Mánudagur 25. september 2023

Mikilvægast er að mæta

09.09.2020

Kristjana Björg Sveinsdóttir hjá hamarksheilsa.is tók þetta flott viðtal við Helen Dögg Karlsdóttur. Helen er ein af kennarahópnum í Hressó Líkamsrækt. Hamarkheilsa.is er flott síða með mikið af fróðleik, uppskirftum, viðtölum og fleira við mælum með því að þið kíkið inn á þá síðu.

 

Helen Dögg Karlsdóttur hefur skapað sér afar gott orðspor sem jógakennari en ekki síður fyrir sínar dásamlegu kvennadekurferðir sem slegið hafa rækilega í gegn hjá ótal konum. Starfsferill hennar er jafn fjölbreytilegur og hún sjálf. Allt frá því að vinna á verbúð í sláturhúsi 18 ára gömul í að starfa við þjónustustörf á veitingastöðum, sem vaktstjóri á skemmtistað, kenna hugleiðslu og jóga og reka fyrirtæki. Í dag rekur hún einmitt, ásamt manninum sínum, tvö fyrirtæki og kennir jóga ásamt því að byggja upp og skipuleggja einstakar kvennaferðir. Þessi kjarnakona stefnir einnig á að klára IPT einkaþjálfararéttindi í janúar á næsta ári. Mest krefjandi starfið að mati Helen er þó að sinna heimilinu og móðurhlutverkinu. 

Hvað var það upphaflega sem kveikti áhuga þinn á jóga og hugleiðslu?
Ég hef alltaf verið hrifin af indíjánum, alveg frá því ég var lítil stelpa en þá var ég indíjáni í indíjánabúning, ég alveg elskaði það. Ég fór 23ja ára gömul í fyrsta skipti í sweat sem er ævaforn hefð indíjána að hreinsa anda og líkama, tengjast alheiminum og fá svör. Ég varð alveg dolfallinn yfir öllu því sem sweatinu fylgir. Byrjaði að vinna mikið í sjálfri mér þá og var ákveðin í að losna við djöflana sem voru að reyna stjórna. Alla tíð síðan hef ég stundað mikið sweat, sjálfsvinnu og aðra hugleiðslu, Það hefur alltaf blundað í mér að kenna, sama hvað það ætti að vera. Ég er góð í að hjálpa fólki, ég veit það vegna þess að það er mér dýrmætt að sjá fólk verða betri í sínum markmiðum og draumum, oft þarf einmitt að taka á andlega hlutanum til að komast þangað. Ég hóf jóganám árið 2018 og ég segi “loksins” því ég hafði frestað því of lengi.

Hefurðu alltaf haft áhuga á heilsueflingu og andlegum málefnum?
Svarið við þessu er já, ég hef alltaf haft áhuga á andlegum málefnum. Almenn heilsuefling kom betur inn eftir að ég fullorðnaðist og skildi að við lifum ekki að eilífu, allavegana ekki í þessum líkama.

Hvaða þættir finnast þér mikilvægastir þegar kemur að því að rækta sjálfan sig?
Sýna sjálfum okkur sömu þolinmæði og við myndum sýna okkar besta vini/vinkonu. Við erum fljót að dæma okkur, gera lítið úr okkur. Flest gott kemur með smá tíma og vinnu en við gleymum okkur alltof oft, miðum okkur við aðra sem er helsta vandamálið að mínu mati. Við erum í raun að hugleiða allan sólahringinn, stöðugt að hugleiða hvað við erum ómöguleg, getum ekki, hvað þjóðfélagið vill að við ættum að gera eða vera o.s.frv. Þessar hugleiðingar fara í undirmeðvitundina og við trúum þessari vitleysu. Við ættum 100% frekar að hugsa/tala uppbyggjandi gagnvart okkur, líkt og myndum gera við okkar besta vin/vinkonu. Gera markmið út frá okkur sjálfum, ekki öðrum. Hvernig vil ég vera? Hvernig vil ég komast þangað og njóta ferðalagsins á meðan? Oft þurfum við aðstoð til að finna réttu leiðina og jafnvel aðstoð við að vita hver við erum, líkt og ég þurfti að gera og vildi gera.

