Lundi Fratercula arctica

28.11.2020

Veit á sig veðrið á einhvern og boðar fisk

Lundinn hefur mörg nöfn og hefur víða komið við sögu í gegnum aldirnar að því er kemur fram í bókinni Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin sem bókaútgáfan Hólar er að gefa út núna fyrir jólin, bókin var að detta í hús sagði Guðjón hjá Hólum.

Meðal þeirra eru lundaprófastur, lundur, prestur, prófastur og skjöldur.  Austur í sveitum var fuglinn aukinheldur kallaður láki og þollákur. ,,Einnig þekkist í Vestmannaeyjum orðið kolapiltur yfir einstakling með grákámugt höfuð og litdauft, þunnt nef, en sem þó er á varpstöðvunum. Og ónefndur er hér sótari, dökkur á bringu. Sömuleiðis eru til lunda-kóngur og lundadrottning, lundaprins og lundaprinsessur, sem og lundagreifi, lundagreifynja, lundakardínáli, lundakeisari og lundasoldán (öðru nafni toppari) og jafnvel fleiri. Allt eru það litagallaðir fuglar, en soldáninn eitthvað meira en það.

Lundakóngur er til dæmis alhvítur eða hvítflekkóttur, lundadrottning hvít á bringu og vanga en með kremgult eða móbrúnt bak.

Í Vestmannaeyjum munu kynin (að minnsta kosti áður fyrr) hafa gengið

undir nöfnunum hani og húna. Unginn nefn(d)ist ýmist kofa, lundakofa, lundapésa, lundapysja, lundungi, pesja, pésa eða pysja, segir um þennan einkennisfugl Vestmannaeyja og á stundum landsins alls.

Gedjadur fugl og hardskiptinn

Snorri Björnsson á Húsafelli hefur það um lundann að segja árið 1792, að hann sé, mióg gedjadur fugl og hardskiptinn; ,,þvi so lÿtill vexti sem hann er, gengur hann af krumma

daudumm, einkumm þá þeir billtast i synum glímum firir bjórg ofann; þvi lundinn nær þä synumm rietta vijgvelli siönumm, ä hvorjumm krumme er ei so fix sem ä lande. Hann hefur gren og hólur í Eyumm, hvar hann hreidrar sig inni …; valsker, mys og rottur gieta ei lifad nærri hanns hýbijlumm,‘‘.

Þetta er sagt minna á færeyska sögn. Jónas frá Hrafnagili er með þetta aðeins öðruvísi í Íslenzkum þjóðháttum, en birtir svo viðbótarfróðleik, segir að mýs þrífist ekki í eyjum þar sem lundi verpi, heldur drepist jafnharðan. Sumir hafi því fengið sér mold úr lundaholum og flutt í bæi, þar sem músagangur hafi verið mikill, og „þótt sér að góðu Verða“.

Er mælt, að lundar, eins og aðrir svartfuglar, viti fyrir óveður, fljúgi til dæmis gjarnan „langt á land“ 2–3 dögum á undan norðanstórhríðum. „Þeir vita á sig veðrið á einhvern

hátt,“ ritar Guðmundur Friðjónsson á Sandi í Aðaldal. Og einnig er þekkt, að lundinn boði fisk á þeim stað, sem hann er að kafa.

Jón Pálsson er með þennan fróðleik í Austantórum: Þar sem fuglager, súla, máfar, teistur og lundi, safnast saman, er það eins og snjódrífa sé þar og fenni ákaft. Þetta er öruggt

merki um það, að þar undir og eigi fjarri yfirborði sjávar séu fiskitorfur miklar og síli, sem fuglagerið er að gramsa í. Sé þangað leitað með lóðir eða færi, fæst þar oft asfiski mikið á skömmum tíma.

Sögðu fyrir um veður

Jóhann Gunnar Ólafsson ritar í bókinni Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum:

Vestmannaeyingar höfðu margt, er þeir réðu af ókomna atburði. Einkum var þó ýmislegt, sem dregið var af, hverju fram mundi vinda um veðráttufar. Sérstaklega var miðað við margt í framferði fugls og fisks. Þannig sagði Hannes Jónsson, hafnsögumaður, sem fæddur var um miðja 19. öld, að það hefði þótt vita á ofsaveður, ef grásleppa sást vaða í

vatnsborðinu eða hnísa stökkva upp úr sjó, eins og léttir. Það var og talið vita á veðrabrigði, ef fýllinn hjó mikið í sjóinn, er hann sat á honum, eða ef fýllinn og mávurinn flugu lágt.

