Snorri Rúnarsson

Litla sæta orðið takk

Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá heiti ég Snorri Rúnarsson, ungur peyji sem kann ekki að segja nei og er þar af leiðandi mjög virkur í ýmsum félagsstörfum og má þar nefna til dæmis Leikfélag Vestmannaeyja, KFUM&K, Eyverjar, EyjaVarp og ýmislegt fleira. Það sem sennilega fæstir vita um mig er hvað ég spái og spekúlera mikið í skrítnum hlutum. Ef ég tek dæmi um hluti sem ég hef spáð lengi í er meðal annars það hvort það hafi einhver áhrif á mann hvernig veður er þegar maður fæðist… já ég veit mjög skrítið.

Almennt er ég ekkert að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að fá niðurstöður í þessar pælingar mínar. Ég spyr mikið, sennilega alveg óþolandi mikið stundum til að hafa hlutina á hreinu. Ég er svolítið Excel skjal í mér, en það á ekki við um þessar veraldlegu pælingar. Ég hef virkilega gaman að því að spjalla við fólk og heyra sögur, þá sérstaklega frá gamla tímanum, enda mjög gömul sál. Núna er ég til dæmis á fullu að grúska í sögu leikfélagsins, og skrásetja sögu þess.

En ef ég segi aðeins frá pælingunni sem er mér ofarlega í huga þessa dagana sem er mjög einföld að mínu mati en virðist vera einstaklega flókin samfélaginu, og þá á ég ekki við Vestmannaeyjasamfélaginu heldur bara allt landið og sennilega allur heimurinn eins og hann leggur sig. Ég lít á það sem eilíft verkefni að finna beztu útgáfuna af sjálfum mér, ég lét meira að segja húðflúra mig til að minna mig á það (W.W.J.D? sem stendur fyrir “Hvað myndi Jesús gera?”). ´

Stóra spurningin er “Hvað er svona erfitt við það að segja takk?” en ástæðan fyrir því að ég byrjaði að hugsa um þetta er sú hve mikinn skít fólkið okkar í framlínunni er búið að þurfa að þola… ekki bara á þessum Covid tímum heldur bara almennt. Ef þú ert stoppaður eða stoppuð af lögreglunni fyrir of hraðann akstur, þá væri það sennilega það síðasta sem þér myndi detta í hug að gera að þakka lögreglunni fyrir að stoppa þig. Sennilega myndir þú ekki byrja að hrauna yfir hana en… æji þú veist hvað ég meina. En auðvitað ættirðu að þakka fyrir, það eru mjög góð og gild rök fyrir hraðatakmörkunum í umferðinni sem ég ætla ekki að fara að útskýra neitt nánar, enda ekki mitt að gera það, það eru margir miklu færari en ég á því sviði sem myndu vilja útskýra það fyrir þig.

Ef ég nefni annað dæmi þá eru það símtölin sem eru að berast á heilbrigðisstofnanirnar sem dæmi “já góðan daginn, ekki heldur þú að það væri möguleiki á að fá bólusetninguna fyrr, er nefnilega á leiðinni til Grikklands í frí” WHAT!

Ég skora á alla landsmenn að þakka oftar fyrir sig, þú tekur sennilega ekki eftir því þegar þú ferð í matvöruverslun, ert að klára á kassanum og starfsmaðurinn segir „takk fyrir viðskiptin” eða eitthvað í þá áttina hversu mikil áhrif það hefur á þig út allan daginn. Þetta litla sæta orð TAKK getur bjargað deginum hjá fólki. Litlu „ómerkilegu” hlutirnir gera svo gríðarlega mikið fyrir okkur.

Ég sá það með eigin raun hve mikil áhrif þetta hefur á fólk þegar ég starfaði sem sölumaður í Húsasmiðjunni í Vestmannaeyjum. Einnig er ég var staddur í borg óttans fyrir skemmstu, þá ákvað ég að þakka öllum sem ég þurfti að eiga samskipti við fyrir vel unnin störf. Ég átti meðal annars í samskiptum við dyravörð sem varð alveg orðlaus yfir því að það væri verið að þakka honum fyrir en ekki hrauna yfir hann eins og hann var vanur. En hans hlutverk vara að gæta þess að öllum sóttvarnarreglum væri fylgt eftir.

Ég hvet þig til að hugsa aðeins um þetta og þakka oftar fyrir þig.

 

Snorri Rúnarsson.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search