Myndirðu segja að mataræðið spili sérstakt hlutverk þegar kemur að því að ná árangri í iðkuninni?
Ég held að við finnum flest fyrir líðan okkar og orku eftir því hvernig og hvað við borðum. Fyrir mig, já þá spilar mataræðið alveg klárlega inn í. Ég er ekki öfga holl enda elska ég að borða góðan mat og kann þá jafnvel að meta gott snakk segir Helen og hlær. Ég vel samt oftast hollari kostinn, við maðurinn minn erum einmitt að fara í “næringarfræði” hjá konu sem ætlar að hjálpa með næringuna á heimilinu. Okkur langar að gera betur þó að það sé ekki slæmt hjá okkur en þá er alltaf gott að læra meira og gera betur. Við eigum tvo litla peyja, t.d þá við sjáum mun á hegðun hjá þeim sem við tengjum beint við matarræðið.

Hentar jóga og hugleiðsla öllum að þínu mati?
Það góða við jóga og hugleiðslu er að það er hægt að sníða það að hverjum og einum. Við byrjum í raun þegar við fæðumst í núvitund, byrjum síðan að hreyfa okkur í yin yoga og förum svo að lyfta okkur upp í hundinn. Strákarnir mínir eru núna 3ja og fimm ára og þeim finnst gaman að taka smá jóga með mér. Eldri strákurinn er mjög virkur og það sem hefur virkað best fyrir hann er jóga öndun til að róa hugann og hjartað eða fara með bæn sem er ákveðin tenging við sjálfið. Hann biður um það sjálfur þegar honum líður illa eða á erfitt. Báðir strákarnir elska að syngja með mér indjána söngvana (möntrur)sem ég kann úr sweatinu. Við biðjum bænir og sérstaklega sá eldri elskar það. Við förum á friðsamlegan stað í huganum á kvöldin og þeir sofna út frá því mjög fljótt.

Mín reynsla hefur sýnt að jóga og hugleiðsla virkar fyrir alla aldurshópa og ætti klárlega að innleiða inn í skólana, ekki spurning. Það er auðvitað unnið út frá aldri hvernig hugleiðsla og jógað fer fram og svo framvegis. Ég myndi persónulega vilja að allstaðar í öllum skólum væri tekin 10 til 15 mínutna jákvæð sálfræði alla morgna áður en kennsla byrjar, það er svo margt hægt að gera, meðal annars hugleiðsla. Það væri vel hægt að bæta jákvæðum sálfræðitímum og kúrsum  enn frekar inn í nám og leik bæði fyrir börn og fullorðna.

Hópferðirnar hjá þér hafa verið vinsælar, geturðu sagt okkur frá þeim?
Þetta eru kvennaferðir þar sem ég hef verið að einblína á algjöra skemmtun og dekur. Það er að sjálfsögðu hinar ýmsu gerðir af jóga, hugleiðslu, djúpslökun. Ég hef boðið upp á hreint kakó, við borðum dýrindis mat saman, förum í sögu gönguferðir, bátsferðir og margt fleira.

Nú þegar Covid hefur sett strik í reikninginn á skipulagningu ferðinna, verða þær áfram í boði eftir að faraldurinn gengur yfir? Ef svo er með hvaða sniði verða þær þá?
Já Covid hefur sett strik í reikninginn. Ég ætlaði að bjóða upp á tvær helgarferðir í ágúst og tvær í september. Ég er ennþá að halda í vonina um að við getum haft eina helgi seinni partinn í september en í staðinn er ég er byrjuð að skipuleggja vetrarferðir í vetur. Það er mögnuð upplifun að vera í Eyjum á veturnar. það er auðvitað stórbrotið landslagið hér. Vetrarferðirnar yrðu þá með mjög svipuðu sniði, engin ástæða til að breyta of miklu. Að komast í dekurferð yfir vetratímann er mikill kostur að mínu mati. Ferðirnar eru fyrir allar konur sem langar að koma. En ég hugsa að ég hafi ekki ferðirnar ef aðstæður verða áfram eins og þær eru í dag vegna Covid.

