavíkur þegar ég var unglingur. Ég var alls ekki sátt, átti stóran vinkonuhóp og fannst frekar fúlt að flytja í burtu. En ég var dugleg að koma til eyja á sumrin. Þá fékk ég að búa hjá ömmu Bíbí og vann í fiski með vinkonum mínum og svo máluðum við bæinn rauðan þar á milli. 

Hvenær byrjaðiru að taka ljósmyndir? 

Ég byrjaði að taka myndir þegar ég fékk rauða Yashica myndavél í jólagjöf þegar ég var 11 ára. Mig langaði alltaf að verða ljósmyndari alveg frá því ég var barn en hafði ekki sjálfstraust til að láta verða af því. Það var ekki fyrr en ég var 30 ára þegar ég lét það eftir mér að fara í ljósmyndanám. Ég lærði og útskrifaðist sem ljósmyndari í bandaríkjunum en ég tók líka sveinspróf í ljósmyndun hérna á Íslandi.

Hvers konar sýningu ert þú að bjóða upp á?
Ég verð með ljósmyndasýningu í Arnardranga. Þetta eru tvær sýningar í einni. Annars vegar eru það ljósmyndir af gömlum dúkkum sem ég hef fundið á nytjamörkuðum víðs vegar um landið og hins vegar er ég með ljósmyndir af myndunum hennar ömmu Bíbí. 

 

Hvað getur þú sagt okkur um sýninguna? 

Aðeins um sýningarnar tvær: DÚKKA Þetta er þriðja ljósmyndasýningin mín með myndum af gömlum dúkkum. Ég var með ljósmyndasýningu á veitingastaðnum GOTT í fyrra sumar og svo var ég með ljósmyndasýningu í Epal Gallerí ásamt Berglindi Sigmarsdóttur (Leikfangalist) núna í maí á þessu ári. Margir spyrja sjálfan sig af hverju fullorðin kona sé að mynda dúkkur. Það er ekki furða að fólk spyrji en það er eitthvað við þessar gömlu dúkkur sem vekja áhuga minn á þeim. Það er mikill karakter í þeim. það er viss fegurð í því að hugsa til þess að þessar dúkkur voru einu sinni elskaðar og hugsaðar vel um, börn að knúsa þær á næturna, mömmur og ömmur að sauma og prjóna ný föt á þær og börn að taka þær með í ferðalög og ýmislegt fleira. Þessar dúkkur eiga sér sögu, góðar og slæmar. En það er undir okkur komið hvernig við viljum túlka það sem við sjáum. Markmiðið er að vekja upp tilfinningar þegar maður horfir á ljósmyndirnar. Hvort sem það eru góðar eða slæmar tilfinningar, bara að maður finni eitthvað. Dúkkumyndir í ýmsum stærðum verða til sölu á sýningunni.

Myndirnar hennar Ömmu Bíbíar Myndirnar hennar Ömmu Bíbíar er ljósmyndasýning með ljósmyndum af myndunum hennar ömmu Bíbíar eða Bíbí í Skógum eins og hún var kölluð. Þetta eru svarthvítar ljósmyndir af elstu myndunum sem amma átti í kassa. Ég tók að mér að fara í gegnum þessar myndir þegar amma kvaddi okkur núna í lok janúar á þessu ári. Í kassanum fann ég myndir úr daglegu lífi ömmu minnar og hennar nánasta fólki. Mig langaði að heiðra minningu hennar með því að gefa þessum myndum líf. Fyrir marga eru þetta ósköp venjulegar myndir en þessar myndir eru meira en það. Þarna eru myndir frá þjóðhátíð 1961, myndir af ömmu þegar hún var ung að vinna í fiski og Þarna eru myndir af afa mínum honum Grétari Skaftasyni en hann féll frá aðeins 42 ára þegar báturinn Þráinn NK sem hann var skipstjóri á fórst í ofsaveðri og öll 9 manna áhöfnin með. Þá var amma mín bara 37 ára og ófrísk af sínu 4 barni. Þetta var mikið áfall fyrir ömmu Bíbí og það litaði líf hennar til æviloka. En þrátt fyrir allt saman þá var Bíbí grjóthörð og dugleg kona. Hún var lengi í slysavarnardeildinni Eykindli og ég fann margar skemmtilegar myndir frá þeim tíma. Ég tók líka eftir því að þegar amma tók myndir af börnunum sínum, þá passaði hún alltaf að hafa mynd af afa í bakgrunninum. Ég þekki ekki alla á myndunum en gestir sýningarinnar munu kannski kannast við einhver andlit. Það mætti segja að það sé eitthvað fyrir alla á ljósmyndasýningunni minni. Ef þú vilt ekki skoða myndir af gömlum dúkkum, þá getur þú skoðað ljósmyndir af gömlum myndum eða öfugt.

Ég hlakka til að sjá sem flesta.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search