Þriðjudagur 16. apríl 2024

Margt gerðist, sem betur fer! En betur má ef duga skal

Það er grunnregla í stjórnsýslu og stjórnskipan að aldrei má aðskilja vald og ábyrgð. Sá sem fer með endanlegt vald ber líka endanlega ábyrgð.

Í grein eftir bæjarfulltrúa sjálfstæðisflokksins sem birtist á netmiðlum í gær var því haldið fram, að við bæjaryfirvöld sé að sakast um hvernig Vegagerðin stendur að dýpkun Landeyjahafnar, eða öllu heldur meirihluta bæjarstjórnar. Ef þetta væri réttmæt ábending þá myndu nú heldur betur skipast skjótt veður í lofti. Þá væri samanlagt klúður Vegagerðarinnar í Landeyjahöfn – frá því að hún var opnuð fyrir 12 árum – allt á ábyrgð þeirra sem fóru fyrir bæjarstjórn á því árabili. Er réttmæt að skella skuldinni á það fólk? Nei, auðvitað ekki. En bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins kjósa samt að fara þá leið, sem er miður. Sérstaklega þar sem þeir vita betur og eru upplýstir um alla þá fundi, samtöl og erindi sem gengið hafa á milli á þessum tíma, enda samstarfið um samgöngumál verið mjög gott.

Nokkrar staðreyndir sem bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins „gleymdu“ í sinni grein:

Landeyjahöfn hefur aldrei verið opin í eins langan tíma og á þessu kjörtímabili. Höfnin lokaðist ekki vegna dýpis í rúma 20 mánuði eða frá því í byrjun maí 2019 þar til nú í janúar 2022.

Dýpkunartímabilum, sem tveir af greinahöfundum sjálfstæðisflokksins samþykktu illu heilli á sínum tíma, var eytt. Nú er alltaf skip til taks til að dýpka og viðhaldsdýpka. Það breytir öllu, annars væri ekki verið að dýpka nú í febrúar. Skipið sem boðið var stenst ekki þær kröfur sem við gerum til tæknilega getu við dýpkun hafnarinnar, og hefur það komið skýrt fram margoft.

Vegagerðin frestaði uppsetningu á föstum dælubúnaði í Landeyjahöfn árið 2019 að ósk skipstjóra Herjólfs sem höfðu áhyggjur af þrengingu á hafnarminninu sem myndi draga úr öryggi siglinga í höfnina. Þetta var rætt m.a. í bæjarstjórn.

Öflugri baráttu fyrir aukinni tæknilegri getu við dýpkun, þ.e. meiri afköst á hverja klst., hefur verið svarað með því að Vegagerðin mun gera þá auknu kröfu í útboði sem farið verður í nú í vor. Þá verður loksins fengið til verksins öflugra skip til dýpkunar.

Óásættanlegt að höfnin lokist!

Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að höfnin sé lokuð og því hefur verið komið skýrt á framfæri við Vegagerðina. Baráttan fyrir bættum samgöngum er alltaf virk. Höfnin opnast samt ekki með öskrum minnihlutans. Það er öllum algerlega ljóst.

Við munum sannarlega halda Vegagerðinni og þingmönnum við efnið á næstunni eins og við höfum gert allt þetta kjörtímabil og treystum á stuðning bæjarbúa í þeim efnum. Það hjálpar ekki í þeirri baráttu ef einstakir bæjarfulltrúar vilja létta ábyrgðinni af Vegagerðinni og færa hana yfir á bæjaryfirvöld, en þó samt ekki á þau sjálf. Þá er búið að aðskilja vald og ábyrgð – og engin verður fegnari en ábyrgðarmaður verksins; sem sé Vegagerðin.

Flugsamgöngur

Varðandi flugsamgöngur til Eyja þá datt ríkisstyrkurinn út á vakt sjálfstæðismanna árið 2010 og er það upphafið að erfiðleikum í flugsamgögnum við Eyjar. Það stendur nú vonandi til bóta, enda undirbúningsvinna í gangi hjá Vegagerðinni vegna könnunar á útboði á ríksstyrktu flugi til Eyja. Það dapurlega er að þetta vita bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins en kjósa að segja ekki frá.

Samstaða í orði en ekki á borði!

Alvarlegast er að þó að bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins eru með grein sinni að reyna að rjúfa þá samstöðu sem hefur og þarf að ríkja meðal bæjarstjórnar og bæjarbúa allra til þess að árangur náist í þessu hagsmunamáli okkar gagnvart ríkinu. Klára þarf úttekt á höfninni og bæta höfnina í framhaldinu svo að við fáum þá höfn sem okkur Eyjamönnum var lofað.

Það væri auðvitað óskandi að öll bæjarstjórnin gæti sameinast um að koma þessu brýna hagsmunamáli okkar allra heilu í höfn. Í erindisleysi sínu í bæjarpólitíkinni standast bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins hins vegar ekki þá freistingu að reyna að nýta sér óásættanlega stöðu í Landeyjahöfn til að skora flokkspólitísk stig.
Það er ljótur leikur með hagsmuni Eyjamanna.
Vinnum saman og stöndum saman.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri
Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search