13.04.2020
Ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður Landspítala eyddu nýverið kvöldvakt á deildum A6 og A7 í Fossvogi sem að öllu jöfnu eru lungnadeild og smitsjúkdómadeild, en eru núna sérútbúnar sem fyrir COVID19-sjúklinga. Á báðum deildum er núna mikill viðbúnaður vegna þessa erfiða heimsfaraldurs eins og sjá má í þessari mögnuðu skrásetningu myndatökumanna spítalans. Glögglega greina áhorfendur bæði mikinn hamagang í öskjunni og alvarleika ástandsins, en skynja á sama tíma samtakamátt fólksins sem lætur engan bilbug á sér finna og laumar baráttuglöðum brosum að sagnariturum með linsur á lofti.
Forstjóri Landspítala skrifaði í pistli fyrir nokkrum dögum: „Álagið á starfsemi Landspítala hefur verið ótrúlegt undanfarnar vikur. Það eru allir á dekki til að bregðast við farsóttinni sem geysar. Gríðarleg orka þúsunda öflugra starfsmanna hefur beinst að því að spítalinn geti verið sá hornsteinn sem hann á að vera og þjóðin reiknar með að hann sé … Þetta er samstillt átak allra starfsmanna og ég vil þakka ykkur innilega fyrir þolinmæði, þrautseigju og skilning á þessum ótrúlegu tímum.“
Meginviðfangsefni lungnadeildar A6 er greining, meðferð og hjúkrun sjúklinga með bráða og langvinna lungnasjúkdóma og önnur vandamál í öndunarfærum. Á deildinni eru meðal annars sérútbúnar hágæslustofur, ætlaðar mikið veikum sjúklingum sem þurfa nákvæmt eftirlit og/eða einangrun.
Starfsfólk er um 60 talsins.
Meginviðfangsefni A7 eru almenn lyflæknisfræðileg vandamál, greining, meðferð og hjúkrun sjúklinga með sýkingar og smitsjúkdóma. Á deildinni eru sérútbúnar einangrunarstofur ætlaðar sjúklingum sem þurfa einangrun vegna smitsjúkdóma eða skerts ónæmiskerfis. Þar starfa um 50 manns.
Tekið af facebooksíðu Landspítalans