Miðvikudagur 17. júlí 2024

Máltækniáætlun kynnt: Nýjasta tækni á íslensku, takk!

Menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnti í gær áætlun um íslenska máltækni sem undirstrikar mikilvægi þess að tryggja stafræna framtíð tungumálsins. Áætlunin telur fram sjö afmarkaðar tillögur og kjarnaverkefni og byggir á fyrri máltækniáætlun ráðuneytisins. Stýrihópur um gerð máltækniáætlunar stjórnvalda, sem ráðherra skipaði 15. maí 2023, stendur að baki tillögunum sem kynntar voru.

„Með Máltækniáætlun 1 byggðum við upp innviðina, lögðum vegi og brýr fyrir tæknina sem Máltækniáætlun 2 keyrir á,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar-og viðskiptaráðherra.
Á opnum kynningarfundi í gær lýsti hún mikilvægi þess að stjórnvöld hefðu fjárfest í þróun tæknilegra innviða með Máltækniáætlun 1. Sú fjárfesting hafi verið nauðsynlegur grundvöllur þeirrar þróunar í íslensku tæknisamfélagi sem á sér stað og er undirstaða þeirra tæknilausna sem eru að koma fram á íslenskum markaði í dag og eru aðgengilegar á íslensku. Þar má nefna lausnir á borð við Bara tala, smáforrit sem kennir erlendu starfsfólki á Íslandi að læra íslensku með áherslu á starfstengdan orðaforða. Annað dæmi er sjálfvirk þýðing og textun á sjónvarpsefni sem Miðeind er að ljúka við þróun á, en það verkefni hlaut styrk úr Markáætlun í tungu og tækni, samkeppnissjóði hjá Rannís. Bæði þessi verkefni byggja á innviðalausnum sem þróaðar voru undir síðustu máltækniáætlun.

„Þetta er einmitt markmið næstu máltækniáætlunar: Að tryggja hagnýtingu þeirra máltækniinnviða sem hafa verið smíðaðir og styðja við fyrirtæki í því verkefni að þróa tæknilausnir sem skilja og tala íslensku. Við erum að tryggja það að íslenskan verði ekki skilin eftir í gífurlega hraðri tækniþróun heimsins. Við viljum tryggja það að þegar ný tæknilausn kemur á markað sem gjörbyltir innri starfsemi fyrirtækja, og getur sparað starfsfólki tíma og vinnu, þá sé sú tækni á íslensku. Íslendingar eiga að geta notað nýjustu tækni á íslensku,  nýtt sér þjónustu fyrirtækja á íslensku og talað við tæknina á íslensku.“

Sendinefnd í Kísildalinn

Sendinefnd um máltækni á vegum forseta Íslands heimsótti bandaríska tæknirisa vorið 2022, sem hluti af Máltækniáætlun 1. Sú ferð skilaði gríðarlega miklu og í kjölfarið hófst samstarf milli íslenska máltæknifyrirtækisins Miðeindar og OpenAI við að þjálfa Chat GPT-4 líkanið sérstaklega í að skilja og tjá sig á íslensku. Tugir íslenskra fyrirtækja hafa nýtt sér afrakstur þessarar vinnu með afgerandi hætti. Má sem dæmi nefna að íslenska tæknifyrirtækið Advania kynnti fyrir helgi Eya, gervigreindarlausn fyrir innri rekstur fyrirtækja, sem byggir á Chat GPT-4 og getur því skilið fyrirmæli og tjáð sig á íslensku. Einnig Ara, frá DataLab, lausn sem einnig byggir á Chat GPT-4 og talar því íslensku.

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur boðað aðra vesturferð í vor til þess að festa íslenskuna í sessi og koma henni að í nýjum lausnum hjá fyrirtækjum á borð við Microsoft og Anthropic auk annarra. „Það þýðir ekkert annað en banka upp á hjá erlendum stórfyrirtækjum og segja: „Við búum yfir heimsklassa tækni sem við erum búin að þróa og þið getið nýtt ykkur og um leið aukið samfélagslega ábyrgð ykkar við umheiminn, stuðlað að tungumálafjölbreytni í tækniheiminum og stutt við smærri tungumál,“ segir Lilja.

Máltækni- og gervigreind

Á meðal tillagna sem stýrihópurinn leggur fram í skýrslunni er að stjórnvöld vinni að því að tryggja aukna samlegð máltækni og gervigreindar og reyni að finna þessum málefnasviðum sameiginlega heimilisfesti áður en áætluninni lýkur árið 2026. Því leggur hópurinn til að menningar- og viðskiptaráðuneytið leiti eftir samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti til að kanna fýsileika þess að stofna nýja máltækni og gervigreindarstofnun, með hliðsjón af norrænum fyrirmyndum auk þess sem ráðuneytin vinni sameiginlega langtímastefnu í báðum málefnasviðum.

 

Tillögurnar sjö sem vísað var í hér að ofan eru eftirfarandi:

1. Kanna fýsileika þess að miðstöð máltækni og gervigreindar sé komið á fót í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið til að finna þeim heimilisfesti til framtíðar.
2. 60 m.kr. varið árlega í hagnýtingarverkefni í máltækni.
3. Stóraukin áhersla á kynningarstarf og ráðgjöf fyrir máltækni.
4. 100 m.kr. varið árlega í áframhaldandi þróun kjarnaverkefna í máltækni.
5. Nýtt viðhaldsfyrirkomulag fyrir máltækniinnviði sett á laggirnar.
6. Stjórnvöld séu leiðandi í innleiðingu máltæknilausna.
7. Úttekt gerð á CLARIN-samstarfinu.

Sjá áætlunina í heild hér.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search