28.05.2020
Magnús hóf ungur að árum að leika handknattleik með uppeldisfélagi sínu KA, norðan heiða. Á sínum yngri árum var Magnús ekki síðri blakmaður en handboltamaður, en okkur handboltaunnendum til happs að þá varð sú íþrótt fyrir valinu á endanum.
Maggi lék á sínum ferli með KA, síðar Akureyri og gekk svo til liðs við Fram þar sem hann lék í nokkur ár.
Árið 2011 fluttu þau hjúin, Magnús og Ester okkar Óskarsdóttir svo til Eyja og skrifaði Magnús undir samning hjá Bandalaginu. Magnús er hvers manns hugljúfi og náði mjög fljótt að stimpla sig vel inn í Eyjasamfélagið og ÍBV-fjölskylduna.
Á ferli sínum hjá ÍBV vann Maggi 8 titla, en það voru 1.deildar titilinn 2013, Íslandsmeistaratitill 2014, bikarmeistara titill 2015, þrennan 2018, meistarar meistaranna 2019 og svo loks bikarmeistaratitill núna í vor. Ásamt því að leika handknattleik hefur Magnús verið mjög virkur í félagsstarfi ÍBV og verið þjálfari hjá yngri flokkum. Magnús lék 203 deildarleiki fyrir ÍBV og skoraði í þeim 318 mörk en svo lék hann einnig 12 leiki í Evrópukeppni og skoraði í þeim 13 mörk.
Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga á sínum tíma til Eyja og allt það sem hann hefur fært klúbbnum á þessum árum.
Við þökkum Magnúsi kærlega fyrir tímann á parketinu, munum sakna þess að sjá hann ekki þar en hann verður alltaf partur af klúbbnum og mun starfa áfram með okkur!
Hérna er myndband sem við settum saman með nokkrum tilþrifum Magnúsar fyrir ÍBV:
Takk Maggi!
Greint er frá þessu á facebooksíðu handboltans.