Um nýliðna helgi fóru 14 meðlimir úr Kvennakór Vestmannaeyja á Landsmót íslenskra kvennakóra. Þar sem kórinn var stofnaður árið 2021 var þetta í fyrsta sinn sem kórinn tók þátt í landsmótinu. Gestgjafar mótsins að þessu sinni voru Kvennakór Reykjavíkur og mótið því haldið í höfuðborginni. Mótið heppnaðist afar vel að sögn kórkvenna en alls tóku 15 aðildakórar Gígjunnar, sem er landssamband íslenskra kvennakóra, þátt í mótinu. Mótið innihélt mikla og afar skemmtilega dagsskrá sem stóð yfir í þrjá daga.
„Mótið hófst með sameiginlegri æfingu í Háskólabíó þar sem um 430 konur víðsvegar að af landinu sameinuðust í tveimur lögum sem kórarnir höfðu æft hver í sínu lagi í vetur. Síðan var haldið í Hallgrímskirkju þar sem formleg opnunarhátíð hófst. Hver kór fyrir sig flutti svo lög að eigin vali á stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu á föstudeginum. Kvennakór Vestmannaeyja tók þar eyjalagið “Vor við sæinn” við undirleik kórstjórans og nýkjörins bæjarlistamanns Vestmannaeyja Kitty Kovács.
Á laugardeginum voru svo tónleikar í Háskólabíó þar sem afrakstur smiðja mótsins var fluttur. Kvennakór Vestmannaeyja tók þátt í smiðjunni “Abba og smá Bubbi” og flutti lagið „Money, money“ og „Dancing queen“ með Abba og „Strákarnir á Borginni“ með Bubba,“ sagði Kristín Halldórsdóttir, formaður Kvennakórs Vestmannaeyja í samtali við Tígul.
„Mótinu lauk svo með afar glæsilegu lokahófi í Gullhömrum í Grafarholti þar sem sungið var og dansað fram á nótt eftir afar góða þriggja rétta matarveislu.“
Þátttakendur frá Kvennakór Vestmannaeyja voru allar sammála um að hér sé á ferðinni mót sem kórinn stefnir á að taka þátt í hér eftir en Landsmót sem þetta er haldið þriðja hvert ár og verður það í höndum Kvennakórs Suðurnesja, elsta kvennakórs landsins, að skipuleggja og halda næsta mót, vorið 2026.
Næsta mál á dagsskrá hjá Kvennakór Vestmannaeyja eru svo vortónleikar kórsins en þeir verða nú haldnir í annað sinn frá stofnun kórsins. Þeir fara fram í Safnaðarheimilinu, þriðjudaginn 16. maí, kl 20:00. „Uppselt var á tónleika Kvennakórs Vestmannaeyja í fyrra og komust færri að en vildu. Við hvetjum því fólk að tryggja sér miða í tíma en forsala miða er hafin og fer fram á Kletti. Miðaverð á tónleikana eru litlar 3000 kr. Lagaval tónleikanna að þessu sinni verður afar fjölbreytt en kórinn fer með áheyrendur um víðan völl, allt frá íslenskum dægurlögum, í Baggalútslagið „Mamma þarf að djamma“, Simon og Garfunkel fá sitt pláss og lag úr söngleiknum Mary Poppins fær einnig að hljóma svo fátt eitt sé nefnt. Það er því óhætt að segja að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi,“ sagði Kristín.
Kynnir tónleikana verður hinn eini sanni Geir Jón Þórisson og Kitty Kovács stjórnar kórnum og leikur á flygilinn að sinni alkunnu snilld.