08.02.2020
Útlit er fyrir að meira mælist af kynþroska loðnu í leiðangri sem nú stendur yfir, heldur en í loðnumælingum í síðasta mánuði.
Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, telur þó að ekki sé tímabært að tala um einhvern kvóta, magnið sé ekki slíkt enn sem komið er. Niðurstöðurnar verða metnar í næstu viku að leiðangrinum loknum.
Auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar hafa Aðalsteinn Jónsson SU og grænlenska skipið Polar Amaroq tekið þátt í mælingum, en Börkur NK og Margrét EA leitað loðnu til að afmarka útbreiðsluna. Árni varð var við ungloðnu vestur af Vestfjörðum og hærra hlutfall af veiðiloðnu var norður af Horni. Polar og Aðalsteinn urðu varir við hrygningarloðnu við landgrunnskantinn austur og norðaustur af Langanesi og ungloðnu í Héraðsdýpi.
Framundan er verið að leita á Kolbeinseyjarsvæðinu þar sem oft hefur verið loðna á þessum árstíma, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.