Fimmtudagur 29. febrúar 2024

Minningargreinar um Dúllu (Maríu Friðriksdóttur)

Minningaorð Mamma

Þá skar hún af netum og bakaði brauð
Og bjargaði öllu sem að þurfti að laga.

Þetta brot úr textanum sem að Snorri Jónsson samdi um mömmu í tilefni stórafmælis þeirra hjóna eru mér
ofarlega í huga þessa dagana þegar maður er að hugsa til baka og reyna að skrifa einhver fátækleg orð um magnaða konu.
Það var nefnilega þannig á Illugagötunni að mamma gekk í öll verk sem þurfti að gera þar sem að pabbi var mikið á sjó.
Hún var skipstjórinn þar og gerði það mjög vel.

Það var mikið áfall þegar símtalið kom um morguninn þann 18. febrúar og mér var tilkynnt að þú hafir orðið bráðkvödd
að heimili þínu þá um morguninn og ég var rétt kominn til Reykjavíkur. Ég hafði talað við þig í síma kvöldið áður og
ekkert sem benti til þess að þetta væri í vændum. En ég veit að þú hefðir ekki getað skrifað betra handrit sjálf,
því á Illugagötunni hafðir þú alltaf búið og þar vildir þú vera og gast ekki hugsað þér að fara eitthvað annað.
En maður getur yljað sér við góðar minningar um einstaka móðir og einstakan karakter. Hún var ekkert að fara í
kringum hlutina heldur sagði þá beint og oftast lá henni heldur hátt rómur þannig að mun fleiri heyrðu en stóð til.
Heiðarleiki skipti Dúllu miklu máli þegar kom að því að meta fólk.

Mamma var einstaklega traust. Hún var alltaf akkeri heimilisins. Það kom í hennar hlut að ala okkur systkinin upp
og fara með okkur í gegnum grunnskólann þar sem pabbi var lítið sem ekkert heima. Hún sá nánast ein um heimilið þar
til við gátum farið að leggja henni eitthvert lið. Mamma var í rauninni kletturinn á heimilinu. Hún var mjög mikil
saumakona og saumaði hún öll föt á okkur krakkana lengi vel, einnig var hún mjög góður kokkur.

Mamma hét María en var alltaf kölluð Dúlla og fékk maður oft þessa spurningu ,“hvað heitir hún mamma þín eiginlega?“
En nafnið Dúlla fékk hún strax við fæðingu, en vegna þess að hún var ekki skírð fyrr en hún var 5 ára gömul þá þótti
það ekki við hæfi að segja frá nafni hennar fyrr en við skírnina sjálfa og var því kölluð Dúlla alla sína ævi.

Mamma hafði aldrei mikinn áhuga á íþróttum, þó hún hafi kannski aðeins fylgst með börnum og barnabörnum í gegnum
tíðina í þeim íþróttum sem þau stunduðu. En tók upp á því á efri árum að fylgjast með íþróttum í sjónvarpinu,
einkum fótbolta, og var dyggur stuðningsmaður ÍBV sem þau hjónin voru mjög dugleg að styrkja í gegnum tíðina.
En um 75 ára aldurinn fór hún að fylgjast mjög mikið með ensku deildinni og þar var hennar lið Tottenham Hotspur
og hringdi hún eftir hvern leik hjá þeim til að segja hvernig þeir hefðu staðið sig.

Söknuðurinn er mikill en ljúfar minngingar um einstaka konu munu lifa að eilífu. Farðu í friði elsku mamma mín.

Þinn sonur
Halli

________________________________________________________

 

Ég sá eina Dúllu í Eyjum
Hún eldar og saumar svo vel
Ef Beddi er á sjónum með peyjum
Þá heimilið prýðir hún og vel

Ég veit að hún ólst upp á Skálum
En dreif sig eins fljótt og hún gat
Þá kynnist hún fljótlega Bedda
Og til Eyja hún með honum sat

Þessi Dúlla er alltaf svo fín
Þessi Dúlla er alltaf svo fín
Á Illugagötu þú finnur
kannski Dúllu og Bedda með vín

