Miðvikudagur 17. júlí 2024

Með hríðskotabyssu í fanginu

Það eru nokkur ár frá því að Ríkisútvarpið og aðrir fjölmiðlar á vinstri vængnum „slaufuðu“ mér, vegna umræðu um hælisleitendur. Það gerðu auðvitað fleiri og er ég enn minntur á yfirlýsingar sumra flokksfélaga minna af sama tilefni. Þetta gerðist í kjölfar varnaðarorða minna um óhefta fjölgun hælisleitenda í landinu. Þrátt fyrir það var fjöldi þeirra á þeim tíma líklega um þriðjungur þess sem síðar varð. Hann er löngu orðinn óviðráðanlegur fyrir lítið samfélag á Íslandi. Á þeim tíma kallaði ég eftir því að bakgrunnsskoðun færi fram á þeim sem hingað kæmu og að við gættum ítrustu varna við landamæri landsins.
Það var og er vitað að til landsins streyma skipulagðir hópar undir merkjum hælisleitenda til að stunda hér mansal og aðra skipulagða brotastarfsemi. Þrátt fyrir viðleitni til að efla landamæraeftirlit og löggæslu dugar það hvergi nærri til. Lögreglan er hundelt í störfum sínum þegar koma á fólki úr landi sem hefur fengið synjun á hælisumsókn á öllum stigum, jafnvel fyrir dómstólum. Þar ganga fremstir í fylkingu vinstrisinnaðir fjölmiðlar, píratar allra flokka og öfgamenn á vinstri vængnum.

Hverra hagsmuna er verið að gæta
Nýlega bárust fréttir frá Danmörku um að grunur væri uppi um undirbúning hryðjuverka þar í landi sem tengdust Hamas hryðjuverkasamtökunum. Dómsmálaráðherra Danmerkur, Peter Hummelgaard, segir hin meintu tengsl einstaklinga, sem danska lögreglan handtók nýlega, við Hamas staðfesta alvarlega hryðjuverkaógn gagnvart Danmörku. Af þessum ástæðum er hryðjuverkaógn metin alvarleg í Danmörku.
Við Alþingi Íslendinga hafa Palestínumenn komið sér fyrir í tjaldbúðum. Vegna myndbirtinga þeirra sjálfra og íslenskra stuðningsmanna er auðvelt að fletta upp viðkomandi einstaklingum á samfélagsmiðlum. Við þá yfirferð dúkkar ýmislegt upp sem vekur mikinn óhug, m.a. afdráttarlaus stuðningur við Hamas hryðjuverkasamtökin, myndir af svokölluðum píslarvottum, viðkomandi með hríðskotavopn í fanginu. Þar að auki ýmis óhugnanlegur stríðsboðskapur og hatursorðræða. Þetta er sem sagt að finna í hópi tjaldbúanna sem studdir eru af þingmönnum Pírata, pírötunum í Viðreisn og Samfylkingunni. Sömu þingmenn berjast gegn auknum valdheimildum og rannsóknarheimildum lögreglunnar. Þá erum við að tala um að taka upp sömu valdheimildir lögreglu og önnur Norðurlönd búa við. Ekkert umfram það.
Er það mögulega svo að þessir þingmenn vilji ekki gera allt sem er í valdi Alþingis til að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi og mansal í landinu? Hverra hagsmuna eru þeir að gæta?

Slaufa einstaklingum
Þetta er fólkið sem er í liði með Reykjavíkurborg sem skýtur skjólshúsi yfir og sendir einkennileg skilaboð til þjóðarinnar um vanvirðingu við Austurvöll og nágrenni hans. Austurvöll sem geymir styttuna af Jóni forseta, Dómkirkjuna og Alþingishúsið. Hér má ekki gleyma þætti vinstri sinnaðra fjölmiðla sem flytja daglegar fréttir úr búðunum á Austurvelli, en birta ekki upplýsingar um einstaklinga sem þar halda til. Er þeim þó í lófa lagið að afla sér slíkra upplýsinga.
Ríkisútvarpið og aðrir vinstrisinnaðir fjölmiðlar stjórna umræðunni í landinu. Meðal annars með því að slaufa einstaklingum sem ekki eru í náðinni en hafa frá upphafi kallað eftir vandaðri vinnubrögðum og varkárni í útlendingamálum. Á dögunum var hælisleitenda, sem er talinn vera liðsmaður ÍSIS, vísað úr landi. Ábyrgð fjölmiðla er mikil nú þegar raunveruleikinn kemur aftan að okkur. Vonandi líta þeir til nágrannalanda okkar og láta af þöggun og ófrægingarherferðum í garð þeirra sem er sannarlega annt um íslenskt samfélag. Vonandi er það ekki um seinan.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search