Aðeins 29 sjómenn á aldrinum 60-67 ára nýta rétt sinn til töku lífeyris hjá Tryggingastofnun eins og þeir eiga rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Fram kom á Alþingi í vikunni að fjöldi sjómanna sem ættu þessi réttindi væri án efa meiri en 29 og þörf væri á að kynna sjómönnum þennan rétt. Fyrir fimm árum nýttu 52 sjómenn þessi réttindi, að því er fram kemur í Morgublaðinu þann 28.nóvember.
Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, segir að almennt virðist sjómenn ekki vita af þessum réttindum. Hann segir að talsvert sé spurt um þau og segir líklegt að félög sjómanna kynni réttindin betur heldur en gert hefur verið. Hólmgeir tekur fram að gagnaöflun geti verið erfið þar sem meðal skilyrða fyrir töku sjómannalífeyris frá og með 60 ára aldri sé að menn geti sýnt fram á að hafa stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur. Talsverð vinna geti farið í að finna hvenær og hvernig menn voru lögskráðir jafnvel nokkra áratugi aftur í tímann.
Greint er frá þessu í Morgunblaðinu þann 28.nóvember. Frosíðumyndina á hann Hlynur Ágústsson, þetta eru peyjarnir á Þórunni Sveinssdóttir.