Þetta lagabrot sem samið var um þig fyrir 150 ára afmæli þitt og pabba hljómar í huganum
þegar ég er að reyna að setja niður einhverjar línur um þig elsku mamma. Elsku mamma mín
það verður tómlegt núna þegar þið bæði eruð farin í sumarlandið. Það er víst alveg á hreinu
að ég vann í foreldra lottóinu, og erfitt að hugsa til þín án þess að hugurinn leyti líka til pabba.
Þið voruð svo skemmtileg hjón með sterkar skoðanir og hreinskilin að það var alltaf á hreinu hvar maður hafði ykkur.
Sú hugsun að geta hvorki hitt þig né kíkt í kaffi er erfið og nánast óbærileg. Þið pabbi voruð ólík
að mörgu leyti en samt var fjölskyldan alltaf í fyrsta sæti hjá ykkur. Stolt varst þú af barnabörnunum
þínum 7 og svo varst þú ekki síður montin þegar langömmuprinsessan kom í heiminn síðasta haust.

Mamma fylgdist náið með þeim íþróttum sem börn hennar og barnabörn stunduðu og hin seinni ár fór hún
að hafa áhuga á íþróttum og eins og hjá pabba var ÍBV og Tottenham hennar lið. Þar sem ekki voru
margir sem héldu með Tottenham bætti hún þeim í aðdáendahópinn sem ekki höfðu þegar skoðanir á
liðum enska boltans og hringdi svo í viðkomandi til þess að tilkynna þeim nýjustu úrslitin hvort
sem þau voru góð eða ekki.

Mamma lauk námi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi árið 1962 og kynntist pabba það ár.
Heimili þeirra bar alltaf vott um myndarskap hennar, og bæði eldamennska og hannyrðir léku í höndunum
á henni. Öll áttum við peysur og föt sem hún hafði gert og var eftir því tekið hversu vel þetta var gert.
Ef eitthvað var rifið eða þurfti að gera við gat maður alltaf leytað til hennar og hún reddaði málunum.
Þótt þú hafir fæðst og alist upp á Skálum þá voru Eyjarnar þitt heimili. Illugagatan var sá staður sem
þú vildir eyða þínum tíma á og tilhugsunin um að fara eitthvað annað var ekki til umræðu hjá þér þó að
heilsan hafi ekki verið upp á sitt besta svona undir það síðasta. En eftir að pabbi dó og þitt síðasta
áfall þar sem þú þurftir að ganga með göngugrind varst þú ekki sátt. Samviskusamlega mættir þú í sjúkraþjálfun
til Ella 3 sinnum í viku til þess að gera þitt besta með von um að ná því að geta gengið aftur og jafnvel keyra bíl.
Ég veit að þessi draumur þinn rættist ekki en þú gerðir þó þitt til þess að svo yrði. Þessar stundir í þjálfuninni
voru þér líka mikilvægar vegna þess að þar hittir þú fullt af fólki og gast spjallað um það sem þér lá á hjarta
hverju sinni. Minningin um þig um lifa með okkur um ókomin ár.

þín dóttir Magnea.

 

________________________________________________________

 

Mamma. Mögulega er þetta orð gildishlaðnasta orð íslenskrar tungu. Mamma er konan sem
fæddi mig og ól; konan sem kenndi mér að lesa og skrifa; konan sem saumaði fötin mín í
æsku og breiddi yfir mig áður en ég sofnaði. Mamma er konan sem gekk alltaf á milli þegar
ágreiningur reis umfram það sem eðlilegt mátti telja; konan sem stóð alltaf með sínum og
var til staðar þegar á þurfti að halda. Allt þetta var mamma og svo miklu meira til. Nú er
mamma fallin frá.

Ég mun seint gleyma því augnabliki þegar mér var tilkynnt um andlát mömmu. Um leið og
tilkynningin var eitthvað svo óraunveruleg og fráleit, kom á sama tíma upp í hugann
ólýsanlegt þakklæti fyrir allt sem hún hafði gert og fyrir það sem hún hafði verið. Þá komu
líka upp í hugann ýmis brosleg atvik sem skipta máli að rifja upp á slíkum stundum. Þrátt
fyrir allt framangreint eru mömmur nefnilega ekki alveg fullkomnar, þó engin komist nær því
en þær. Til að mynda gleymist seint þegar mamma fór í bæinn, þ.e. þegar ég var 7 ára
gamall og hafði farið í dagsferð með pabba á sjóinn, til að kaupa fótboltabúning
knattspyrnufélagsins Týs í Vestmannaeyjum á peyjann. Mamma var ekki meira inni í þessum
fótboltaheimi en svo að hún keypti búning stórliðs Arsenal í London, saumaði á hann
Týsmerkið og klippti niður lak svo að hún gæti útbúið töluna sjö með striki og saumað á bak
búningsins, einsog hún hafði séð í sjónvarpi. Þannig tókst henni að sameina bæjarliðið í
Eyjum stórliði Arsenal – með góðum hug einum saman. Búninginn bar ég svo með stolti í
mörg ár þar til frændi minni vélaði hann út úr mér.

