Tígull heyrði af Lundapysjufjöri þar sem að hátt í 80 pysjum var bjargað þegar upptökur áttu sér stað á bryggjunni. Við heyrðum í Erlu Ásmundsdóttur sem var stödd á Eyjunni með kvikdmyndateyminu meðan tökur stóðu yfir.
Unga fólkið í tökuliðinu tók það að sér að elta uppi lundapysjur meðan tökuliðið var að skjóta. Það var þó oft þannig að pysjurnar bókstaflega duttu niður við hliðina á manni en stundum varð mikill eltingaleikur að ná í þær sem voru fráar á fæti.
Getur þú sagt okkur frá þessu kvöldi?
Þetta var frábært kvöld og nótt, við vorum við tökur við Fiskmarkaðinn. Vorum að kveikja bál við Fiskmarkaðinn og miklar tæknibrellur, eldpípur og ljóskastarar út um alla Friðarhöfnina. Ljósið er tælandi fyrir lundapysjurnar og er það trú Vestmanneyinga að þær leiti í ljósið á nóttinni er þær fljúga úr hreiðrinu. Þetta húllumhæ var til þess að pysjurnar í Klifinu og Heimakletti flugu allar á ljósasjóvið og þeim hreinlega rigndi yfir okkur.
Hvernig viðbrögð voru hjá kvikmyndateyminu og öllum þeim sem voru á staðnum?
Kvikmyndatökuliðið og leikarar höfðu aldrei séð annað eins og 50 manns sem aldrei höfðu upplifað þessi ósköp áður urðu allt í einu að 5 ára gömlum sem hlupu út um alla bryggju á eftir pysjunum. Slegist var um hverja pysju, en blessunarlega séð var það ekki handalögmálið sem skar úr um það hver hreppti hnossið enda algjör gnægð þegar lundapysjur voru annars vegar. Það er ljóst að lundastofninn, sem áður hafði verið nánast uppiskroppa sökum ætis, hefur náð sér og pysjuveiðin er nú eins og maður man eftir henni sem barn. Pólska kvikmyndateymið, og auðvitað Íslendingarnir ofan af landi (Norðurey eins og Eyjamenn kalla hana), öðluðust fljótt leikskilning og voru eins og hörðustu pysjusafnarar í Eyjum og slóust um hverja lundpysjuna og höfðu allir gaman af.
Kannski margir sem höfðu ekki upplifað pysjubjörgun áður eða hvað?
Enginn í teyminu, að eyjamönnum utanskildum, hafði upplifað neinu þessu líkt. Ég komst líka að því að lundapysjuveiðin, eða björgunaraðgerðin eins og væri réttar að kalla það, er ekki á vitorði Norðureyjaskeggja enda spurðu sumir á Messenger og Snapchat hvað við værum að gera með mörgæsir eða endur! Pólverjarnir póstuðu myndum og vídeó á fésbókina og héldu ættingjar þeirra í heimalandinu líka að þau væru að eltast við mörgæsaunga. Það vill oft gleymast hvað þetta er einstakur atburður og fordæmalaus. Lundapysjuævintýrið gerist víst bara í Heimaey og hvergi annars staðar í veröldinni.
Hvernig og hvar náðuð þið að hýsa pysjurnar?
Pysjurnar 2-3 voru settar í hvern kassa og farið var með þær í flutningabíl heim til Kristínar Sjafnar frænku minnar og Gísla Stefáns og var bílskúrinn hjá þeim fylltur af kössum og var þvílík pysjulykt í bílskúrnum að annað eins hefur ekki fundist síðustu ár fyrir utan veggi Gúanósins eða Lundabústaðanna á úteyjunum.
Hvernig gekk að ná þeim?
Það voru auðvitað ýmiss konar aðferðir, hlaup og bogur sem minntu á afkáralegar stellingar og oft var hlegið mikið af aðförunum en allt fór vel og allir höfðu ótrúlega gaman af þessu ævintýri.
Hvernig var að sleppa þeim? Tók það langan tíma?
Nei, lengstan tíma tók að vigta pysjurnar og skrá þær hjá Sea Life Trust. Við mættum 15 manns til að sleppa pysjunum við bjargsbrún Hamarsins á Torfmýri. Þeir sem eru ekki kunnugir staðháttum þá er Hamarinn yndisfagurt svæði á vesturenda Heimaeyjar. Þar sjást nánast allar úteyjar eyjaklasans og bjargið er kjörinn staður til að sleppa pysjum þar sem þær hafa góða hækkun til að ná flugtaki. Það er ákveðið listform að sleppa pysjunum, sumir kasta þeim með svokallaðri ömmukasts aðferðinni en atvinnumenn skjóta þeim eins og pappírs skutlum.
Hvernig ganga tökurnar?
Gekk rosalega vel, veðrið var aðeins að stríða okkur fyrstu dagana en síðan var bongó blíða og allt gekk upp og engin vandræði hlutust af tökunum þó ýmsir hafi haft miklar áhyggjur að hlutir færu úr böndum. Eldur og sprengingar eru ekki það sem menn eru vanir í Eyjum en þetta var fagmannlega undirbúið og unnið í samstarfi við lögreglu, slökkvilið og önnur yfirvöld. Við erum öll afar þakklát fyrir alla viðtökur í Eyjum, vinsamleg viðbrögð við öllum okkar fyrirspurnum og erfiðum spurningum og samstarfi sem ekki var sjálfgefið að öllum væri vel við. En með góðri samvinnu, trausti og vel skipulögðu liði tókst þetta allt. Allur hópurinn átti frábæran tíma í Eyjum sem á stað í hjarta allra sem tóku þátt í verkefninu. Við erum ykkur öllum þakklát.
Hvernig vildi til að þú fórst í þetta verkefni?
Í vor fékk ég símtal og beðin um að taka þátt í þessu spennandi verkefni. Ég gat alls ekki neitað því og eyddi ég því sumarfríinu mínu til þess að flytja aftur „heim“ í mánuð og vinna. Ég var að vinna í þessum brasa í um 7 ár en hætti fyrir 3 árum síðan.
Þegar að ég var spurð hvort ég þekkti einhvern sem gæti komið til okkar og aðstoðað við að keyra crewið, sjá um kaffið og meðlætið og vera covid-barnapían okkar datt mér í hug að heyra í nokkrum fjölskyldumeðlimum. Gengu því til liðs við okkur Magnús Karl bróðir, Andri Páll frændi og Sigrún Ella eða Lella frænka.
Þau komu öll inn í þetta verkefni eins og þau hefður aldrei gert neitt annað.