28.07.2020
Þrátt fyrir að þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafi verið aflýst þetta árið vegna kórónuveirufaraldursins verður nóg um að vera í Eyjum um helgina, í það minnsta ef eitthvað er að marka fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá því í dag.
Fjórir veitingastaðir fengu leyfi til að selja áfengi utandyra, brenna og flugeldasýning verða við Fjósaklett á föstudag og þá verða haldnir styrktartónleikar frá klukkan 23.00 1. ágúst til 03:30 2. ágúst. Þar er um að ræða tækifærisleyfi án sölu áfengis. Og verið er að vinna í að fá leyfi fyrir blysunum inn í dal á sunnudeginum kl 00:00.
Þrátt fyrir enga þjóðhátíð verður lögregla með viðbúnað og reglum um fjöldatakmarkanir verður fylgt eftir.
Áður hefur verið greint frá áhyggjum, bæði heimamanna og lögregluþjóna, vegna fjölda fólks sem muni sækja Eyjar heim um næstu helgi, þrátt fyrir enga þjóðhátíð.