Mömmu verður ekki minnst án þess að nefna pabba. Pabbi var jafnan mikið á sjónum
meðan við systkinin vorum að alast upp. Þrátt fyrir miklar fjarvistir voru þau oftast nefnd
saman þegar verið var að tala um annað þeirra, þ.e. Dúlla og Beddi. Þau voru einstaklega
samrýmd og studdu hvort annað í því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau héldu saman til
Eyja árið 1964 í því skyni að taka þar eina vetrarvertíð. Það má segja að þeirri vetrarvertíð sé
nú loks farsællega lokið hjá báðum. Það var mömmu mikið áfall þegar pabbi féll frá fyrir
fáeinum árum. Hún lét þau orð stundum falla að henni fyndist sem hann hefði aðeins farið á
sjóinn og kæmi fljótlega aftur í land. Þrátt fyrir að óhætt sé að segja að dauðinn komi manni
alltaf á óvart þá var mamma í raun og veru tilbúin til að fara þegar kallið kom.

Í dag kveðjum við þá konu sem markaði mig meira í mínum uppvexti en aðrir
samferðamenn. Hún má vera stolt af því lífi sem hún lifði og því sem hún skilur eftir sig. Það
er stundum sagt að þá fyrst verði maður fullorðinn að gengnum báðum foreldrum. Farðu í
friði mamma; þú ert svo sannarlega búin að skila þínu og ég bið fyrir kveðjur til pabba því ég
veit að þig hlakkar mikið til að hitta hann á nýjum stað.

Þinn Lúlli. 

________________________________________________________

 

Elsku amma Dúlla, ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért ekki lengur hérna hjá okkur.
Þú varst einstök og besta amma í heimi. Hver einasta minning er mér svo dýrmæt og ég er svo
þakklát fyrir að hafa haft þig. Ég á eftir að sakna þess að heyra ekki lengur röddina þína
en ég var svo heppin að við vorum bestu vinkonur og spjölluðum alltaf mjög mikið saman.

Við áttum skemmtilegt myndsímtal og mikið af símtölum rétt áður en þú kvaddir þennann heim.
En í myndsímtalinu fékkstu að sjá uppáhalds langömmubarnið þitt sem þú varst svo stolt af.
Þú varst svo ánægð þegar þú fékkst titillinn að vera orðin langamma og sérstaklega þegar
litla MB eins og þú sagðir alltaf, fékk nafnið sitt. Þú varst líka voða montin þegar þú náðir
að láta Valla halda með Tottenham og hringdir alltaf í hann eða mig þegar þeir voru búinir að spila.
Þau símtöl eigum við eftir að sakna mikið, þau voru líka svo skemmtileg og fyndin. Ég og Valli fórum
líka að heimsækja Skálar og fengum að heyra sögurnar frá þér þegar þú varst lítil og hvernig lífið var þá.
Einu sinni spurði ég þig hvað þú hefðir viljað mennta þig í og þú svaraðir fatahönnuður, enda eru allir
sammála því að þú varst góð í að prjóna og sauma. Þú varst líka frábær í eldhúsinu og það var alltaf til
einhvað gott að borða hjá þér. Ég veit líka ekki hversu oft ég kom með vinkonur mínar með mér í heimsókn
enda voru allir velkomnir á Illugagötuna. En heimsóknirnar á Illugagötuna á ég sko eftir að sakna enda á
ég fullt af minningum þaðan. Ég gæti talið endalaust upp góðar minningar um þig og við fjölskyldan eigum
eftir að minnast þín mikið. Flestar sögurnar um þig fær alla til þess að hlægja eða brosa því þú varst bara þannig karakter.

