Á síðasta fundi fjölskyldu- og fræðslusviðs kynnti Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri GRV, skýrslu um teymiskennslu við GRV.
Teymiskennsla hófst í 5. bekk skólaárið 2019-2020. Þá voru fjórir kennarar sem voru með einn árgang, en að jafnaði eru 3 kennarar á hverjum árgangi. Í teymiskennslunni eru allir fjórir kennararnir umsjónarkennarar allra nemenda í árganginum og þannig dreifist öll ábyrgð á þessa fjóra kennara þegar kemur að öllum þáttum kennarastarfsins. Nemendur og foreldrar geta leitað til þess eða þeirra kennara sem þeir kjósa varðandi nám eða önnur skólatengd málefni. Kennarar bera sameiginlega ábyrgð á öllu námi og undirbúningi í starfinu.
„Teymið sem hóf þessa vegferð vann vel saman og vel gekk að innleiða þessa hugsun meðal nemenda og foreldra en auðvitað tók tíma fyrir alla að ná vissum takti. Þetta teymi vann með árgang 2009 í tvöskólaár. Á þriðja skólaárinu (2021-2022) tók teymið við 5. bekk (árgangur 2011) á nýjan leik og er á þessu skólaári að klára þann árgang í 6. bekk,“ segir Anna Rós í yfirferð sinni.
„Skólaárið 2020-2021, þegar áðurnefnt teymi var með 6. bekk á sínu öðru ári í teymiskennslu var ætlunin að hefja teymiskennslu í 5. bekk. Nýtt teymi var myndað og hafist var handa. Í stuttu máli þá gekk ekki eins vel að innleiða teymiskennsluhugsunina þar inn í kennarahópinn og foreldrahópinn. Telja stjórnendur að heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á innleiðinguna auk þess sem teymið var ekki að kenna saman öll bókleg fög í árganginum líkt og fyrsta teymið sem fór af stað. Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við menntavísindasvið HÍ var okkur til halds og trausts í upphafi vegferðarinnar en hann er sá íslenski fræðimaður sem hefur hvað mest athugað teymiskennslu í skólastarfi. Að sögn Ingvars kom það ekkert á óvart að ekki hafi gengið eins vel að innleiða teymiskennsluna í síðara teyminu þar sem það kemur iðulega upp að teymi nái ekki að vinna saman innan þeirrar hugmyndafræði sem felst í teymiskennslu.
Þegar ljóst var að ekki var hægt að halda uppi öðru teymi, líku því fyrsta, var stefnan tekin á að innleiða teymishugsunina í stærðfræði- og íslenskukennslu í þeim árgöngum á miðstigi sem ekki voru í umsjónarteymiskennslu. Þessi nálgun hefur fest sig í sessi og er nú svo komið að tveir árgangar af þremur á miðstigi eru að vinna með teymiskennsluhugmyndir í stærðfræði og íslensku. Þannig kemur fjórði kennarinn, sem er reynslumikill í þessum fögum, inn í umsjónarkennarahópana og vinnur í teymum með umsjónarkennurum.
Á sama tíma og við vorum að innleiða teymiskennslu á miðstigi erum við að vinna í þróunarverkefninu “Kveikjum neistann”. Einn af áherslupunktum Kveikjum neistans er að hafa markvissa þjálfunartíma fyrir nemendur í stærðfræði og íslensku, og sáu stjórnendur fljótt sameiginlega fleti á milli teymiskennsluhugmynda og þjálfunartíma í Kveikjum neistann. Stjórnendur sjá fyrir sér að þegar Kveikjum neistann verður orðinn að veruleika í öllum árgöngum GRV má taka inn hugmyndir úr teymiskennslu í þjálfunartímana og efla þar með nemendur okkar í grunnfærni
íslensku og stærðfræði.“