27.04.2020
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, skrifar:
Vegna COVID-19 er brýnna en nokkru sinni að stjórnvöld geri allt sem hægt er til að efla efnahag þjóðarinnar og sporna gegn atvinnuleysi. Til þess er m.a. nauðsynlegt að heimila aukna nýtingu á auðlindum þjóðarinnar. Hér er fjallað um fiskinn í sjónum.
4. maí næstkomandi hefjast strandveiðar smábáta – handfæraveiðar. Gera má ráð fyrir að hátt í sjö hundruð smábátaeigendur muni stunda veiðarnar í ár. Til þeirra eru ætluð 11.100 tonn af óslægðum botnfiski. Að óbreyttu er hverjum og einum bát heimilt að veiða í 48 daga skipt jafnt á mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Nýting þeirra er takmörkuð við fyrstu fjóra virka daga vikunnar. Hver veiðiferð má að hámarki vara í 14 klukkustundir og aflinn má ekki fara umfram 774 kg af óslægðum þorski.
Kristján Þór skerðir strandveiðarnar
Á vef Miðjunnar þann 25.04.2020 var sagt frá að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafi ákveðið að skerða veiðiheimildir til strandveiða um tíu prósent.
„Ákvörðunin er gríðarlega mikil skerðing á veiðiheimildum. Í fyrra þá var leyft að veiða 11.100 tonn af þorski auk allt að 1.000 tonn af ufa. Nú hefur Kristján Þór, með fulltingi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir ákveðið að draga leyfilegan 1.000 tonna ufsaafla og 100 tonn karfaafla, frá því sem leyfilegt er að veiða af þorski, þannig að í ár fer þorskveiðin niður í 10.000 tonn,“ segir Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi alþingismaður.
„Þessi ákvörðun kemur þegar upp er staðið, alls ekki á óvart en ríkisstjórnin er fyrst og fremst í því að greiða götu stórútgerðarinnar með Samherja þar fremstan í flokki. Hagsmunir almennings, orðspor landsins og byggðanna skipta engu máli í hagsmunamati ríkisstjórnarinnar,“ segir Sigurjón.