Föstudagur 27. janúar 2023

Morðrannsókn við FÍV

Á náttúruvísindalínu við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum velja nemendur sér valáfanga samhliða skyldunni. Líffræðiáfanginn LÍFF2EF05 fjallar um erfðafræði og er dæmi um valáfanga  sem býðst nemendum.  Í áfanganum er gerð grein fyrir helstu viðfangsefnum erfðafræðinnar, tekin eru fyrir grunnhugtök erfða, uppbygging erfðaefnisins (DNA), rannsóknir á erfðaefninu og mikilvægi þekkingar í erfðafræði fyrir áskoranir daglegs lífs. Áfanginn er mikilvægur undirbúningur fyrir nemendur sem hyggja á nám í heilbrigðisgreinum og skyldum greinum s.s. líffræði, lífefnafræði og sameindalíffræði. 

Í áfanganum ljúka nemendur tveimur verklegum æfingum. Á fyrri hluta annar er það Einangrun á DNA úr líkamsfrumum. Þá vinna nemendur með eigin þekjufrumur úr munni, með því að safna þeim í munnvatnið og einangra í framhaldinu erfðaefnið með ákveðnum aðferðum. 

Þessa dagana vinna nemendur að síðari æfingunni þar sem leysa þarf morðmál (CSI FÍV) með aðferðum sameindalíffræðinnar. Við rannsóknina setja nemendur lesefni áfangans í samhengi við raunveruleg viðfangsefni. Nemendur rifja upp mikilvæg hugtök annarinnar; uppbyggingu DNA og kirna, tileinka sér nýjan fróðleik í gegnum skerðiensímin sem klippa á ákveðnar basaraðir og fá aukinn skilning á notum hinnar mikilvægu PCR aðferðar (PCR mögnun) við rannsóknir á erfðaefninu. Morðrannsóknin byggir jafnframt á þeirri staðreynd að DNA einstaklinga er einstakt og þar af leiðandi hafa engir tveir einstaklingar nákvæmlega sömu DNA uppbyggingu. Með einangrun DNA úr lífsýnum (s.s blóði, munnvatni, hári, sæði o.s.frv.) má því tengja viðkomandi við tilteknar aðstæður/vettvang.

    

Nemendur kynna sér forsögu málsins sem er sú  að maður finnst myrtur innan veggja skólans og er málið allt hið dularfyllsta. Lífsýni á formi húðflagna finnast í talsverðum mæli undir nöglum fórnarlambsins, sem eru ekki fórnarlambsins sjálfs. Auk þess finnast á vettvangi líkamsleifar (bein), skotvopn, líffæri af óþekktum uppruna auk smærri vísbendinga sem nemendur þurfa að rýna í og setja í samhengi við málið. Þar sem veður hefur aftrað öllum samgöngum til Eyja um nokkurt skeið er það nemenda að vinna að DNA greiningu og fá frekari lausn í viðkomandi máli.

PCR mögnun sem nemendur kynna sér er rannsóknaraðferð sem er gríðarlega mikilvæg í greinum einsog erfðafræði, örverufræði og sameindalíffæði. Við morðrannsóknina læra nemendur að útbúa bufferlausnir, að steypa agarósa rafdráttargel, að undirbúa sýni fyrir rafdrátt og að hlaða sýnum á gel. Jafnframt er farið í bakgrunn aðgreiningarinnar þ.e. færslu DNA búta í rafsviði, en þar leita nemendur svara í uppbyggingu DNA sameindarinnar þar sem fosfathópar innan DNA kirna eru neikvætt hlaðnir og færast því í rafsviði.

Að lokum lesa nemendur úr gelmyndum, með því að bera DNA mynstur af vettvangi við DNA sýni fimm einstaklinga sem starfa við skólann og voru beðnir sérstaklega um blóðsýni við rannsókn þessa máls. Skerðibútagreining af þessu tagi er algeng aðferð í erfðatækni og sameindalíffræði og því mikilvægt að nemendur kynnist.

Að tengja fræðin við verklega kennslu í áfanganum eykur skilning nemenda á viðfangsefninu. Auk þess kynnir verklegi þáttur áfangans áhugasömum nemendum náttúruvísindasviðs fyrir spennandi starfsmöguleikum. 

Dr. Radinka Hadzic, PhD.

Raungreinakennari við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is