Nafn & fjölskylda: Lilja Björg Arngrímsdóttir. Gift Gísla Geir og eigum við þrjú börn, Tómas Arnar, Magnús Arnar og Þóru Elísu.
Hvaða hefðir tíðkast í fjölskyldunni í kringum jólin?
Við erum með frekar hefðbundnar jólahefðir. Njótum samverustundanna með okkar nánustu á aðventunni og förum í kirkjugarðinn með kerti á leiði hjá fólkinu okkar. Við gerum laufabrauð með ættingjum og ég baka sörur með vinkonunum sem eru skemmtilegar hefðir sem eru vonandi komnar til að vera.
Hvenær byrjið þið að setja upp jólaljós?
Við erum ekkert allt of snemma í því að setja upp ljósin en það kemur þrýstingur frá krökkunum um leið og nágrannarnir fara að setja upp ljósin.
Hvenær er jólatréð skreytt?
Við reynum að bíða með það eins lengi og hægt er því spenningurinn fyrir jólunum verður sérstaklega áþreifanlegur hjá þeim yngri þegar jólatréð er komið upp og spurningarnar um pakkana verða 10 sinnum erfiðari eftir að það er komið upp. En við höfum gert þetta um viku fyrir aðfangadag.
Er mikill munur á hefðum núna og þegar þú varst lítil og hvað þá helst?
Nei mér finnst hefðirnar ekki hafa breyst mikið. Þetta snýst aðallega um börnin í dag eins og það gerði áður og að eiga góðar stundir með fjölskyldunni.
Er eitthvað sem má alls ekki sleppa í kringum jólahátíðina?
Nei en gleymum ekki að þetta er hátíð og hennar má njóta með þeim hætti sem hver og einn kýs að gera það.