Kristján Egils með myndlistasýningu í Sæheimum – Náttúrulífsmyndir eru mitt uppáhald

Kristján Egilsson er einn af þeim listamönnum sem verða með sýningu um goslokin. Þó svo flestir þekkja hann Kidda þá bað Tígull hann um að segja aðeins frá sér

Sýningin hans opnar klukkan 17:30 í dag og verður opin til klukkan 20:00. Á morgun föstudag verður opið frá kl 18:00 til 20:00, laugardag og sunnudag kl 13:00 til 17:00.

Ég heiti Kristján Egilsson og er fyrrverandi forstöðumaður Fiska- og náttúrugripasafns Vestmannaeyja, starfaði þar í 38 ár, annars er ég lærður pípulagningameistari. Í nokkur ár var ég verkstjóri hjá Herjólfsafgreiðslunni.

Við fjölskyldan bjuggum í Noregi 1977-1978.  Ég er 81 árs gamall og er elstur af 5 systkinum.

Á mínum yngri árum var ég 3 ár til sjós á norsku flutningaskipi sem sigldi um öll heimsins höf. Á þessu tímabili kom ég til yfir 30 landa.

Skömmu eftir að ég kom heim úr siglingunum fór ég að stunda sund í gömlu sundlauginni okkar sem fór undir hraun í gosinu 1973. Þar vakti athygli mína ung stúlka, sem kenndi sund, nýútskrifuð frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Þetta sumar fór ég í sund á hverjum degi og stundum oft á dag. Að lokum krækti ég í íþróttakennarann og höfum við verið saman í 56 ár. Ágústa eiginkona mín benti

mér á fyrir skömmu, að ég hafi ekki farið í sund í 56 ár.

Eiginkona mín er Ágústa Þyri Friðriksdóttir og eigum við saman tvo syni, sem báðir starfa hjá Ríkislögreglustjóra. Synirnir hafa gefið mér tvö barnabörn og eitt fósturbarnabarn og er ég mjög hreykinn af þeim.

Náttúrulífsmyndir eru mitt uppáhald, sér í lagi fugla-ljósmyndun. Ég hef haft áhuga á myndatöku frá því að ég var unglingur. Ef eitthvað er þá hefur áhugi minn aukist með ári hverju. Myndataka er mitt aðal áhugamál og veitir mér ómælda ánægju. Mitt annað áhugamál er snóker, en ég varð Íslandsmeistari 2014 í mínum aldursflokki 67+.

Getraun á sýningunni

Ég verð með getraun á sýningunni sem gengur út á það, að ég bið sýningargesti að skrifa skemmtilegan myndatexta með myndinni og besti textinn að mati dómnefndar fær myndina að gjöf. Vinningshafi og myndatextinn birtist í næsta Tígli eftir goslokaafmælið.

Hefur þú tekið þátt í mörgum sýningum?

Ég hélt sýningu í Akógeshúsinu í júní 2002 og í sal Ferðafélags Íslands, Mörkinni, sama ár í október. Einnig var ég með sýningu í Humarhúsinu á Stokkseyri 2003. Sýningin í ár er í Náttúrugripasafninu við Heiðarveg 12, á mínum gamla vinnustað. 

Ég opna sýninguna 1. júlí 

kl. 17:30-20:00.

Sýningin er opin: 

Föstudag, laugardag og sunnudag, 

frá kl. 13:00-17:00.

Að lokum vil ég Þakka Herði Baldvinssyni og Kára Björnssyni fyrir að fá að halda sýningu mína á Náttúrugripasafninu.

Ég vil færa sérstakar þakkir svila mínum, Inga Tómasi Björnssyni, sem hefur veitt mér ómælda aðstoð við prentun og vinnslu á myndunum.

Einnig vil ég þakka eiginkonu minni Ágústu, fyrir þolinmæðina á þessu ljósmyndabrölti mínu gegnum tíðina.

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search