Nú hefurðu lagt heilmikið af mörkum við að hjálpa öðrum til betra lífs. Af hverju ertu stoltust og hvað skiptir mestu máli þegar kemur að láta drauma rætast?
Ég er stoltust af hugrekkinu sem ég greip fyrir sjálfa mig fyrir öllum þessum árum og fór að elta draumana mína. Ég er ennþá að grípa tækifærið. Sumir hafa ræst og að öðrum er ég enn að vinna að og lifa. Nýir draumar koma og/eða breytast. Aðstæður og plön breytast. Þeir eru margir draumarnir sem ég hef og svo eru það líka “litlu hlutirnir” sem eru svo dýrmætir. Að læra meta það að hafa fyrir hlutunum er ótrúlega mikilvægt. Að gefa áfram er mikilvægast af öllu, hjálpa öðrum til betra lífs er það sem heldur mér gangandi. Ég veit að ef ég hætti að gefa áfram og sit á öllu sem ég hef öðlast andlega og veraldlega þá deyr þetta út og hefur engan tilgang lengur. Þannig er mín upplifun af lífinu sjálfu. Það skiptir mestu máli að vinna í sjálfum sér og gera plan. Bjútíið við þetta allt saman er að sjálfsvinnunni lýkur aldrei og að fylgja draumum sínum er ekki próf sem við klárum einn daginn og þá bara er þetta komið. Það er örugglega ekkert gaman við það. Við erum alltaf að gera meira og gera betur. Læra af mistökunum, standa aftur upp, halda áfram. Lifa draumana, elta draumana. Vera til staðar fyrir aðra og okkur sjálf.

Geturðu lýst þinni mögnuðustu upplifun af jóga og hugleiðslu og hvað hún hefur gert fyrir þína heilsu?
Að finna fyrir líkamanum styrkjast, liðkast og breytast þykir mér ólýsanlega frábært og gott. Það er ólýsanlegt að finna breytingu til betra, styrkingu og andlegt öryggi. Að finna árangur í jóga og hugleiðslu er það skemmtilegasta og það besta sem ég veit. Gjöfin er sú að það er ný upplifun hvern dag. Þær eru svo margar magnaðar upplifanirnar og erfitt að lýsa þeim með orðum.

Hvaða ráð myndirðu gefa þeim sem væru að stíga sín fyrstu skref í jóga og hugleiðslu?
Mæta á staðinn. Við þurfum ekki að gefa okkur öll að þessu í fyrsta skipti og hvað þá í öll skiptin. Getum tekið smá eða mikið, algjörlega eftir því hvernig okkur líður. Ég er oft á þeim stað að ég vil frekar vera í mýktinni í jóga. Það er svo gott við jógatíma að maður getur mætt sér algjörlega á þeim stað sem maður er þá stundina. Við eigum öll misjafna daga. Við erum þarna alltaf á okkar forsendum. Mikilvægast af öllu er að mæta. Hugarfarið breytist um leið og við erum mætt og skapar þá líka þakklæti sem er jú lykillinn að vellíðan og hamingju.

Hér er instagramsíða Helen: jogadogg og FB síða: Yogadogg

Kristjana Björg Sveinsdóttir hjá hamarksheilsa.is tók þetta flott viðtal við Helen 

Hámarkheilsa.is er flott síða með helling af fróðleik, uppskirftum, viðtölum og fleira við mælum með því að þið kíkið inn á þá síðu.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is