Þóra Gísladóttir tók við sem rekstrarstjóri Sea Life Trust í lok síðasta árs.
Við munum kynna starfsmenn Sea Life Trust á næstunni. Við byrjum á henni Þóru.
Starf: Rekstrarstjóri á griðarstaðnum okkar, Beluga Whale Sanctuary.
Hvaðan ertu: Héðan. Borin og barnfæddur eyjamaður.
Hvað ertu búin að starfa lengi hjá Beluga Whale Sanctuary: Síðan á síðasta ári.
Hver er eftirminnilegasti starfsfélaginn sem þú hefur haft á safninu: Ætli ég verði ekki að segja Audrey, því ég hef hreinlega bara unnið mest með henni. Ótrúlega skemmtileg persóna og afbragðs kennari. Annars erum við með svo fjölbreyttan hóp af frábæru starfsfólki að það er ekki hægt að gera upp á milli þeirra, maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna, ekki rétt?
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér: Hver dagur er einstakur því starfið er mjög viðamikið og fjölbreytt. Það er allt frá því að búa til fjárhagsáætlanir og alveg yfir í að aðstoða dýrateymið. En ég byrja yfirleitt á því að fara yfir daginn, hvaða fundir séu planaðir, hvort það séu nýjar bókanir fyrir ferðir hjá okkur og þ.h. Svo er alltaf fundur kl 9 með dýrateyminu og hvernig dagurinn lítur út. Eftir það getur dagurinn orðið alls konar.
Eru einhverjar breytingar fram-
undan: Já ætli það verði ekki alltaf einhverjar breytingar með öllu nýju fólki. Annars langar mig að hafa meiri viðburði á safninu, hafa meira opið og svo þurfum við að koma fyrir fleiri skjáum, þegar stelpurnar fara út í Klettsvík í sumar, þannig að hægt verði að fylgjast með þeim í kvínni.
Hvað er skemmtilegasti parturinn af starfinu: Ég viðurkenni það fúslega, verandi óhóflegur aðdáandi dýra, að það að vera með á æfingum hjá mjöldrunum okkar getur ekki verið annað en skemmtilegasti parturinn. Við værum ekki að leggja þetta allt á okkur ef það væri ekki fyrir dýrin hér á safninu.
Eftirlætis dýrið sem þú hefur unnið með: Ég á nú ekkert uppáhalds dýr. Þau eru öll með svo stóra og skemmtilega karaktera. Moli kemur t.d. alltaf að glerinu þegar ég kem og sýnir listir sínar í vatninu en Moli er skrofa sem kom hingað til okkar og neitar að fara. Svo erum við með ufsahóp og einn þeirra er væntanlega sjónskertur þar sem hann fer ekki í felulitina sína eins og hinir, manni þykir alltaf vænt um hann. Og svo auðvitað stóru stelpurnar okkar sem þetta snýst að mestu um. Þær Grá og Hvít, þær eru ótrúlega skemmtilegir persónuleikar. Grá er frekar frökk og lætur ekki bjóða sér hvað sem er og Hvít frekar hlédræg og heldur sig til hlés.
Sturluð staðreynd um mjaldra: Vissir þú að mjaldrar eru ófrískir í 14 mánuði og eru svo með afkvæmi sín á spena í aðra 18 mánuði. Sem þýðir að mjaldrar eignast aðeins afkvæmi á 3ja ára fresti.