Miðvikudagur 27. september 2023

Lítið um að vera en fullt í boði þrátt fyrir kófið

Ég hef stundum hlaupið undir bagga með stelpunum á Tígli, Lind og Kötu Laufeyju og í þessari viku lofaði ég þeim grein og taldi mig hafa nógan tíma. Svo kom að helginni og engin hugmynd hafði poppað upp en ég vildi standa við mitt. Datt þá í hug að kanna hvað hægt er að gera í Vestmannaeyjum í kófinu mikla sem setur okkur skorður. Það reyndist meira í boði en mig grunaði og verður farið yfir það helsta.

Ég hef stundum sagt að á einni helgi í Vestmannaeyjum er stundum meira að gerast en á heilu ári á sambærilegum stöðum á landinu. Síðasta helgi var ein af þessum venjulegu, lítið um að vera en þegar betur var að gáð var fullt í boði.

Og hvílík veisla sem handboltafólkið okkar bauð upp á á laugardaginn. Heimaleikir karla og kvenna í Olísdeildinni  gegn Val sem fór heim með skottið á milli lappanna.

Spennan í hámarki hjá stelpunum sem voru marki undir í hálfleik, 10:11 en unnu með einu marki 23:22. Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn og þjálfarinn, Siggi Braga sáttur með sínar konur í spjalli við mbl.is: „Ég er í skýjunum, stoltur af stelpunum og allt þetta. Öll klisjuorðin sem ég get sagt og þetta er yndislegt,“ sagði Siggi.

Að hafa málsstað

ÍBV strákarnir unnu Val með fjórum mörkum, 28:24. Í hálfleik var staðan 18:10 ÍBV í vil. Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði Eyjamanna kann að orða tilfinningar sínar og sagði við mbl.is: „Kúltúrinn í bandalaginu er orðinn ofboðslega sterkur,“ sagði Kári og nefndi nokkra leikmenn ofan af landi sem hefðu tekið út þroska með ÍBV. „Þetta eru peyjar sem komust inn í kúltúrinn og urðu betri leikmenn. Þetta skipti þá máli og eyjan var fljót að grípa þá. Það skiptir máli þegar þú ert að berjast fyrir málstað.“

Og veislan hélt áfram á laugardaginn. Karlalið ÍBV í fótbolta gerði góða ferð í Laugardalinn og vann 0:3 sigur á Þrótturum. Þar með eygja þeir von um að komast upp í efstu deild. Um þetta allt saman sagði Palli Magg á Facebokk: „Dramb er falli næst, á hvergi betur við í mannlífinu en í íþróttum og pólitík. Því segi ég með mikilli auðmýkt: takk fyrir þennan laugardag – ég veit að þeir geta ekki allir orðið svona.“

 

Um kvöldið var svo farið með frú Þorsteinu til Einsa kalda og hans fólks þar sem m.a. var boðið upp á tapasrétti. Frábær matur, yndislegt starfsfólk og góð stemming gerði kvöldið eftirminnilegt. Sjálfur er Einar Björn efni í heila grein eða meira.

Þá er það sunnudagurinn. Landakirkja og Hvítasunnusöfnuðurinn eru með öflugt starf, ekki síst um helgar. Sunnudagaskóla og barnastarf og messu og samkomu á sunnudögum. Sjálfur fer ég stundum í messu í Landakirkju og gott ef manni líður ekki aðeins betur á sálinni eftir að hafa hlutstað á þá Guðmund Örn og Viðar. Eitthvað sem hægt er að mæla með og nóg er plássið þrátt fyrir kófið.

Á sunnudaginn sleppti ég messunni en mætti í Eldheima þar sem Hulda Hákon, myndlistarkona hefur verið með sýningu á verkum sínum síðan í sumar. Komið var að lokum og bauð listakonan upp á leiðsögn um sýninguna sem hún kallar; Það sem konan gerði, bátsmaðurinn sagði og hundurinn sá. Hulda er ein af okkar öflugugustu listamönnum og var leiðsögnin á við góða messu.

Aftur að fótboltanum, stelpurnar okkar mættu Breiðabliki í Kópavogi og höfðu ekki erindi sem erfiði en koma dagar og koma ráð.

KFS bætti þetta upp með því að vinna Hamar í fyrri leik liðanna í undanúrslitum 4. deildar karla á Hásteinsvelli. Þar er gamli markakóngurinn, Gunnar Heiðar Þorvaldsson við stjórnvölinn og á möguleika á að koma sínum mönnum upp í þriðju deild.

Um þrjú leytið var það afmæli hjá tengdamömmu, Þórunni Pálsdóttur, þeirri merku konu sem varð 92 ára á sunnudaginn, 27. september. Það var mikil veisla en allt innan kófmarka. Tóta sá á eftir eiginmanninum, Grétari Þorgilssyni í vor. Mikil viðbrigði eftir 72 ár en lífið heldur áfram og hún heldur reisn sinni. Eldar sinn mat, þrífur og þvær þvotta og hugar að frímerkjasafninu sem er með þeim merkari.

Loks var kíkt á opið hús hjá Myndlistarfélagi Vestmannaeyja sem er með aðstöðu í Hvíta húsinu við Strandveg. Þar hafa 30 félagar aðstöðu til að stunda list sína. Fjölbreytnin er ótrúleg og styrkur fyrir bæjarfélagið að geta skapað þessu fólki vettvang og samfélag til að sinna listinni.

Hin árlega sýning Myndlistarfélagsins í Einarsstofu sem er opin á opnunartíma safnsins til 4. nóvember nk. Loks má minna á að söfn bæjarins eru opin um helgar.

Já, ekkert að gerast í Eyjum þessa helgina en samt fleiri viðburðir en undirritaður komst yfir að kíkja á. Stundum er þetta spurning um að standa upp úr sófanum, gleyma kófinu í smá tíma og muna að lífið gengur sinn gang, svona að mestu.

-Ómar Garðarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is