Fív

Líðan og áhrif COVID-19 á framhaldsskólanema

Niðurstöður könnunar á líðan, námi og aðstæðum framhaldsskólanema sem lögð var fyrir fyrr í vetur bendir til þess að meirihluti nemenda sé ánægður með viðbrögð framhaldsskólanna við COVID-19 og upplifi sig örugg í skólanum.

Um 61% nemenda tilgreindu að faraldurinn og sóttvarnareglur hefðu haft slæm áhrif á félagslíf og talið er að 4% nemenda eigi í verulegum erfiðleikum vegna þunglyndis. Unnið er að því að efla stuðning við nemendur, m.a. með því að bæta aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:

„Markmið þessarar könnunar var að afla upplýsinga sem nýst geta til að bæta stöðu nemenda í erfiðum aðstæðum og bæta skólastarf. Þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum könnun sem þessa í samstarfi við hagsmunasamtök framhaldsskólanema og það er sérlega gagnlegt að fá sjónarmið nemenda fram með svo skýrum hætti nú þegar við vinnum að því að efla stoðþjónustu við þann fjölbreytta hóp sem stundar nám í íslenskum framhaldsskólum.“

Júlíus Viggó Ólafsson forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema:

„SÍF fagnar góðu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Gríðarlega mikilvægt er að hlustað sé á þarfir framhaldsskólanema þegar það kemur að ákvörðunum sem þá snerta. Niðurstöður könnunarinnar sýna að margt gengur vel í faraldrinum en einnig að rými sé til bætingar annarsstaðar. Það þarf að huga sérstaklega vel að nemendum í áhættuhópi vegna COVID-19 og þeim sem eiga einhvern náinn að í áhættuhópi en þar eru beittustu vopnin sveigjanleiki og góð stoðþjónusta fyrir öll.“

Könnunin var unnin af Sambandi íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) í samvinnu við mennta-og menningarmálaráðuneytið. Hún var lögð fyrir í nóvember 2020 en á þeim tíma voru flestir framhaldsskólanemar í fjarnámi og höfðu verið í nokkrar vikur. Könnunin var send til 2.500 nemenda, slembiúrtaks úr nemendaskrám framhaldsskólanna á aldrinum 16-30 ára. Alls svöruðu 1539 spurningalistanum í könnuninni og var því svarhlutfall rúm 62%.

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

·        52% nemenda svöruðu að þeir eða einhver nákominn þeim væri í áhættuhópi vegna COVID-19. Af þeim sögðust 57% vera sammála því að skólinn þeirra sýndu því skilning og kæmi til móts við þarfir þeirra. 14% kváðust ósammála þeirri fullyrðingu.

·        8% nemenda töldu sig vera í áhættuhópi vegna COVID-19 á meðan 47% nemenda sögðu að einhver nákominn sem þeir umgangast reglulega væri í áhættuhópi. Þeir nemendur eru líklegri til þess að upplifa verri andlega heilsu en aðrir.

·        61% nemenda tilgreindu að faraldurinn og sóttvarnareglur hefðu haft slæm áhrif á félagslíf sitt á meðan 5% töldu það ekki.

·        Rúmur helmingur nemenda tilgreindi að þeim gengi betur í staðnámi en fjarnámi. Tæpur fjórðungur sagðist ganga betur í fjarnámi. Fjórðungur nemenda sagði að þeim gengi jafn vel í fjarnámi og staðnámi. Tæpur helmingur (47%) nemenda tilgreindi að þau myndu vilja fá að velja sjálf á milli staðnáms og fjarnáms á meðan 16% voru því ósammála.

·        22% nemenda sögðu að þeim liði vel í fjarnámi, en 40% nemenda að þeim liði illa. Alls 37% nemenda tilgreindu að fjarnám hefði ekki áhrif á þeirra líðan. Algengara er að stúlkum líði vel í fjarnámi (26% stúlkna svaraði því til en 19% stráka).

·        77% svarenda sögðu að tækjabúnaður sem notaður er til fjarkennslu virki vel. Tæp 60% nemenda sögðu að kennsluaðferðir kennara hefðu gengið vel, en 14% að aðferðir þeirra hefðu gengið illa.

·        Um 87% nemenda tilgreindu að þeir hefðu viljað að námsmat á haustönn væri alfarið með símati (43%) eða með símati og heimaprófi (44%).

·        Um 70% nemenda kváðust ánægð með viðbrögð síns skóla vegna COVID-19, og 64% nemenda telja sig örugg í skólanum m.t.t. sóttvarna. Alls 11% kváðust því ósammála að þau væru örugg í skólanum m.t.t. sóttvarna. Þrír af hverjum fjórum svarendum tilgreindu að þeim þættu sóttvarnir í skólanum nægilega tryggðar.

·        42% nemenda kváðust hafa upplifað fjárhagserfiðleika í faraldrinum. Í hópi þeirra sem búa í leiguhúsnæði sögðust 70% hafa upplifað fjárhagserfiðleika og 63% þeirra sem taka þátt í rekstri heimilisins.

·        Talið er að 4% svarenda eigi í verulegum erfiðleikum vegna þunglyndis, um 2% karlkynsnemenda svöruðu á þann veg en 6% kvenkyns nemenda.

Smelltu hér til að kynna þér skýrslu í heild sinni. 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search