Kveikjum neistann! Áhugahvöt og árangur í Vestmannaeyjum

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vestmannaeyjabær, Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins staðfesta í dag vilja sinn til samstarfs um undirbúning og framkvæmd þróunar- og rannsóknarverkefnis í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum með það að markmiði að efla læsi og bæta líðan nemenda

Um er að ræða verkefni sem miðar að því að fylgja nemendum eftir frá upphafi grunnskólagöngu þeirra haustið 2021 og til loka hennar – alls í tíu ár.

„Núna er tíminn – við eflum skólastarf í anda nýrrar menntastefnu þar sem megináhersla er lögð á vellíðan og jafnrétti til náms. Hér í Vestmannaeyjum hefur öflugt fólk tekið höndum saman og sett sér metnaðarfull markmið um breytta kennsluhætti og nálgun sem byggir á niðurstöðum fremstu vísindamanna á sviði menntunar- og heilbrigðis,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Hvatafólk verkefnisins eru bæjaryfirvöld í Vestmannaeyja, stjórnendur Grunnskólans í Vestmanneyjum og Hermundur Sigmundsson pró­fess­or í lífeðlis­legri sál­fræði. Árangur og afurðir verkefnisins verða nýtt í þágu allra grunnskólanema á Íslandi. Sett verður á laggirnar menntarannsóknasetur í Vestmannaeyjum sem mun annast undirbúning og framkvæmd verkefnisins. Aðilar tengdir Samtökum atvinnulífsins leggja verkefninu lið með því að styrkja tvær 20% stöður gestaprófessora við rannsóknasetrið sem skipulagt verður í samvinnu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

„Þetta er mikilvægt langtímaverkefni verkefni fyrir Vestmannaeyjar, ekki aðeins fyrir skólasamfélagið heldur alla bæjarbúa. Við erum að stíga ný og spennandi skref í þróun skólastarfs. Vellíðan og árangur haldast í hendur, og hér er fólk reiðubúið að vinna þétt saman að því að bæta hvoru tveggja. Við fögnum því að hafa fengið frábært samstarfsfólk úr háskólasamfélaginu til liðs við okkur,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

80% nemenda séu læsir við lok 2. bekkjar og að allir nemendur fái markvissa þjálfun í lesskilningi alla grunnskólagönguna.

  • Að nemendur fá þjálfun sem stuðlar að framúrskarandi færni í skapandi skrifum og framsögn.
  • Að nemendur öðlist ástríðu fyrir náttúru- og umhverfisfræði.
  • Að nemendur bæti hreyfifærni, hreysti og einbeitingu sína.

Hermundur Sigmundsson hefur meðal annars fengist við rannsóknir á samspili hreyfingar og náms, mikilvægi áhugahvatar og ástríðu og áhrif líðan á námsárangur drengja og stúlkna. Hann er ötull talsmaður þess að skólakerfið mæti betur þörfum drengja og kveiki áhuga þeirra.
„Áhugi er drifkraftur árangurs – ekki síst í námi. Það sýnir sig oft skýrar hjá drengjum en stúlkum. Okkar markmið er að skólinn geti mætt nemendum þar sem þeir standa og færi þeim áskoranir við hæfi. Við viljum skapa hvetjandi umhverfi þar sem hugarfar grósku er ríkjandi í öllu starfi, og nemendur geta tendrað áhuga sinn og náð sínum eigin markmiðum með markvissri þjálfun. Í því skyni munum við huga að samspili hreyfingar, ástríðu og samveru,“ segir Hermundur Sigmundsson prófessor.

„Íslensk stjórnvöld vilja veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og allir geta lært. Þetta verkefni og sýn stjórnenda í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum er frábært dæmi um slíka nálgun. Aðilar þessa samstarfs deila framtíðarsýn nýrrar menntastefnu til ársins 2030 og mikilvægi markvissrar hagnýtingar menntarannsókna til umbóta í skólastarfi,“ segir ráðherra.

Helgi Rúnar Óskarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search