Þriðjudagur 26. september 2023
Tölvuunnin mynd af móttöku og flokkunarstöðinni við Eldfellsveg sem gefur vísbendingu um hvaða breytingar verða á ásýnd. Mynd/alta

Móttöku og flokkunarstöð fyrir úrgang, sérstök aðgæsla við skipulag vegna nálægðar við verndað hraun

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir svæðið

Í tillögu að deiliskipulagi sem unnin er af Alta segir m.a að Vestmannaeyjabær áformi nú að koma fyrir og starfrækja nýja brennslu- og orkunýtingarstöð fyrir úrgang með orkunýtingarkerfi við Eldfellsveg sem myndi taka við blandaða úrganginum. Brennslustöðin yrði staðsett í byggingu á móttökusvæðinu sem áður hýsti sorpbrennslu sem var starfrækt í Vestmannaeyjum til 2012, en hefur undanfarin ár verið nýtt til að taka á móti úrgangi. Á starfstíma brennslunnar voru innleiddar á Íslandi hertar reglur um mengunarvarnir sem stöðin náði ekki að uppfylla, þrátt fyrir endurbætur og prófanir, og því var henni á endanum lokað.

Ný stöð myndi hins vegar uppfylla allar reglur um mengunarvarnir sem gerðar eru til svona stöðva og er unnið að umhverfismati fyrir stöðina. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir svæðið og er því hér lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi, sem áformað er að kynna á sama tíma og frummatsskýrslu mats á umhverfisáhrifum fyrir brennslu- og orkunýtingarstöðina. Stöðin fellur undir 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og því fylgir umhverfisskýrsla með deiliskipulaginu.

Jákvæð áhrif verða á ásýnd af því að flytja móttökusvæðið

Þá segir í kynningu Alta að lóð móttökustöðvarinnar sé í Eldfellshrauni. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að aðkoma að svæðinu verði færð norðar en akvegurinn sem þar verður gerður fer að mestu um svæði á hrauninu sem er nú þegar raskað.

Að öðru leyti er áformað athafnasvæði innan lóðar það sama og hefur verið notað hingað til og áhrif á landslag því lítil. Við breytingar á lóð stöðvarinnar og með tilkomu nýrrar brennslustöðvar breytist ásýnd svæðisins að nokkru leyti. Um það bil 4 m hár strompur mun rísa upp úr byggingunni sem mun hýsa brennslustöðina og í deiliskipulagi er gert ráð fyrir að mögulegt sé að stækka bygginguna um 15 m til norð-austurs, eða 225 m 2 . Strompurinn verður ekki áberandi og vegna þess hve lágt viðbyggingin mun standa þá verða áhrif hennar á ásýnd óveruleg.

Jákvæð áhrif verða á ásýnd af því að flytja móttökusvæðið sem er opið fyrir almenning norðar innan lóðarinnar. Sá hluti lóðar er lægri í landi en núverandi móttökusvæði og verður starfsemi innan þess ekki jafnsýnileg t.a.m. frá toppi Eldfells. Höfð er sérstök aðgæsla við skipulag móttökustöðvarinnar vegna nálægðar við verndað hraun, til að tryggja að sjónrænt yfirbragð hins manngerða umhverfis rýri sem minnst hlut náttúrunnar í heildarmyndinni. Áhrif á ásýnd eru líkleg til að vera lítil og svæðið frekar snyrtilegra en í dag. 

Alla tillöguna má nálgast hér.

Frétt er tekin frá eyjar.net Tölvuunnin mynd af móttöku og flokkunarstöðinni við Eldfellsveg sem gefur vísbendingu um hvaða breytingar verða á ásýnd. Mynd/alta

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is