Sunnudagur 25. september 2022

Minning: Ingimar Ágúst Guðmarsson

Það var auðvitað stæll á peyjanum þegar Ingimari bauð pabba kærustunnar sinnar í bíltúr á nýjum jeppa. Það þurfti aðeins að gefa karlinum inn og láta finna fyrir sér. Ingimar átti nýjan svartan Mitsubishi og það var ekið suður í Klauf og mér leist vel á bílinn en enn betur á kærastann.

Ingimar Ágúst var sonur Guðmars í Akurey en æskuslóðir okkar lágu saman á Vestmannabrautinni og ég frá Stakkholti. Ingimar og Ása Hrönn dóttir okkar voru að finna nýjan takt í lífinu og við Sigga lögðum gott til svo byrjunin yrði góð undirstaða fyrir lífið. Ingimar var sjómaður en kom fljótlega í land og vann með okkur í fjölskyldufyrirtækinu. Hann var mér stoð og stytta. Verklaginn og duglegur peyji sem var sjálfstæður og var fljótt minn besti maður, traustur og heiðarlegur. Tæki og tól, viðgerðir og hverskonar reddingar léku í höndum hans. Tærnar á mér náðu aldrei í námunda við hælana hans í þessum efnum.

Ingimar var jarðbundin og nánast fyrirferðarlítill í daglegu lífi en fór sínu fram og leysti öll mál af lipurð og hógværð. Hann var hagur á flesta hluti og mér fannst allt leika í höndum hans og klárlega hefðu hæfileikar hans getað nýst víða. Ingimar var mjög hneigður af tækjum og tólum og þegar hann stofnaði með foreldrum sínum Kranabílaþjónustuna var hann kominn á sinn draumastað. Og það steinlá að hann þjónustaði fyrst og fremst bátaflotann, sá um flutning á veiðafærum, spólaði upp nótum og trollum, mældi og strekkti víra og kom hlerum og græjum í geymslu hvenær sólahringsins sem var.

Hann var einskonar lagerstjóri fyrir stóru uppsjávarskipin og skipstjórarnir hringdu í hann þegar þá vantaði eitthvað af veiðafærum. Þarna var reyndur sjómaður í lykilhlutverki á kranabílnum sínum. Engin loðnuveiði í tvö ár tók sinn toll hjá litlu fyrirtæki en týndist í stóru myndinni en kom róti á huga dagsfarsprúðs manns. Ingimar var vakandi og sofandi yfir því að sinna starfi sínu og var alltaf klár í vinnu. Ég held að hann hafi alltaf verið í vinnugallanum og ekki fór hann í frí nema tilneyddur svo jafnvel tengdpabba hans fannst nóg um. Strákarnir hans og Ásu Hrannar voru líka tækjagæjar og Ragnar Orri löngu byrjaður að aðstoða pabba sinn í vinnunni og oft bættist Guðmar afi við. Samstilltir feðgar sem áttu svo margt sameiginlegt.

Á verkstæðinu þeirra héldu þeir bílum, krönum og blökkum gangandi og Ingimar löngum stundum einn í viðgerðum og viðhaldi. Færni hans og útsjónarsemi var viðbrugðið. En í svartasta skammdeginu þegar sólargangurinn er stystur lengdist gangan. Gönguleiðin var umlykt fjöllum og hann náði ekki að fanga eða grípa birtuna í stuttum sólargangi og löngum skuggum. Hann þurfti ekki nema einn geisla til að bjarga lífinu eða smá glætu svo hann birti til á ný, þá rekur hann tánna í brúnina og steypist í hyldýpið þar sem allt er svart, kalt og blautt.

Söknuðurinn er sár en minningin um góðan og ljúfan dreng sem var okkur svo kær lifir með okkur. Ingimar var faðir drengjanna okkar og eiginmaður Ásu Hrannar sem við munum standa vörð um í minningu Ingimars Ágústar.

Við vottum foreldrum Ingimars hjartans samúð.

Sigríður og Ásmundur Friðriksson.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is