Bókasafn Vestmannaeyja stendur á traustum grunni og er ein elsta stofnun bæjarins, stofnað í júní 1862. Var þetta fimmta lestrarfélagið sem stofnað var á landinu og var opið öllum almenningi, en var ekki einungis fyrir embættismenn, segir á Heimaslóð. Bókasafnið hefur alltaf verið vel sótt og má það ekki síst þakka öflugu starfsfólki sem fylgist vel með útgáfu bóka og er óþreytandi í að laða fólk að safninu, ekki síst þau yngri. Á mánudagsmorguninn fjölmenntu sjöttu bekkingar Grunn-skólans á safnið sem er skreytt í anda hrekkjavökunnar sem er um næstu helgi.
Í framvarðarsveitinni eru Drífa Þöll Arnardóttir og Sóley Linda Egilsdóttir. „Bókasafnskennarinn Sæfinna Ás-björnsdóttir hafði samband við okkur um samvinnu að ratleik og tölvukennarinn Birgit Ósk Bjartmarz útfærði leikinn í spjaldtölvu,“ sagði Sóley um þennan skemmtilega leik fyrir krakka.
„Við erum að tengja bókasafnið hrekkjavökunni, finna til ákveðnar bækur, beinagrindur og annan hrylling sem er við hæfi þegar hrekkja á fólk. Um leið eru krakkarnir að læra á safnið. Hópnum er skipt í tvennt, annar hópurinn er í Einarsstofu, anddyri safnsins. Þar erum við með stóla- og bókaleik þar sem krakkarnir sitja í hring og er bók á hverjum stól. Hver les úr sinni bók í þrjár mínútur og svo skipta þau. Þannig fá þau að upplifa ólíkar bækur,“ sagði Sóley.
Hinn leikurinn var ratleikur á bókasafninu sem gekk út á að leysa ýmsar þrautir tengdar bókum og hrekkjavöku. „Þau fengu smá bókasafnskynningu í byrjun og verða svo að sjá um sig sjálf,“ sagði Drífa en bætti við að þau gætu beðið um vísbendingar ef þau ættu í erfiðleikum með einhverja þraut. „Það er frábært þegar kennarar innan skólans hafa samband við okkur og við eigum gott samstarf að allskonar verkefnum. Okkur finnst alltaf jafn gaman að fá fólk inn á safnið, sérstaklega áhugasama krakka,“ sagði Drífa.
Ekki var annað að sjá en að krakkarnir skemmtu sér vel og skreytingarnar skelfilegu gerðu sitt til að auka á stemninguna. Sama er gert á jólum og við fleiri tilefni og allt gert af mikilli ástríðu. Það er okkar lán að eiga öflugt og metnaðarfullt fólk á bókasafninu sem auk fagmennsku kann að bregða á leik okkur öllum til ánægju. Oft var þörf en nú er nauðsyn í miðju kófinu og öllu sem því fylgir.