Síðustu árin þín voru þér erfið og þér fannst ekki gaman að þurfa að vera með göngugrind. En ég veit að
það er friður hjá þér núna og þú ert loksins komin til afa. Ég á eftir að sakna þín mikið og ég mun hugsa
til þín á hverjum degi. Þú átt alltaf stóran stað í hjarta mínu og ég mun aldrei gleyma hvað ég átti góða ömmu.

Takk fyrir allt amma mín, Sofðu rótt.
Þín María

 

________________________________________________________

 

Dúlla

Allt er í heiminum hverfullt, og það sem einu sinni var sjálfsagt er einn
daginn horfið á braut. Í marga áratugi fannst mér ekkert eðlilegra, þegar ég fór
til Eyja, en að gista hjá Bedda og Dúllu. Nú eru þau bæði farin til annarra
heimkynna og nú verður ekki oftar gist á Illugagötunni. Þar var vissulega oft
glatt á hjalla enda húsráðendur miklir höfðingjar heim að sækja.

Ég minnist Dúllu mágkonu minnar með mikilli hlýju og með okkur var alltaf mikil og góð
vinátta. Það er svo margs að minnast sem gaman væri að nefna og í
minningunni er svo ótal margt sem kemur upp í hugann. Það sem mig langar
m.a. að nefna er að Dúlla stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi í
Eyjafirði og sá skóli reyndist henni vel, því hún var afbragðs kokkur. Það kom
sér vel fyrir mig þegar ég var kokkur hjá Bedda og þurfti að fá leiðbeiningar um
matseldina. Maður fékk ekki betri brauðtertur og salöt en hjá Dúllu og það gat
maður auðveldlega notfært sér í kokkaríinu á sjónum. Það vita allir sem hafa
verið á sjó, að sá kokkur sem ekki eldar góðan mat, verður ekki lengi í starfi.

Annað sem ég tók strax eftir var hve hún kunni mikið af textum. Það var
sérstaklega gaman að vera með þeim hjónum á Þjóðhátíð, því eins og allir vita
er þar mikið sungið og þar naut Dúlla sín vel. Mér fannst sama hvaða lag var
sungið alltaf kunni Dúlla textana og gilti þá einu hvort þeir voru eftir þá Árna úr
Eyjum, Ása í Bæ eða aðra snillinga. Beddi og Dúlla höfðu bæði mjög gaman af
söng og tóku virkan þátt í kórastarfi eldri borgara, auk þess sem þau komu oft
fram með vinum sínum á hinum ýmsu skemmtunum. Sem tíður gestur á
Illugagötunni tók ég eftir því hve strákarnir hans Halla sóttu mikið til ömmu
sinnar, ekki bara vegna þess að hún eldaði góðan mat, heldur líka vegna
félagsskaparins og námsins. Það hefur örugglega verið gott að eiga ömmu sem
var alltaf heima og nennti að hjálpa litlum stubbum með heimanámið. Við
fráfall Dúllu mágkonu minnar þyrlast upp óteljandi margar góðar minningar
sem ég geymi með mér.

Ég vil umfram allt þakka henni fyrir allt sem hún gerði
fyrir mig í gegnum áratugina, fyrir matinn og gistinguna, en umfram allt fyrir
umhyggjuna og hlýjuna sem hún sýndi mér alla tíð. Við Sóley sendum
fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Oddsson

 

________________________________________________________

 

Elskuleg mín ? alltof, alltof stuttur tími sem við fengum að deila saman
svo mikið er víst, en góður var sá tími og mikið sem þù varst stolt og ánægð
með allt þitt fólk.

Í hvert einasta skipti sem ég hitti þig þá annað hvort spurðir þú mig útí
allt þitt fólk sem tengist mér og mitt eigið fólk eða sagðir mér fréttir
af þínum þar sem þú varst svo klárlega með puttann á púlsinum og í miklum
samskiptum við þau.
Það er ómetanlegt að finna hvað ein manneskja styður þétt við bakið á sínum.

Bjartey Ósk mín spurði spes hvort hún mætti kalla þig ömmu og það stóð sko
ekki á svarinu, já vina ég vil sko vera amma þín og glottir og svo kom,
bara alveg endilega ❤️

Orðin þín – endilega vertu dugleg að koma þó ekki væri nema í 5 til 10 mínútur
það er svo gott að fá ykkur, þetta hljómar í huganum mínum núna og ég á eftir
að sakna þín elsku Dúlla mín.

Kærleikskveðja
þín Sigurlína  

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search