Föstudagur 23. febrúar 2024

Lóa Baldvinsdóttir hélt fallega ræðu í afmæli FÍV í gær

Lóa Baldvinsdóttir Andersen fór yfir sín skólaár í Framhaldsskólanum, við hjá Tígli fengum Leyfi hjá Lóu til að birta þessa flottu ræðu: 

Ég útskrifaðist úr FÍV vorið 2000, átti reyndar að útskrifast um jólin 1998 en átti þá nokkra daga gamla Kamillu Rún og tók mér smá pásu frá námi. Sú pása stæði eflaust enn ef mamma hefði ekki verið á hliðarlínunni og hvatt mig áfram. Hún sagði alltaf að ég skyldi ná mér í menntunn því það gæti komið að því að ég yrði að sjá fyrir mér og 2-3 börnum og menntunn færði mér meiri möguleika. Einnig var ég svo heppin að búa á neðri hæðinni hjá Helgu Kristínu sem gaf það ekki eftir að ég kláraði og hjálpaði mér endalaust, sérstaklega í stærðfræðinni sem bara var ekki málið hjá framhaldsskóla-Lóu. Einmitt þetta, sem Helga Kristín gerði fyrir mig, lýsir FÍV svo vel, yndislegi skólinn okkar sem heldur svo vel og vandlega utan um hvern og einn nemanda, hvetur alla áfram, mætir unglingum þar sem þau eru stödd og hjálpar þeim að finna sína braut.
Ég segi alltaf að árin mín hér í FÍV séu besti tími sem ég hef lifað. Það er eitthvað alveg sérstakt sem gerist innan veggja þessa húss. Þegar ég byrjaði hér var pabbi minn aðstoðarskólameistari og það var afar kvíðvænlegt fyrir 16 ára unglingaskrímsli að vera í skóla sem pabbi hennar stjórnaði. En þar sem pabbi minn er svo einstaklega vel gert eintak varð þetta aldrei neitt mál, ég sat meira að segja tíma hjá honum og man hvað ég var stolt þegar hann sagði eitthvað fyndið eða nemendur komu til mín eftir tima og spurðu hvort hann væri alltaf svona skemmtilegur. Ég svaraði hátt og skýrt að það væri hann, lét það alveg liggja á milli hluta að heima væri hann bara stundum ofsa ekki skemmtilegur. En ég verð að nefna það að núna þegar skólinn fagnar 40 ára afmælinu sínu fagnar pabbi minn, Baldvin Kristjánsson, líka 40 ára starfsafmæli hér við skólann-Til hamingju pabbi minn og FÍV.
Þegar ég var hér var félagslífið mjög blómlegt og það leið varla sú vika að ekki væri eitthvað skemmtilegt að gerast. Böllin voru epísk enda allar bestu hljómsveitir landsins í sínu besta formi, þið sem vorum svo gáfuð að vera á Þjóðhátíð í ár sáuð rjómann af þessu hljómsveitum á Aldamótatónleikum sunnudagskvöldsins….og já þetta vorum við vinkonurnar fremst við sviðið og sungum með öllum lögunum. Skólaferðalögin voru á einhverju öðru stigi, rúta í 7 tíma til Akureyrar, ball á Sjallanum, íþróttamót og svo heim aftur á sunnudeginnum…athygli okkar í tímum mánudaginn eftir skólaferðalag var kannski ekki frábær en maður minn hvað það var gaman.
Helsti kostur FÍV er að hér er mannauðurinn mikill og ómetanlegur. Kennararnir eru hverjum öðrum frábærari og í minningunni sitja margar stundir sem einmitt þessir kennarar gerðu svo dásamlegar, lærdómsríkar og skemmtilegar. Ég gæfi mikið fyrir að fá að sitja einn tíma enn í sögu hjá Ragga Óskars, taka smá borðtennis við Einar Fidda og rökræða aðeins við Óla Týr um að það komi aldrei sá tími að ég þurfi að nota algebru í mínu lífi, kannski nota tækifærið núna og segi þér Óli Týr að ég hafði rangt fyrir mér. Það er ómetanlegt að hafa fengið að vera hér og læra hjá snillingunum sem hér eru, leggja hjarta sitt og sál alla daga í það að kenna framtíð þessa lands og búa hana svo vel undir það sem bíður þegar lífið tekur við.
FÍV er samfélaginu okkar hér í Eyjum afar mikilvægur, að hér skulum við eiga þennan frábæra, vel útbúna skóla með frábæru, faglegu og alltumvefjandi starfsfólki. Það eru forréttindi að unga fólkið okkar geti sótt nám hér í heimabyggð og um leið upplifað sín allra bestu ár í skjóli foreldra og kennara sem öll vilja þeim það allra besta. Vestmannaeyjabær má vera stoltur af þessum skóla og ef ég myndi ráða öllu þá væri FÍV okkar flaggskip.
Innilega til hamingju með daginn, skólastjórnendur, kennarar, starfsfólk, nemendur bæði núverandi og útskrifaðir, Vestmannaeyjar og við öll. Takk fyrir allt sem FÍV færði mér, ykkar framlag í mínu lífi verður aldrei fullþakkað.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search