Kótilettukvöldið var í gær fimmtudagskvöld og heppnaðist svona líka ljómandi vel, enda snillingar sem standa að þessu, þeir Pétur Steingrímsson og Gunnar Heiðar Gunnarsson.
Gunni kokkar ofan í allt liðið og honum til aðstoðar voru Hildur Sævaldssdóttir og Íris Huld Gunnarsdóttir. Það voru um það bil 250 manns sem mættu en allur ágóði rennur til Gleðigjafanna sem eru að safna sér fyrir ferð til Tenerife sem áætlað er að verði farin í mars á næsta ári.
Íslenska Ameríska lagði til rauðkál, grænar baunir og rabbabarasultuna. Sláturfélag Suðurlands gaf 50% afslátt af kótilettunum, Höddi lánaði Höllina, Einsi Kaldi lánaði eldhúsið sitt með öllu tilheyrandi.
Veislustjóri var líkt og áður Snorri Jónsson og leysti hann það verkefni þrusu vel, Kári Bjarnason, Jói Listó, Magnús Gísli Magnússon, Óli Týr, Einar Gylfi Jónsson og Ási Friðriksson héldu uppi skemmidagskrá með ræðuhöldum og ljóðafuttningi og söng.
Metþátttaka var í ár en þetta er í sjötta sinn sem kótilettukvöldið er haldið. Í byrjun var þetta hugmynd sem vaknaði hjá þeim Pétri og Gunnari um að stofna kótilettuklúbb og sáu fyrir sér að nokkrir karlar myndu hittast og gæða sér á kótilettum, segja grobbsögur af sjálfum sér, greiða aðgangseyri sem rynni í gott málefni. Þetta hefur heldur betur undið upp á sig sem er algjörlega frábært.
Pétur og Gunni þakka öllum innilega fyrir sem tóku þátt í þessu flotta kvöldi, án ykkar væri þetta ekki hægt.
Hérna eru myndir frá kvöldinu sem hann Ómar Garðarsson tók fyrir okkur á Tígli.