Miðvikudagur 24. apríl 2024

Lægri álögur – betri þjónusta!

Á haustin hefst hjá hverju sveitarfélagi vinna við gerð fjárhagsáætlunar komandi árs þar sem kemur fram hvernig tekna verður aflað og hvernig þeim fjármunum verður ráðstafað. 

Við slíka vinnu þurfa sveitarstjórnir að meta þjónustuna sem sveitarfélagið veitir, hvaða framkvæmda þurfi að ráðast í og hvernig útgjöld sveitarfélagsins verði fjármögnuð.

Stefna bæjarins er að veita íbúum bestu mögulegu þjónustu. Þannig hefur stefnan verið sett sérstaklega á þjónustu við barnafjölskyldur. Að því marki hafa verið stigin skref til eflingar stoðkerfis grunnskólans og leikskólagjöld að sama skapi verið aftengd vísitölu og ekki hækkað. Slíkar aðgerðir miða að því að gera Vestmannaeyjabæ að eftirsóttum búsetukosti fyrir fjölskyldufólk.

Í sumar varð ljóst að fasteignamat á landinu kæmi til með að hækka umtalsvert á næsta ári. Einna mest verður hækkunin í Vestmannaeyjum eða um 16,6% af íbúðarhúsnæði. Álagning fasteignagjalda er einn helsti tekjustofn sveitarfélaga og því ljóst að forsendur fyrir þeim tekjum hafa gerbreyst.

Fjárhagsleg staða Vestmannaeyjabæjar er sterk. Til þess að bregðast við mikilli hækkun fasteignamats samþykkti bæjarráð síðastliðinn þriðjudag að leggja til við bæjarstjórn að fasteignaskattsálagning lækki úr 0,33% í 0,291%. Þetta þýðir í sem fæstum orðum að þrátt fyrir mikla hækkun fasteignamats hækki álögur á íbúa ekki nema því sem nemur vísitöluhækkun. Að sama skapi er lagt til að álagning á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,55% á næsta ári sem er vonandi liður í því að skapa hagstæðara umhverfi fyrir rekstur fyrirtækja í bænum.

Í lífskjarasamningunum sem undirritaðir voru í vetur var sérstaklega ræddur þáttur ríkis og sveitarfélaga í því að gæta að stöðugleika íslensks efnahagslífs. Með því að lækka nú álagningu fasteignagjalda tekur Vestmannaeyjabær forystu í því að viðhalda verðstöðugleika og halda kaupmætti áfram háum.

Það er því sérstaklega ánægjulegt að leggja til lækkun á álagningarprósentu fasteignagjalda bæði á íbúða- og atvinnuhúsnæði og ég trúi ekki öðru en að samhljómur verði um tillöguna á fundi bæjarstjórnar næstkomandi fimmtudag. Hefur álagningarprósentan lækkað úr 0,35% í 0,291% frá árinu 2018.

Njáll Ragnarsson

Höfundur er formaður bæjarráðs og oddviti Eyjalistans.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search