04.12.2020
Mömmukökur
Hráefni:
125 g smjör
125 g sykur
250 g sýróp
1 egg
500 g hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk engifer
Aðferð:
Bræðið saman í potti sykur, sýróp og smjör. Kælið blönduna að stofuhita og hrærið síðan eggi saman við. Bætið við sykurblönduna hveiti, matarsóda og engifer og hnoðið vel.
Pakkið deiginu inn í plastfilmu og látið standa í kæli yfir nótt. Fletjið deigið út mjög þunnt eða þannig að það verði aðeins um 1-2 mm að þykkt. Stingið út kökur með smákökuformi eða litlu glasi og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu.
Bakið mömmukökurnar við 180° í 5-7 mínútur. Athugið að kökurnar eru fljótar að bakast og brenna. Þær eru tilbúnar þegar þær verða rétt ljósbrúnar. Látið mömmukökurnar kólna og harðna á bökunarpappírnum áður en þær eru teknar af.
Smjörkrem
Hráefni:
150 g mjúkt smjör
200-250 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Þeytið saman smjör, flórsykur og vanilludropa. Setjið smjörkrem í sprautupoka og sprautið á miðjuna á helmingnum af mömmukökunum. Leggið síðan smákökur ofan á kremkökurnar og búið til samlokur. Magn af kremi fer eftir smekk hvers og eins en ég vil hafa mikið krem á mínum.
Það getur verið hundleiðinlegt að leysa smákökurnar af borðinu og oft þarf að nota hveiti til að koma í veg fyrir að deigið festist við borðflötinn. Til að fyrirbyggja slíkan sóðaskap er best að fletja deigið út á sílíkonmottu, skera smákökurnar út á henni og færa þær svo yfir á bökunarpappír. Passið bara að þrýsta smákökuforminu ekki svo fast niður að það skeri mottuna.
Geymið mömmukökurnar í plastpoka eða loftþéttu boxi.