Það þótti vita á vætutíð, ef lundinn söng mikið, er hann sat á nefjum á kvöldum.

Karlmaður, fæddur 1944, uppalinn í Breiðafjarðareyjum, segir, að kæmi lundinn í fyrra lagi, átti það að merkja gott vor og sumar.

Kóngur fæddist sem bjargkorpungur

Artúr konungur, sem á að hafa verið leiðtogi Forn-Breta á seinni hluta 5. aldar og byrjun þeirrar sjöttu, endurfæddist sem bjargkorpungur, hrafn eða lundi, að því er kornísk

þjóðtrú segir, og á víst að fara um uppáhaldsstaði sína í Cornwall á Suðvestur-Englandi í einu af þeim gervum. Álíka sögn er í Wales.

Á miðöldum var lundinn borðaður á föstutíma í sumum rómversk-kristnum löndum, þótt kjötát væri þá bannað. Hann var nefnilega talinn vera fiskur að einhverju leyti. Eins var með helsingjann og nokkrar aðrar tegundir, þar á meðal hrafnsöndina.

Á Bardsey, út af strönd Wales, héldu menn á 17. öld um lundann — og að öllum líkindum var þetta gömul trú — að hann gæti ekki flogið yfir landi. Það hefur eflaust verið lóð á vogarskál kirkjunnar manna við framannefnda ákvörðunartöku.

Á þessari sömu eyju endurheimtist álka 26. júní 2004, sem hafði verið merkt þar sem ungi 2. júlí 1962, sumsé 41 ári og 359 dögum áður. Þetta er bæði heims- og Evrópumet.

Í York-skíri á Norðaustur-Englandi voru lundar tengdir göldrum og fjölkynngi. Að sjá einn á ferli boðaði eitthvað vont. Til mótvægis var hægt að gera eitt af fernu: slá hann af, kasta í hann steini, krossa sig eða þá afklæðast einhverri flík og fara í hana aftur á Röngunni.

Endurholdgaðir munkar

írskri þjóðtrú eru lundar sagðir vera endurholdgaðir munkar. Þetta endurspeglast í vísindaheitinu, sem eignað er upphafsmanni latneska tvíheitakerfisins, sænska náttúrufræðingnum Carolus Linnaeus. Hann nefndi tegundina þó upphaflega Alca arctica, árið 1758. Ættkvíslarheitið tók síðar breytingum en tegundarheitið hélt velli.

Fratercula er komið af mið-latneska orðinu fraterculus [= munkur], en það er smækkunarmynd af frater [= bróðir; fratercula er því í raun og veru litli bróðir]. Er þetta vegna útlits og hátta fuglsins. Arctica er af latneska orðinu arcticus og gríska arktikos [= norðlægur]. Vísindaheitið mætti því útleggja á íslensku ‘litli munkurinn í norðri’ eða ‘fuglinn norðlægi sem er eins og (lítill og feitur) munkur í útliti’.

Einfaldur og feiminn

Á 19. öld var maður, sem þótti einfaldur og/eða feiminn, kallaður ‘Tammie Norrie’ í Skotlandi; það var tilvísun í eitt af gælunöfnum lundans á Hjaltlandseyjum og Orkneyjum.

Í Vestur-Cornwall og Porthleven var hann meðal annars kenndur við

Lundúnabúa, af því að hann, innan um marga félaga sína og vini, minnti á langt að komna prúðbúna ferðamenn að virða fyrir sér landslagið annars hugar, svipað og hann gerir, beinandi ásjónu út á hafið, en skimandi þó jafnframt allt um kring.

Í Noregi er lundinn aflaboði, segir fisk undir þar sem hann er að kafa. Frá því um 1890 er til heimild frá eyjunni Røst, um að uppblásinn lundahamur hafi verið notaður til að ráða í veðrið. Sá hékk í bandi og af honum mátti ráða vindátt hverju sinni, og að auki hvort úrkoma var innan seilingar, þá nefnilega myndaðist vatnsdropi fremst á nefi hans.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search